30.4.2014 | Blogg

HönnunarMars mikilvægt hreyfiafl í íslensku samfélagi

advania colors line
HönnunarMars fór fram í sjötta sinn dagana 27. - 30. mars 2014.  Hátíðin spannar vítt svið, þar sýna helstu hönnuðir þjóðarinnar það sem í þeim býr og nýútskrifaðir hönnuðir stíga sín fyrstu skref. HönnunarMars er uppskeruhátíð, þar fara fram viðskiptastefnumót íslenskra og erlendra fyrirtækja við fyrirtæki hönnuða, hann hvetur til samstarfs og þar verða ný stefnumót. Í HönnunarMars felast tækifæri til þróunar, mennta og nýsköpunar. Síðast en ekki síst felast í honum gríðarleg tækifæri til kynningar á Íslandi. Á HönnunarMars er hönnun kynnt sem atvinnugrein sem byggir á traustum grunni og gegnir veigamiklu hlutverki í samtímanum.

400 þátttakendur

Yfir 100 viðburðir voru á dagskrá hátíðarinnar í ár. Þar á meðal voru sýningar, fyrirlestrar, uppákomur og innsetningar. Á HönnunarMars sameinast allar greinar hönnunar; fatahönnun, arkitektúr, húsgagna- og innanhússhönnun, grafísk hönnun og vöruhönnun. Viðburðir hátíðarinnar eru skipulagðir af íslenskum hönnuðum og arktitektum, en þátttakendur hátíðarinnar telja um 400 ár hvert. Aukinn fjöldi erlendra þátttakenda kemur til landsins, þ.á.m. hönnuðir frá öllum Norðurlöndunum, Grænlandi og Færeyjum.
  

Mikil þátttaka borgarbúa

Hátíðin hefur fest sig í sessi sem ein af stærstu hátíðum borgarinnar. Mikil þátttaka borgarbúa er mikilvægur grunnur að því að auka alþjóðlega þátttöku. Markvisst hefur verið unnið í að fá til landsins erlenda blaðamenn og gesti og mikið hefur verið unnið í að þróa þau sambönd og tryggja áframhaldandi samstarf. Mælingar Capacent sýna að þegar á þriðja ári hátíðarinnar þekktu 95% þjóðarinnar vörumerkið HönnunarMars. Mælingar Creditinfo sýna að hátíðin fær mikla umfjöllun í íslenskum fjölmiðlum á meðan á hátíðinni stendur. Þær sýna þar að auki mjög mikla aukningu á umfjöllun um íslenska hönnun allt árið. 

DesignTalk markar upphaf HönnunarMars

Einn af aðalviðburðum HönnunarMars ár hvert er fyrirlestradagurinn DesignTalks og markar hann upphaf hátíðarinnar. Markmið Hönnunarmiðstöðvar er að hanna dag, þar sem þeir sem fylgjast vel með helstu straumum og stefnum í hönnun, viðskiptum og tækni geta ekki látið fram hjá sér fara.  Í ár bar DesignTalks yfirskriftina Dealing with Reality en þar var velt upp spurningunni um hönnun og hönnuði sem stefnumótandi afl í viðskiptum og stjórnun. Hönnuðir og arkitektar eru farnir að sinna nýju hlutverki í ríkara mæli þar sem hönnun er leiðandi afl á tímum breytinga. Hönnun snýst um innihald og upplifun en ekki aðeins útlit eða áferð eins og áður var. 


DesignTalks var haldinn í Silfurbergi í Hörpu, fimmtudaginn 27. mars og mættu 750 manns á daginn. Einvala lið alþjóðlegra hönnuða og arkitekta fluttu erindi á fyrirlestadeginum. Þeir voru Robert Wong, „Chief Creative Officer“ hjá Google Creative Labs, Calvin Klein, fatahönnuður, stofnandi og eigandi Calvin Klein Inc., Kathryn Firth, arkitekt og hönnunarstjóri London Legacy Development Corporation, Mikael Schiller, stofnandi og stjórnarformaður sænska fatamerksins Acne Studios, Marco Steinberg, arkitekt, ráðgjafi finnsku ríkisstjórnarinnar og fyrrum stjórnandi Helsinki Design Lab. Fundarstjórar voru Stephan Sigrist frá svissnesku hugveitunni W.I.R.E. og Hlín Helga Guðlaugsdóttur, listrænn stjórnandi DesignTalks 2014, hönnuður og lektor við Konstfack listaháskólann í Stokkhólmi. 

Advania var aðalsamstarfsaðili Hönnunarmiðstöðvar um DesignTalks og á föstudagsmorgninum 28. mars stóð Advania fyrir stefnumóti valinna viðskiptavina við Robert Wong „Chief Creative Officer“ hjá Google Creative Lab. Hópur starfsmanna frá Google kynntu Google Glass og þar gafst einstakt tækifæri til að prófa gleraugun. 

 

Kaupstefnan Design Match

Á HönnunarMars stendur Hönnunarmiðstöð fyrir kaupstefnunni DesignMatch í samstarfi við Norræna húsið. Þetta var í fimmta skiptið sem verkefninu var hleypt af stokkunum en það hefur mælst vel fyrir meðal hönnuða og þeirra fyrirtækja sem tekið hafa þátt. 

Á DesignMatch gefst íslenskum hönnuðum tækifæri á að hitta norræna kaupendur, framleiðendur og seljendur hönnunar í þeim tilgangi að kynna fyrir þeim verk sín. Markmiðið er að skapa íslenskri hönnun brautargengi á einum mikilvægasta markaði Íslands, Norðurlöndunum.

Fulltrúar fyrirtækja sem komu á kaupstefnuna DesignMatch á HönnunarMars 2014 voru Iittala, One Nordic, Norrmann Copenhagen, Wrong for HAY og One Collection. Á undanfarna árum hefur fjöldi samninga verið gerður á milli íslenskra hönnuða og erlendra kaupenda. 

Sjö íslensk vörumerki á RFF 

Reykjavík Fashion Festival (RFF) var haldið í fimmta sinn á laugardeginum 29. mars, samhliða HönnunarMars og er einn af stærstu viðburðum HönnunarMars. Sjö íslensk vörumerki tóku þátt í RFF í ár: Cintamani, Ella, Farmers Market, JÖR by Guðmundur Jörundsson, Magnea Einarsdóttir, REY og Sigga Maija. Markmið RFF er að markaðssetja og vekja athygli á íslenskri fatahönnun og þeirri þróun og tækifærum sem í henni felast.

Fjöldi erlendra blaðamanna til Íslands

Um 50 erlendir blaðamenn komu til landsins á vegum HönnunarMars og RFF og birtast greinar eftir þá í erlendum fjölmiðlum. Þannig nær umfjöllun um HönnunarMars, og um íslenska hönnuði og arkitekta til breiðs lesendahóps. Fulltrúar frá Politiken, Dwell, Frame, Dezeen, Dwell, Newsweek og Form Magasin eru á meðal þeirra blaðamanna sem sóttu hátíðina í ár.   

Rúmlega 30.000 íslendingar sækja hátíðina ár hvert (skv. könnun Capacent) og vaxandi fjöldi erlendra gesta kemur til landsins, m.a. vegna séstakra HönnunarMars pakka sem hafa verið þróaðir í samstarfi við Icelandair. 

HönnunarMars er orðinn mikilvægt hreyfiafl í íslensku samfélagi, enda er mál manna að aldrei hafi fleiri sótt hátíðina, gæðin séu að aukast og viðskiptalegt mikilvægi hennar orðið mjög mikið fyrir þátttakendur. Í febrúar samþykkti ríkisstjórn nýja hönnunarstefnu fyrir Ísland. Stefnan er sett fram í þeirri trú að hönnun sé einmitt einn af megindrifkröftum aukinnar verðmætasköpunar, meiri lífsgæða og sjálfbærni. Í henni er fullyrt að hönnun snerti öll svið tilveru okkar á sviði stjórnsýslu, atvinnulífs og heimila. 

Sjáumst á næsta HönnunarMars!

TIL BAKA Í EFNISVEITU