25.6.2014 | Blogg

Hafðu oftar rétt fyrir þér

advania colors line
Ég var svo lánsöm að fá tækifæri til að fara á ráðstefnu sem haldin var í Las Vegas af hugbúnaðarrisanum IBM. Yfirskrift ráðstefnunnar var „Information on Demand“ sem mætti þýða sem „upplýsingar eftir þörfum“.

Ráðstefnunni var skipt í þrjár línur en ég einbeitti mér að „Business Analytics“ línunni. Þar bar eftirfarandi hæst: 

  • Umræða um gagnagnótt (Big Data) 
  • Notkun gagna á samfélagsmiðlum
  • Tölfræðigreiningar
  • Snjalltæki 
  • Afköst kerfa og svartími
  • Framsetning gagna 

Vilja upplýsingar strax 

Mikið var fjallað um nýtingu gagna á óskipulögðu sniði, nýjar tegundir gagnalinda og um aðferðir og kerfi til að nýta slík gögn. Notendur vilja nýta rauntímagögn, gögn sem endurspegla stöðuna í dag en ekki í gær. Þetta gerir þeim betur kleift að sjá strax hvert stefnir í rekstrinum. Til að spá sem nákvæmast fyrir um framtíðina er best að vera með sem nýjust og áreiðanlegust gögn og nota góða tölfræðipakka. Fyrir fyrirtæki sem vilja vera í fararbroddi  dugar ekki lengur að skoða söguleg gögn sem sótt eru úr viðskiptakerfum. IDC gerir ráð fyrir að veltan í þessum geira sem snýst um „gagnagnótt og greiningar“ margfaldist úr 3,1 milljörðum dollara í um 20 milljarða dollara árið 2017. 
 


Upplýsingar aðgengilegar hvar og hvenær sem er

Um nokkurt skeið hafa snjalltækjalausnir verið að ryðja sér til rúms en þær snúast til dæmis um að starfsmenn geta skoðað skýrslur í snjallsímum eða spjaldtölvum á fundum þar sem er verið að ræða og greina upplýsingar. Slíkar lausnir auka gríðarlega hreyfanleika og viðbragðsflýti starfsmanna. Á Íslandi hefur þessi bylting gengið hægar fyrir sig en annars staðar í heiminum. Lausnirnar eru samt sem áður miklu aðgengilegri og ódýrari en áður. Helsti kostnaðarliðurinn við þær eru uppsetning á hugbúnaðinum og tækin sjálf miklu frekar en kaup á sérstökum hugbúnaði. Nú má samnýta skýrslur á milli ólíkra tækja, hægt að skoða sömu skýrslurnar í vafra í fartvölvu eða borðtölvu eða í appi á snjallsíma eða á spjaldtölvu.
 

Næsta ráðstefna er handan við hornið

Það er stórt verkefni út af fyrir sig að sækja ráðstefnu af þessari stærðargráðu. Markmiðið með heimsókninni verður að vera skýrt og maður verður að vera vel undirbúinn.  Með því sækja ráðstefnu fæst þekking á helstu nýjungum í faginu og maður kynnist fagmönnum sem glíma við sömu viðfangsefni og maður sjálfur. Þannig lærir fólk af reynslu hvors annars og kemur auga á ný tækifæri. Fyrirlestrar góðra ræðumanna auka ekki einungis þekkingu þeirra sem á hlusta heldur veita þeim bæði innblástur og eldmóð í starfi. Þannig getur þátttaka starfsmanna í ráðstefnum af þessu tagi skilað fyrirtækjum miklum ávinningi. Það styttist svo í næstu ráðstefnu IBM en hún verður haldin undir yfirskriftinni IBM Insight 2014. Hún verður svo sannarlega spennandi. 
 

 

TIL BAKA Í EFNISVEITU