29.5.2013 | Blogg

Auknar fjárfestingar í UT... og sexý samþætting!

advania colors line

Um það bil fjórðungur íslenskra vinnustaða hyggst auka fjárfestingar í upplýsingatækni á þessu ári. Rétt liðlega helmingur gerir ráð fyrir svipuðum útgjöldum og undanfarin ár. Um sextán prósent ætla að rifa seglin eða skera niður fjárfestingar á þessu sviði. Samþætting hugbúnaðar og aðgerðir til að fá kerfi til að vinna betur saman eru aðalmálið á 40% vinnustaða. Fjárfestingar í upplýsingatækni fylgja gjarnan uppsveiflu í samfélaginu og þess vegna eru núna teikn á lofti að það sé eitthvað farið að rofa til í efnahagsástandinu.

Alþjóðlegur samanburður

Þetta er meðal þess sem kemur fram í forvitnilegri viðhorfskönnun Advania meðal viðskiptavina fyrirtækisins, sem gerð var í apríl og maí 2013. Spurt var um álit fólks á ýmsum málefnum í upplýsingatækni með áherslu á yfirstandandi ár. Yfir 400 manns tóku þátt. Liðlega 80% svara komu frá höfuðborgarsvæðinu. Athygli vekur að 60% svarenda voru stjórnendur. Vert er að geta að samanburður við spár alþjóðlegra ráðgjafarfyrirtækja á borð við Gartner Group og könnun UT-tímaritsins Computer Weekly leiðir í ljós að þróun útgjalda til upplýsingatækni er svipuð hér á landi og erlendis.

 

Samþætting hugbúnaðar vinsæl

Samþætting hugbúnaðar og aðgerðir til að fá kerfi til að vinna betur saman reyndust hugleikin um 40% svarenda í könnun Advania, sem var nokkuð óvænt, enda samþætting hingað til ekki endilega verið talið mest aðlaðandi hugtakið í þekkingariðnaði. Annað kom sem sagt á daginn. „Samþætting er sexý,“ eins og einn svarenda sagði. Viðskiptagreind, netverslun og mannauðskerfi voru þarna nokkrir eftirbátar með um það bil 14, 11 og 9 prósent atkvæða. Önnur verkefni voru nefnd í 14% tilvika.

Áreiðanleiki og öryggi

Hvað snertir tölvubúnað og jaðartæki, þá voru tvíburabræðurnir áreiðanleiki og stöðugleiki hugleiknir um það bil helmingi svarenda, en tæplega fjórðungur nefndi systkinin öryggi gagna og upplýsinga. Þessi niðurstaða er til dæmis í fullu samræmi við aðsókn á fróðleiksviðburði Advania, þar sem öryggisfundir hafa sett öll met í aðsókn. Jafnframt er þetta í takti við þá þróun að upplýsingatækni sé eins og fjórða veitan – þurfi að vera ávallt til reiðu, hvar og hvenær sem er; samanber hugtökin hugbúnað á krana og hugbúnað sem þjónustu (Software-as-a-Service; SaaS).

Nýjungar í vélbúnaði heitar

Liðlega fjórðungur sagði betri nýtingu á nýjungum á borð við spjaldtölvur, snjallsíma og skýjaþjónustu vera stærstu áskorunina í kerfisrekstri og notendaþjónustu. Þar á eftir komu bætt rekstraröryggi, efld þjálfun notenda og aukin miðlæg stýring með um það bil fimmtung "atkvæða". Þessi niðurstaða heldur sömuleiðis takti við aðsókn á morgunverðarfundi Advania um snjallsíma og öpp, þar sem gestir hafa þurft frá að hverfa vegna aðsóknar. Notagildi þessarar nýju tækni er einmitt eitt af heitustu umræðuefnunum í upplýsingatækni og svokölluð „fyrirtækjaöpp“ njóta vaxandi vinsælda.

Viðskiptagreind í forgangi á alþjóðavísu

Til fróðleiks má nefna að í alþjóðlegri og árlegri könnun ráðgjafarfyrirtækisins Gartner Group meðal liðlega 2.000 stjórnenda í upplýsingatækni kemur fram að greiningartól og viðskiptagreind eru í forgangi fyrir árið 2013. Þar á eftir koma ýmis konar snjallsímalausnir (mobile), skýjaþjónusta og hópvinnubúnaður. Nútímavæðing og endurnýjun eldri upplýsingakerfa er um miðbikið í þessari könnun og þar á eftir koma UT-rekstrarþjónusta, CRM-viðskiptatengslastjórnun, sýndarvélar, öryggi og viðskiptahugbúnaður. Þetta eru svipaðar áherslur og undanfarin ár, nema hvað viðskiptagreind, snjallsímaheimurinn og skýjaþjónustan hafa rifið sig með afgerandi hætti frá heildinni.

Svipuð þróun hér og á meginlandinu

Þegar litið er til útgjaldaþróunar í upplýsingatækni á meginlandi Evrópu, þá virðist þróunin þar vera svipuð og hér á landi. Tímaritið Computer Weekly gerði áþekka könnun og Advania og þar kom á daginn að fjórðungur svarenda gerði ráð fyrir svipuðum útgjöldum milli ára, um þriðjungur á von á aukningu. Hins vegar virðast fleiri á meginlandi Evrópu gera ráð fyrir niðurskurði í útgjöldum til upplýsingatækni á yfirstandandi ári. Það er hugsanlega í takti við meinta lensku Íslendinga til að sýna óvenju mikla bjartsýni andspænis krefjandi verkefnum og þrengingum.

 

Hófleg aukning á heimsvísu

Spádómar Gartner Group fyrir útgjöld til upplýsingatækni á heimsvísu á næstu árum ganga reyndar að mestu út á afar hóflega þróun. Þannig er gert ráð fyrir 7,9% útgjaldavexti í tölvubúnaði, 3,7% aukningu í gagnaverum, 6,4% viðbót í viðskiptalausnum, 4,5% vexti í UT-rekstrarþjónustu og fjarskiptin sitja í 2% vexti.

 
TIL BAKA Í EFNISVEITU