24.9.2013 | Blogg

Passaðu vel upp á tölvuna þína

advania colors line
Þegar heim er komið með nýja og fína tölvu er ágætt að verja nokkrum mínútum í að auka öryggi hennar. Við viljum auðvitað að enginn annar en við notum gripinn og ekki viljum við að samskipti okkar t.d. við bankann eða aðrar stofnanir komist í hendur annarra. 

Ýmsar hættur steðja að tölvunum okkar, til dæmis í gegnum tölvupóst, Facebook og aðrar leiðir. Markmiðin með árásunum geta verið margvísleg. Sum óværa gerir tölvuna að þátttakanda í spamsendingum eða samhæfðum árásum á aðra aðila í svokölluðum "Bot-netum". Einnig eru til óværur sem fylgjast með tilteknum samskiptum (t.d. lykilorðum) og senda til ákveðins söfnunarstaðar þar sem óprúttnir aðilar nýta sér þessar upplýsingar. 

Til að minnka líkurnar á þessu þarf að hafa nokkur atriði í huga.

Uppfærslur

Hvort sem um er að ræða MacOS eða Windows einkatölvu þarf að tryggja að sjálfvirkar stillingar fyrir uppfærslur á stýrikerfi og öðrum búnaði séu til staðar. Einnig er nauðsynlegt að fylgiforrit eins og Java, Flash og fleiri séu uppfærð reglulega. Vírusvörn eins og TrendMicro og Microsoft ForeFront er nauðsynleg viðbót. Mörgum tölvum fylgir áskrift að uppfærslum sem er ágætt að nýta sér.

Hugbúnaður

Óþarfur hugbúnaður getur spillt fyrir virkni nýju tölvunnar. Því er góð regla að fjarlægja þann hugbúnað sem ekki er verið að nota. Einnig er gott að fara yfir þjónustur (Services) og slökkva á þeim sem ekki eru í notkun. Flest nýrri stýrikerfi eru með innbyggðan eldvegg (Firewall) sem gott er að nota. Slíkur hugbúnaður ver tölvuna að einhverju leyti þegar notuð eru opin net eins og heita reitir á kaffihúsum þar sem oft eru margar tölvur og sumar hverjar sýktar af óværum. 

Öruggt heimanet

Algengasta leiðin fyrir óværu inn á tölvur eru í gegnum nettengingu. Mikilvægt er að þráðlaus net séu varin með lykilorði (t.d. WPA2-Personal). Nauðsynlegt er  að sjálfgefnum nöfnum (SSID) og lyklum sé breytt sem koma frá framleiðanda í eitthvað sem ekki er auðvelt að giska á. 

Skynsöm hegðun

Öll heimsins tækni hjálpar ekki ef við förum óvarlega með upplýsingar eins og lykilorð, kreditkortanúmer og annað þess háttar. Góð regla er að nota ekki sama lykilorð á allar þjónustur sem menn nýta sér í leik og starfi. Það er til dæmis góð regla að nota ekki sama lykilorðið á Facebook og heimabankann. 

Þó þessi atriði séu engan veginn endanleg upptalning til öruggrar tölvunotkunar eru þetta ágæt fyrstu skref.

TIL BAKA Í EFNISVEITU