30.4.2013 | Blogg

Gott aðgengi er góður bissness

advania colors line
Í síðasta bloggi um aðgengismál fjallaði ég um mikilvægi þess að aðgengi að rafrænum upplýsingum og tækni sé í lagi. Hér bendi ég á viðskiptalegar ástæður góðs aðgengis og þann risastóra markað sem gott aðgengi getur opnað fyrirtækjum.

Fyrst kemur gulrótin, svo prikið

Það mætti líta á þetta blogg sem gulrótina í seríunni. Næst kemur prikbloggið sem fjallar um samfélagslega ábyrgð og hvernig lágmarksaðgengi er lögbundið. Þar á eftir koma skemmtilegu bloggin um aðferðir, tækni og aðgengisprófanir, aðgengi er oft auðveldara en þið haldið. Hvað um það, ég er viss um að í þessu bloggi finna lesendur ástæðu til þess að hafa aðgengismálin hjá sér í topplagi, nema kannski þeir sem hafa engan áhuga á fleiri notendum, viðskiptavinum eða auknum tekjum. Aðgengi er ekki blótsyrði

Fram til síðustu aldamóta sáu menn fyrir sér að aðgengi fælist í því að sérhanna vefsíður fyrir blinda og sjónskerta notendur. Aðrir gætu skoðað síðurnar eins og þær kæmu af vefkúnni. Þessi skilningur fólks var ekki alls kostar rangur á þeim tíma en nú er öldin önnur, bókstaflega.

Með tilkomu staðla frá Worldwide Web Consortium (W3C) hefur tekist að skilgreina 
  • Hvernig vafrar túlka vefsíðukóða
  • Hvernig stoðtæknihugbúnaður sækir upplýsingar úr vefsíðutré 
  • Hvernig upplýsingunum er miðlað til notandans á þann hátt sem hentar best 

Þannig er auðvelt að hanna vefi á aðgengilegan hátt án þess að skilja nákvæmlega hvernig hali með höfuðmús, sprund með skjástækkunarforrit, nörd með Nokiasíma eða verðbréfamiðlari með 23 tommu skjá skoðar þá.

Einn helsti notendaviðmótssérfræðingur Breta, Leonie Wattson lýsir þessu vel þegar hún segir: “Aðgengi er ekki blótsyrði, heldur hluti af framúrskarandi notendaupplifun

 

Flestir snjallsímanotendur eru með „aðstæðubundna fötlun“

Með tilkomu snjallsíma má segja að hlutfall notenda með "aðstæðubundna fötlun" hafi aukist í nær 100%. Notendur sem skoða vefi úr snjallsíma með litlum skjá með slæmri litaupplausn í lélegum birtuskilyrðum þurfa ekki að vera sjónskertir eða litblindir til þess að geta ekki lesið texta sem erfitt er að greina frá bakgrunni vegna slæmrar litamótstöðu. Hér má sjá nokkur dæmi um þetta.

Notendur sem skoða myndband á vef í miklum hávaða, t.d. á bar, í sturtu eða á leiðinlegri árshátíð (gerist aldrei hjá Advania) eru heyrnarskertir. Því er sniðugt að texta myndbönd sem sett eru á vefinn. 

Gerðu notendum lífið auðvelt

Notendur þurfa ekki að vera hreyfihamlaðir til þess að eiga í vandræðum með að smella á innsláttarsvæði á vefsíðu. Það er nóg að vera með lítinn snertiskjá, reyna að gera þrjá hluti í einu eða hafa fengið sér fullmikinn bjór til að eiga í vandræðum með það. Ef allir innsláttarreitir eru merktir með label tagi, sem tengt er við þá er fókus færður í reitinn þegar notandi smellir á textann í merkinu. Að hafa merkingar á öllum reitum og tengja þær við innsláttarsvæðin er ekki bara ávinningur fyrir hreyfihamlaða, heldur líka fyrir blinda eða sjónskerta notendur (textinn er sjálfkrafa lesinn þegar notandinn kemur í reitinn) og fólk sem er að fylla inn upplýsingar úr litlum snertiskjám. Þetta auðveldar notendum að sjá merkitextann og tilkynnir merkingu innsláttarreita sjálfkrafa fyrir notendur sem eru blindir og nota skjálestrarhugbúnað.
Ekki má aftra notanda með þrjá þumalfingur frá því að slá kortanúmerið sitt inn í vefpöntunina úr símanum, eða hvað? 

Þeir sem gæta þess að hjálpa notendum í gegnum kaup- og skráningarferli á vefsíðunum sínum geta hagnast verulega á því

 

Ekki fara í feluleik með vefinn þinn

Leitarvélar eru blindir og heyrnarlausir notendur sem nota ekki mús. Þær skilja ekki myndir eða margmiðlunarskrár, en nýta sér texta, titla, fyrirsagnir og margt annað til að greina síðurnar ykkar og beina fólki þangað sem virðast þurfa á þjónustu ykkar að halda. Það eru skýr tengsl milli vefaðgengis og leitarvélabestunar annars vegar og vefaðgengis og snjallsímabestunar hins vegar. Tilgangurinn með því að halda úti vefsíðu er jú að notandinn geti fundið ykkur á vefnum, skoðað hvað þið hafið upp á að bjóða og svo gert það sem hann vill við upplýsingarnar. Einfalt og kunnuglegt viðmót, skýr og einfaldur orðaforði og þægileg og notendavæn framsetning er hagur okkar allra.

Silfurlitaða flóðbylgjan skellur á netinu

Flóðbylgja eldri borgara skellur á netinu á hverjum degi, fyrirbæri sem á ensku kallast the „Silver Tsunami“. Um 40% Breta verður yfir fimmtugt árið 2020 og a.m.k. þrjár milljónir Breta á eftirlaunaaldri verði ekki bara í fullu fjöri heldur líka í fullri vinnu

Hækkandi aldri fylgja minniháttar kvillar. Sjón og heyrn skerðist og minnið stundum með, en lífsgleðin, þörfin á að taka þátt í samfélaginu, ferðast eða vafra um vefinn fer hvergi. Hækkandi meðalaldur og aukin tölvufærni eldra fólks þýðir að hér er um stóran og ört stækkandi hóp notenda og viðskiptavina að ræða. Engin furða að bandarískir markaðsfræðingar kalla þennan hóp „risann blundandi“ eða "the dosing giant."

Til að þjóna þessum hópi þarf að hafa skýrt og aðgengilegt viðmót.

Flott aðgengi fyrir fatlaða skilar sínu

En aðgengilegar vefsíður höfða ekki bara til fólks á efri árum. Tæknin er einmitt í síauknum mæli að auka atvinnuþátttöku, starfsgetu og tekjur fólks með fötlun burtséð frá aldri þess. Bandarískar rannsóknir sýna að nær 19% Bandaríkjamanna á við einhvers konar fötlun að stríða sem getur haft áhrif á hvort og hvernig það flækist um netheima. 

Hópurinn skiptist í fjóra flokka fötlunar.

•   8,2% notenda eiga við hreyfihömlun að stríða og eiga m.a. erfitt með aðnota mús
•   6,3% notenda eiga við andlega fötlun að stríða (athyglisbrest, lesblindu, o.fl.).
•   3,3% notenda eru fjarsýnir, nærsýnir, þröngsýnir eða svartsýnir, þ.e.a.s. fólk með blindu eða sjónskerðingu
•   3,1% notenda eru heyrnarskertir.

Eftir miklu er að slægjast

Um 35.000 Íslendingar eru eldri en 60 ára, samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands, 2010. Erfitt er að horfa framhjá stærð og tekjum þessa markhóps. Áætlað er að rúmlega milljarður manna eigi við einhvers konar fötlun að stríða og að tekjur hópsins nemi um fjórum trilljónum dollara á ári. Sem sagt, þessi markaður er á stærð við kínverska markaðinn, en hingað til hafa fyrirtæki verið feimin við að sækja inn á hann.

Rannsóknir sýna ávinning af góðu aðgengi

Rannsóknir benda til þess að það sé árangursríkt að bæta aðgengi að vefjum fyrirtækja og stofnana. Vefaðgengisumbætur getað skilað hagræðingu, tekjuaukningu, fleiri viðskiptavinum og betri upplifun notenda af vefsíðum. Frekari rannsókna er samt sem áður þörf á því hversu mikið bætt vefaðgengi skili sér beint í kassann hjá fyrirtækjum. Þær rannsóknir sem gerðar hafa verið benda þó til þess að fjárfesting í aðgengi skili sér margfalt til baka. Hér eru til staðar augljós sóknarfæri fyrir flesta aðila í íslenskri smásölu, netsölu og þjónustu, innanlands jafnt sem utan. 

Ekki er hægt að lofa gulli og grænum skógum ef aðgengið er í lagi, en það hlýtur að vera spennandi að átta sig á að allt að fimmtungur samfélagsins bíður spenntur eftir að komast inn í vefheiminn ykkar, svo ekki sé minnst á betri vef fyrir snjallsímanotendur, betra aðgengi leitarvéla og almennt betri upplifun fyrir alla ykkar notendur og viðskiptavini.

 
TIL BAKA Í EFNISVEITU