19.2.2014 | Blogg

Hvernig á að reka og markaðssetja góða vefverslun?

advania colors line
Upphaf vefverslunar má rekja til ársins 1995 þegar Amazon vefverslunin hóf að selja bækur á netinu úr bílskúr. Á þessum tíma var lítið vitað um kauphegðun fólks á vefnum.  Í viðskiptamódeli Amazon var upphaflega gert ráð fyrir að íbúar lítilla bæjarfélaga sem ekki höfðu bókabúð myndu notfæra sér vefverslun.  Nú 19 árum síðar er ljóst að stór hluti neytenda er tilbúinn að kaupa vöru og þjónustu í gegnum vefverslanir.

Hóflegar væntingar í byrjun

Á síðustu árum hafa fjölmargar vefverslanir opnað á Íslandi.  Lín Design er eitt þessara fyrirtækja  og opnaði það vefverslun með aðstoð Advania árið 2009. Á þessum tíma voru tiltölulega fá íslensk fyrirtæki með vefverslun og því erfitt að meta væntan árangur. Væntingar voru hóflegar og ákveðið að setja útsöluvörur í vefverslunina í ágúst. Vefverslunin var formlega opnuð föstudaginn fyrir verslunarmannahelgi það ár. Ekki var búist við miklum viðbrögðum enda vefverslunin lítið kynnt. Það kom því skemmtilega á óvart að fjölmargir nýttu sér útsöluna í vefverslun okkar þessa helgi. 

 

Myndir eru lykilatriði

Það var margt sem við höfum gert rétt og margt sem við höfum þurft að bæta. Við gerðum okkur strax grein fyrir því að vefverslun er ekki eins og aðrar verslanir. Nauðsynlegt er að hafa myndir af öllum vörum og greinargóða lýsingu á þeim. Veikleiki vefverslunar er að fólk getur ekki handfjatlað vöruna. Við höfum stöðugt unnið í því að bæta viðmót vefverslunar til viðskiptavina og í þeim tilgangi fjárfest meðal annars í ljósmyndabúnaði. Góð vefverslun tekur vel á móti viðskiptavinum og er „greiðfær“ og auðveld í notkun.  

Vefurinn er notaður fyrir upplýsingaöflun neytenda

Við sjáum að fólk kaupir orðið nánast allt á netinu. Oft skoðar fólk vöruna, les um hana og gerir ekkert meira. Aðrir kaupa vöruna og láta senda sér. Enn aðrir kaupa í vefverslun og sækja vörurnar í verslunina. Svo er sá hópur sem skoðar á netinu og kemur svo í verslun og kaupir. Við þekkjum þennan hóp því hann kemur og spyr um ákveðna vörur, veit hvað varan kostar og þekkir eiginleika hennar. Þannig getur góð vefverslun auðveldað þjónustu og hjálpað starfsfólki þegar annir eru í versluninni. 

Sama þjónusta og verð fyrir alla landsmenn

Hjá Lín Design var ákveðið að senda frítt úr vefverslun á pósthús viðskiptavinarins og njóta því allir landsmenn sömu kjara. Við finnum glöggt að viðskiptavinir okkar kunna að meta þetta og erum stolt af því að hafa verið meðal fyrstu fyrirtækja sem veittu þessa þjónustu. 

Góður árangur á Facebook

Síða fyrir Lín Design var opnuð á Facebook í maí 2009 en þá voru mörg fyrirtæki að byrja þar. Facebook hefur reynst mikilvægt markaðstæki og þar eigum við rúmlega 32.000 vini. Þar af eru 86% konur og 14% karlar. Við höfum aldrei „keypt“ vini á Facebook með auglýsingum heldur gert okkar besta til að laða að réttu vinina enda breytist Facebook stöðugt. Þegar talað er um rétta vini eru það þeir vinir sem hafa raunverulegan áhuga á vörunni eða fyrirtækinu. Nýjustu breytingarnar á Facebook fela það í sér að aðeins hluti af vinunum sjá það sem við setjum þar inn ef ekki greitt sérstaklega fyrir dreifingu á færslunni. Ég mæli með því að fyrirtæki laði að sér réttu vinina en einblíni ekki á fjölda þeirra. 

Tilgangur með markaðsstarfi á Facebook

Ef þú ert á Facebook þá er mikilvægt að skilgreina tilganginn með verunni þar. Ef þetta er gert strax í upphafi er líklegra að árangurinn verði meiri en ella. Síður sem segja sögur eru líklegar til að ná árangri. Fólk elskar að lesa og sjá myndir af skemmtilegum uppákomum eða áhugaverðum fréttum.  Slík innlegg skila mun meiru en þau sem eingöngu sýna myndir af vörum og tilboð. Góð leið er að spyrja sig „hvað eiga vinirnir að gera?“ þegar þú setur innlegg á Facebook síðuna þína. Ef þú ert að setja inn tilboð þá er ætlunin að þeir kaupi strax. Með því að setja inn áhugaverðir fréttir eða skemmtilegar myndir sem fá mikla dreifingu í gegnum síðuna ertu að byggja upp vörumerki þitt til lengri tíma.  Við hjá Lín Design reynum að blanda saman sögum og vörukynningum.  Með réttri notkun er Facebook sterkur miðill sem byggir upp vörumerkið á jákvæðan hátt.

Góð og uppbyggileg samskipti

Facebook síðu má nýta á marga vegu. Mörg fyrirtæki nota síðuna aðeins til að selja. Þetta getur haft neikvæð áhrif til lengri tíma litið. Það er mikilvægt að blanda saman sölu og góðum samskiptum. Við hjá Lín Design spyrjum stundum vini okkar spurninga, til dæmis um hugmyndir að vörum. Samfélagsmiðlar virka best þegar vinirnir taka þátt í að byggja upp skemmtilega og áhugaverða upplifun. Þá finnst vinunum þeir eiga hluta af samskiptunum og þú byggir upp betri ímynd.

Vandaðu þig á samfélagsmiðlum

Mikilvægt er að sinna samfélagsmiðlunum vel og reglulega. Á þann hátt tryggir þú betri gæði á því efni sem sett er inn á miðlana. Það er gott að vera með hugmyndabók og skrifa niður hugmyndir að sniðugum innleggjum ef þú ert ekki við tölvuna. Þannig ertu alltaf tilbúin(n) með áhugavert efni. Mikilvægt er að síðan sé oft uppfærð til að viðskiptavinurinn sjái að fyrirtækið sé virkt á miðlinum. Sé langt á milli innleggja dregur það úr gæðum síðunnar og áhrifamætti hennar.  Samfélagsmiðlar eru eins og samfélagið sjálft, sumt þykir flott og annað þykir úrelt og hallærislegt.  Á tímabili var auðvelt að fá fleiri vini með því að búa til leiki þar sem fólk átti að deila og „læka“. Núna þykir þetta í besta falli hallærislegt. Þar fyrir utan þá bannar Facebook svona leiki og sé Facebook síðan þín „tilkynnt“ nógu oft þá getur það leitt til lokunar. 

Taktu þátt í umræðum 

Þegar ákvörðun er tekin að fara með fyrirtæki á samfélagsmiðla er mikilvægt að gera sér grein fyrir kostum og göllum miðilsins.  Með því að fara á samfélagsmiðla opnast gátt neytenda til að eiga samskipti um vörur og þjónustu fyrirtækisins. Það er fátt skemmtilegra en að sjá góð og jákvæð innlegg frá viðskiptavinum þar sem þeir hrósa og fagna vörum og þjónustu.  Ef viðskiptavinir tjá sig á neikvæðan hátt getur fyrirtækið verið berskjaldað fyrir áhrifum þess. Mikilvægt er að svara öllum spurningum eða athugasemdum. Ef umræðu er ekki svarað með málefnalegum og uppbyggilegum hætti gæti ímynd fyrirtækisins skaðast. 

Þú þarft ekki að finna upp hjólið

Aragrúi fyrirtækja eru nú á samfélagsmiðlum og beita misjöfnum aðferðum til að markaðssetja sig. Sum af stærri fyrirtækjunum eru með her fólks til að sjá um þessa miðla. Gott er að fylgjast með þeim sem þú telur að geti veitt þér innblástur og nýjar hugmyndir fyrir þitt markaðsstarf. 

Auglýsingar á netinu

Gera má ráð fyrir að lestur á dagblöðum haldi áfram að dragast saman.  Á sama tíma sýna tölur að fólk eyðir meiri tíma á netinu en áður. Þetta er mismunandi eftir markhópum. Sé markhópurinn t.d. fólk á aldrinum 18-30 ára er óskynsamlegt að auglýsa eingöngu í prentmiðlum eða í sjónvarpi.   Samfélagsmiðlar ýta undir þessa þróun því nú er hægt að kaupa auglýsingar á Facebook þar sem þær birtast eingöngu ákveðnum hópum. Mun auðveldara er að meta árangur auglýsinga á netinu en í öðrum miðlum.  Í lok auglýsingaherferðar  á netinu má auðveldlega lesa í tölur sem sýna árangur á skýran hátt.  Hægt er að meta árangurinn út frá t.d. smellum og hversu margir skila sér á heimasíðuna. Þá er hægt að setja upp markmið og árangurstengingu á Google Analytics til að mæla hversu margir kaupa á síðunni.  

Greiningartækið Google Analytics

Google Analytics er eitt af bestu greiningartækjunum á markaðnum.  Á síðunni er auðvelt að sjá hversu margir heimsækja vefi og greina hegðun þeirra sem koma í heimsókn.  Mikilvægt er að greina hvernig umferðin um síðuna þróast í takt við auglýsingar.  Í Google Analytics er hægt að sjá hvaðan vefumferðin kemur. Þannig má bera saman árangur á samfélagsmiðlum í samanburði við hefðbundar (keyptar) auglýsingar.  Eitt mikilvægasta hlutfallið sem Google Analytics mælir er brottfall (Bounce Rate). Þetta hlutfall sýnir þá sem koma inn á síðuna en fara beint út af síðunni. Því lægra sem þetta hlutfall er, því betra. 

Framtíð vefverslunar

Að reka vefverslun er ekki ólíkt öðrum rekstri. Mikilvægt er að gera markaðs- og söluáætlanir og hlúa að uppsetningu vefverslunar líkt og gert er með hefðbundna verslun.  Með réttri markaðssetningu er hægt að fá mikla umferð í vefverslun sem getur skilað sér í verslun á netinu eða verslunum fyrirtækisins. Án góðrar vefverslunar er líklegt að fyrirtæki missi af viðskiptum.  


TIL BAKA Í EFNISVEITU