Fjármálahreysti: Tölvuleikur sem styður við fjármálalæsi

Sérstaklega hannaður fyrir snjalltæki
Frábær þátttaka
Farsælt samstarf um fjármálafræðslu
Landsbankinn og Ómar Örn hafa í rúman áratug unnið saman að fjármálafræðslu í efstu bekkjum grunnskóla, lengst af undir merkjum Raunveruleiksins sem var stór keppni á milli nemenda í grunnskóla. Í Raunveruleiknum þurftu nemendur að glíma við verkefni sem flestir þurfa að leysa á lífsleiðinni: stilla útgjöld af miðað við tekjur, sækja um lán, safna fyrir íbúð og svo framvegis. Raunveruleikurinn hlaut á sínum tíma verðlaun Norrænu ráðherranefndarinnar sem besta námsefnið í fjármála- og neytendafræðslu.
Fjármálahreysti tekur við hlutverki Raunveruleiksins. Við hönnun leiksins var lögð áhersla á að hann yrði í senn fróðlegur, spennandi og skemmtilegur. Og hann er líka gagnlegur því rannsóknir sýna að þeir sem notið hafa kennslu í fjármálum eru líklegri til að spara og skipuleggja fjármál sín betur en aðrir.
Fjölbreyttur og skemmtilegur leikur
Við gerð leiksins var miðað við ramma OECD í fjármálafræðslu fyrir 15 ára gömul ungmenni sem er sami rammi og notaður er í PISA-rannsóknunum. Þessi rammi byggist á þekkingu, færni og viðhorfum. Miðað er við að 15 ára unglingar eigi að kunna skil á fjármálum einstaklinga, fjármálum heimilis og samfélags ásamt fjármálum náms- og atvinnuumhverfis. Þátttakendur í leiknum þurfa að þekkja ýmis hugtök, reikna og skilja myndrit. Þeir þurfa líka að mynda sér skoðun á því hvað er skynsamlegast að gera við mismunandi aðstæður.
Leikurinn gengur út á að leysa 64 verkefni í sem fæstum tilraunum. Verkefnin eru á fjórum efnissviðum og í jafnmörgum þyngdarstigum. Efnissviðin fjögur eru: ég, heimilið, nám og atvinna og samfélagið. Spurningum er raðað í sextán verkefni sem hvert inniheldur fjögur skref. Byrjað er á efnissviðinu "ég" sem er auðveldast, síðan er tekist á við "heimilið" sem er aðeins erfiðara (eins og flestir vita) og svo koll af kolli þar til erfiðasta þyngdarstiginu er náð, þ.e. "samfélaginu".
Til mikils að vinna
Til mikil er að vinna fyrir þátttakendur í Fjármálahreysti. Í fyrstu verðlaun er iPhone 5s en annað og þriðja sæti hljóta iPad mini. Einnig eru veittar viðurkenningar til skóla sem eiga hlutfallslega flesta þátttakendur.