25.6.2013 | Blogg

Viðskiptagreind getur skipt sköpum

advania colors line

Eins og vera ber horfa fyrirtæki mjög til arðsemi og ávinnings þegar þau velja viðskiptalausnir.  Arðsemi og ávinning af innleiðingu þeirra má mæla í þáttum eins og auknum afköstum, bættu gagnaöryggi og minni rekstrarkostnaði. 

Aðgangur að gögnum skiptir öllu

Einn þáttur gleymist þó gjarnan þegar ávinningur og arðsemi hugbúnaðarlausna er metinn en það er ávinningurinn af bættu aðgengi að gögnum og úrvinnslu á þeim í skýrslur og greiningar. Þessi ávinningur felst í aukinni þekkingu sem stjórnendur og starfsmenn fá á starfsemi fyrirtækisins sem leiðir til þess að auðveldara er að taka góðar ákvarðanir. 
 
Notkun viðskiptalausna eins og bókhaldskerfa og kerfa fyrir stjórnun viðskiptatengsla (CRM kerfi) felur í sér að mikið magn gagna verður til. Þessi gögn eru vistuð í undirliggjandi gagnagrunnum. Í þessum gögnum eru viðskiptafærslur og upplýsingar um þær. Til dæmis má nefna að ef reikningur er stofnaður í bókhaldskerfi verða til upplýsingar um reikninginn og viðkomandi viðskiptavin. Einnig verða til upplýsingar um hvaða starfsmaður stofnaði reikninginn, vegna hvaða vöru er gjaldfært og hvenær það gerðist. Slíkar upplýsingar geta sagt heilmikið um hvernig fyrirtæki starfa í raun og veru. 

Fæst bókhaldskerfi duga ein og sér 

Ekki er óeðlilegt að gefa sér að best sé að safna gögnum í þeim kerfum sem þau eru upprunin í. Þetta stenst þó ekki alltaf. Í fyrsta lagi getur aðgangur að viðskiptakerfum verið takmarkaður. Í öðru lagi er stundum aðeins hægt að nálgast gögnin með því að fara í hverja einustu færslu  eða nýta sér skýrslugerð í viðkomandi hugbúnaði. Oftar en ekki er skýrslugerðarvirknin ósveigjanleg og það getur krafist sérhæfðrar þekkinga að breyta því hvaða skýrslur eru sýnilegar. Að síðustu má nefna að stundum er ekki hægt að taka út skýrslur fyrir margt af því sem menn vilja greina í rekstrinum með því að nota eingöngu viðskiptakerfi.  

Viðskiptagreindarhugbúnaður er svarið

Vilji menn bæta ákvörðunartöku í rekstri fyrirtækja og nýta til þess greiningar á gögnum þeim sem verða til í daglegum rekstri fyrirtækisins þarf að grípa til innleiðingar á sérhæfðu viðskiptagreindarkerfi (BI kerfi). Þetta skýrist af stórum hluta af því að gögn frá viðskiptakerfum eru vistuð í gagnagrunna. Viðskiptagreindarhugbúnaður sækir gögnin í þessa gagnagrunna og vinnur úr þeim óháð því hvar þau verða til. 

Viðskiptagreindarhugbúnaður gerir notendum kleift að búa til skýrslur og greiningar sem geta svo þróast eftir því sem fyrirtæki stækkar og breytist. Þegar rétt er að málum staðið hjálpar viðskiptagreind stjórnendum og starfsmönnum að taka réttar ákvarðanir. Þetta getur skipt fyrirtækið og rekstur þess öllu máli.


TIL BAKA Í EFNISVEITU