11.9.2013 | Blogg

Eru spjaldtölvur rétta lausnin fyrir íslenska skóla?

advania colors line
Þegar iPaddinn leit dagsins ljós fyrir nokkru fannst einhverjum þetta léttvægt tæki með takmarkaða notkunarmöguleika. Svo lítur maður út eins og hálfviti þegar maður tekur myndir á iPad. Nú, þegar rétt um 100 milljónir (84 milljónir seldar í september 2012) slíkra tækja hafa selst er óhætt að segja að þeir hinir sömu hafi vaðið í villu og svíma. Þegar öllu er á botninn hvolft ætti umræðan samt ekki að snúast um hvað tækið getur ekki gert, heldur alla þá möguleika sem skapast þegar hinir takmörkuðu eiginleikar þess eru nýttir út í ystu æsar. 

Hentar vel fyrir kraftaverk

Strax í upphafi fóru nýjungagjarnir kennarar að prófa sig áfram með græjuna og vildu vita hvort hún væri brúkleg í skólastarfi. Þeir sáu fljótt að svo var enda var ýmislegt við iPaddinn sem höfðaði til fólks, sérstaklega barna og unglinga: stór snertiskjár sem sló strax í gegn enda virtist milliliðurinn (músin) allt í einu hafa þvælst fyrir í hefðbundinni tölvuvinnslu. Þannig virtist iPaddinn bjóða upp á „nánara“ samstarf, betri tengingu við tæknina og helstu aðgerðir. Þá var nákvæmni og næmni skjásins byltingarkennd. Hægt var að vinna með fleiri fingur en einn og snúa, stækka, færa upp/niður/til hliðar og þysja inn/út (súmma). Allt í einu var vinnuvélin hjá Tony Stark komin inn á hvert heimili. Þar fyrir utan er hreyfiskynjari sem hagar skjámynd eftir stöðu tækisins og metur jafnvel hreyfingu, tenging við internet gegnum þráðlaust net, Bluetooth, jafnvel 3G seinni tíma tækja, myndavél, vídeókamera, hljóðnemi – það er allt til staðar til að gera kraftaverk.

 

Vantaði góðan kennsluhugbúnað

Kraftaverkin létu þó bíða eftir sér. Kennarar rembdust sem rjúpur við staura en útbreiðsla tækisins í skólum varð lítil sem engin. Hún var dýr fyrir fjársvelt skólakerfi og aðrir hlutir gengu fyrir. Það sem hamlaði einnig notkun tækisins í skólastarfi var hugbúnaðarskortur enda tók bransinn ekki við sér fyrr en nokkuð var liðið á líftíma fyrsta iPadsins. Þessi veruleiki er gerbreyttur í dag þar sem öpp (ég nenni ekki að pikka orðið „smáforrit“) hönnuð fyrir skóla og kennslu eru orðin rétt tæp 40.000 talsins. Þetta er nokkuð gott úrval fyrir kennara sem ætlar að taka fyrstu skrefin með iPad í stofunni sinni – eða hvað? Hvernig ætlar kennari að finna nothæft app með því að leita í slíkri hrúgu? Það er erfitt og tímafrekt og hefur aukið bakflæði í stéttinni verulega.  

Hvaða öpp henta í kennslustofunni?

Kennslufræðingarnir Murray og Olcese stungu sér í þessa djúpu laug skólaappanna og gerðu rannsókn á gæðum þeirra (Murray, O.T.; Olcese, N. R., Teaching and Learning with iPads, Ready or Not?, TechTrends, December 2011, Vol. 55, No. 6). Eftir mikla leit voru 315 öpp valin sem „líkleg til árangurs“ en athygli vekur að þau voru ekki öll úr flokki skólaappa (einungis 56) heldur einnig úr skipulags-, verkfæra- eða skemmtunarflokkum enda höfðu rannsakendurnir 21st century-skills módelið til hliðsjónar. Í því er  horft á notkun allra þeirra hluta sem gætu nýst við lærdóm en eru þó ekki sérhannaðir til slíks. Módelið hvetur til efnisleitar nemenda og ýtir undir könnunarfærni þeirra og upplýsingaleit þar sem samskipti og samvinna er í hávegum höfð. Niðurstaðan varð sú að meirihluti appanna var af litlum gæðum, mestmegnis æfinga- og endurtekningaöpp í afmörkuðum dæmum sem kröfðu nemandann aldrei um skapandi hugsun, upplýsingaleit eða aðra virkni tengda viðfangsefninu. Þetta voru sem sagt gömlu dæmablöðin á rafrænu formi sem herma eftir því starfi sem fram fór í skólastofum „fyrir tölvu“. Einungis örfá öpp af þessum 315 studdu við 21st century-skills módelið að einhverju leyti, innan við tíu að öllu leyti. Af þessu má álykta að meirihluti appanna sem í boði eru fyrir iPad undir flokknum „skóli og menntun“ (Education) sé eftiröpun af gömlu æfingablöðunum og sé því ekki að bæta neinu við lærdóm nemenda, þau ýttu bara blaðinu og blýantinum út af borðinu.
 

Hvernig á að nota spjaldtölvur í skólastarfi?

Hér er farið að snerta á þeim ágreiningi sem mismunandi áherslur í skólastarfi hafa skapað: hvernig á að nota iPad eða spjaldtölvur yfir höfuð? Fræðimenn hafa skipst í tvær fylkingar: þeir sem vilja einblína á öppin og nota þau í kennslu og námi og svo þeir sem telja spjaldtölvur vera aðrein að upplýsingahraðbrautinni og ekkert annað.   

Tvær kennslustefnur takast á 

Í grunninn er hér um að ræða tvær kennslustefnur, það er atferlishyggjan og hugsmíðahyggjan. 
  • Atferlishyggjan (behaviourism) byggir á því að ef nemandi kann vinnubrögðin sé hann fullfær í flestan sjó. Þar er kennarinn í brennidepli og stjórnar starfinu frá upphafi til enda. Helstu aðferðir atferlishyggjunnar eru fyrirlestrar, dæmatímar, dæmablöð og öll þau verkefni sem leggja áherslu á einstaklingsbundin vinnubrögð og aðferðafræði. Þeir sem aðhyllast atferlishyggjuna vilja nota spjaldtölvur sem æfingatæki í vinnubrögðum og aðhyllast því notkun appa í kennslu. 
  • Hugsmíðahyggjan (constructivism) byggir á því að til þess að nemandi geti unnið verk eða orðið fullnuma á einhverju sviði verði hann/hún að skilja fyrirbærið, vinnubrögðin verði næstum sjálfsögð og sjálfgefin þegar skilningur er til staðar. Hugsmíðahyggjan kallar á aðferðir eins og hópavinnu, umræður, samskipti og samvinnu, upplýsingaleit og greiningu upplýsinga. Um leið er kennarinn búinn að skipta um hlutverk: hann er ekki lengur fyrirlesari og miðpunktur allra kennslustunda, heldur leiðbeinandi aðili sem er meira á hliðarlínunni en upp við töflu. 

Hagnýt reynsla er mikilvæg

Menn hafa gert sér grein fyrir því að skilningur næst best þegar reynsla er að baki honum. Sá sem hefur reynslu af vinnu við bílvélar er líklegri til að skilja virkni þeirra betur en sá sem les um vélar af bók. Orðadæmi, umræður og hópavinna eru til þess fallin að búa til reynsluheim og gera nemendum þannig auðveldara að skilja hlutinn sem við á hverju sinni. Þeir sem aðhyllast hugsmíðahyggju vilja því nota spjaldtölvur sem glugga út í heim þar sem hægt er að nálgast upplýsingar. Síðan er það þeirra að vinna úr þeim og koma þeim frá sér. Nemandinn er að mörgu leyti sjálfstæðari í hugsmíðahyggðri kennslu þar sem þessi nálgun krefst þess að hann sé símetandi þær upplýsingar sem verða á vegi hans, hvað sé gott og hvað ekki. Kennarinn er ekki lengur sá sem segir hvað er rétt og hvað er rangt heldur reynir að leiðbeina nemanda að lausn sem er eins rétt og mögulegt er, allt eftir viðfangefni og nálgun nemandans.
 

Skólakerfi á tímamótum

Allt bendir til þess að íslenskt skólakerfi, eins og önnur, standi á tímamótum. Með síauknu framboði á fartækni, sérstaklega tölvum og símum, er orðið kindarlegt fyrir skólakerfið að ríghalda í krítina. Umhverfið kallar á breytingar og það verður sífellt erfiðara fyrir skólakerfið að verja aðferðafræði sína í tölvuvæddum heimi. Það er afar erfitt að segja til um hvort að spjaldtölvur séu „rétta“ lausnin og raunhæft næsta skref fyrir íslenskt skólakerfi. Fyrrnefndir Murray og Olcese komust að þeirri dapurlegu niðurstöðu að iPaddinn væri ekki sú bylting sem þeir bjuggust við og voru efins um að hann yrði það nokkurn tíma. Skortur á hugbúnaði hamlaði öllu „alvöru“ skólastarfi og hann væri líka of dýr til að vera raunhæfur kostur. Það er samt ekki hægt að draga fjöður yfir það, að margir hafa gert góða hluti með spjaldtölvur í skólum, allt sem þarf er svolítið ímyndunarafl. Samt lítur maður enn út eins og fífl þegar maður tekur myndir á iPad.
 

 

TIL BAKA Í EFNISVEITU