21.5.2014 | Blogg

Stelpur, strákar og tæknin

advania colors line
Þann 30. apríl s.l. var dagurinn Stelpur og tækni haldinn í fyrsta sinn á Íslandi en fyrirmyndin að honum er Girls in ICT Day sem er haldinn erlendis á hverju ári. Í okkar huga markar dagurinn upphaf á nýjum tímum hér á landi þar sem staða stelpna innan tæknigeirans fær meira vægi en áður. Þetta á sér stað með samvinnu fjölmargra aðila úr menntakerfinu, upplýsingatæknigeiranum, hagsmunasamtökum og félögum. Dagurinn fékk flotta umfjöllun í fjölmiðlum og góðar undirtektir hjá skólum og fyrirtækjum sem hafa þegar óskað eftir að taka þátt í deginum á næsta ári. 
 

Saga dagsins

Girls in ICT Day hefur verið haldinn um margra ára skeið víða um heim. Í apríl 2013 ákvað Fjarskiptasamband Sameinuðu Þjóðanna (ITU) og  Evrópusambandið að styðja við daginn til að tryggja meiri sýnileika og áhrif hans. Tilgangurinn er að laða að fleira konur í tæknigreinar og þá sér í lagi upplýsingatækni. Innan Evrópusambandsins hefur þetta mál fengið mikið og aukið vægi á síðustu árum en framboðið af hæfu starfsfólki mætir í dag ekki þörfum iðnaðarins.  Í Digital Agenda Evrópusambandsins eru skýr markmið um aukna þátttöku kvenna í upplýsingatæknigeiranum og aðgerðir sem koma til móts við þarfir fyrirtækja sem nýta upplýsingatækni. 
 

Staðan á Íslandi

Á Íslandi er hlutfall þeirra sem útskrifast úr raun-, tækni- og iðngreinum á háskólastigi lægst á Norðurlöndunum og hefur bilið á milli fjölda nemenda í tækni- og raungreinum annars vegar og félagsvísindum hins vegar farið vaxandi síðasta áratug. Skortur á tæknimenntuðu fólki er því mikill hér á landi eins og í nágrannalöndunum. 

Áskorunin

Þrátt fyrir að upplýsingatæknin sé  sú grein sem hefur vaxið hvað mest á undanförnum árum og þar sé boðið upp á góð laun og sveigjanlegan vinnutíma þá eru nám og störf í upplýsingatækni ekki nægjanlega aðlandi fyrir ungar konur. Staðan er sú að minna en 30% af vinnuafli í upplýsingatækni í Evrópu eru konur og tiltölulega fáar konur velja sér nám t.d. í tölvunarfræði. Margar skýringar hafa verið settar fram um ástæðuna. Í því sambandi er oft rætt um nám í tölvunarfræði og hvernig megi bæta það til að laða fleiri nemendur að. Þá er gjarnan vísað í að ekki sé verið að nota kennsluefni í grunn- og framhaldsskólum sem sé í nægjanlega góðum tengslum við áhugasvið nemenda. Efnið fæli jafnvel stúlkur frá faginu en einnig hefur verið bent á að það sé erfitt að stíga inn á svið þar sem meirihlutinn er strákar. Áhrif fjölmiðla og dægurmenningar eru líka oft nefnd en tölvunarfræði er gjarnan sýnd sem nördalegt karlafag í kvikmyndum. Meira getur komið til en áskorunin er hvernig við vinnum bug á þessum hindrunum. Ein leið getur verið að halda viðburði eins og Stelpur og Tækni.


 

Dagurinn var frábær upplifun

Háskólinn í Reykjavík hefur, sem stærsti tækniháskóli landsins, verið leiðandi í að efla umræðu um aukið hlutfalli kvenna í tæknifögum og stutt margvísleg verkefni á því sviði. Þar má sérstaklega nefna eflingu tölvunarfræðinnar. Margir aðilar hafa lagt málefninu lið á síðasta árum og má þar nefna Ský (Skýrslutæknifélag Íslands) með UT konur. Því var ákveðið hjá HR að hafa samband við nokkra leiðandi aðila á Íslandi til að fá stuðning við Stelpur og Tækni. Þar ber að nefna /sys/tur sem er félag kvenna í tölvunarfræði við HR, GreenQloud með átaksverkefnið Women in Tech og Skema. Þá studdu  Samtök Iðnaðarins við verkefnið ásamt Advania, Marorka og Hugsmiðjunni. Verkefnið hlaut einnig styrk úr jafnréttissjóði stjórnvalda. Allir þessir aðilar eiga þakkir skildar fyrir þeirra framlag til að gera daginn að frábærri upplifun.

Stelpur hitta flottar fyrirmyndir

Stelpurnar sem tóku þátt í Stelpu og Tækni deginum í ár komu úr 8. bekk. Dagurinn hófst á því að þær komu í vinnusmiðjur sem voru haldnar í HR þar sem þær fengu innsýn í hluti eins og vefforritun og gervigreind. Í kjölfarið fóru þær í fyrirtækjaheimsóknir til að öðlast innsýn í hvernig starf að loknu námi gæti litið út og hittu konur sem starfa í tæknigeiranum. Við vitum að fyrirmyndir skipta miklu máli.

Tæknimenntun fyrir alla

Eitt athyglisvert við þennan viðburð voru skilaboð frá einni stelpunni í hópnum sem sagði: Allar strákarnir eru svo geðveikt öfundsjúkir - þeir vildu líka fá að vera með!

Eins og við sjáum þetta þá er verið að kalla á meira og betri kynningu á tæknimenntun úr öllum áttum og í kjölfarið fleiri menntunartækifæri; ungt fólk vill vita meira um tækninám og kynnast spennandi störfum sem  bíða þeirra að loknu námi. Þetta eru einmitt störfin sem við vitum að geta skilað miklum verðmætum til þjóðarbúsins. Leyfum ungu fólki að njóta sín, kynnum þeim alla möguleika og gefum þeim góða umgjörð til tæknináms í takt við hæfileikar þeirra og áhugasvið. Ef við gerum ekki neitt er hætta að fjöldi nemenda í tækni- og raungreinum muni ekki aukast eins og þörf er á. 

Vegurinn framundan

Það þarf að eiga sér stað meiri umræða um hvernig við getum tryggt jöfn tækifæri til náms og starfs. Þetta snýst ekki aðeins um að jafna hlutfall karla og kvenna í tæknigreinum heldur þarf einnig að líta til starfa þar sem karlar eru í minnihluta. Endurhugsa þarf hvernig skólakerfið kynnir mismunandi námsleiðir, endurskoða þarf kennsluaðferðir og umgjörð námsins. Fyrirtæki í upplýsingatækni þurfa einnig að taka virkan þátt í umræðunni og  kynna þau fjölmörgu tækifæri fyrir spennandi starfsframa sem þau bjóða. Þetta má gera með vísindaferðum fyrir fyrir grunn- og framhaldsskólanema og gera þarf þær konur áberandi sem geta verið flottar fyirrmyndir fyrir stúlkur sem vilja vinna í  tæknistörfum. Ef til vill þurfa háskólarnir að stíga enn sterkar inn og taka þátt í kennslu á grunn- og framhaldsskólastigi. Kannski þarf einfaldlega fleiri klukkutíma í stundatöfluna sem væru helgaðir tækni eða betri stuðning við þá kennara sem kenna upplýsingatækni. Þetta eru allt spurningar sem við teljum mikilvægt að ræða.

TIL BAKA Í EFNISVEITU