30.7.2014 | Blogg

Framtíðin er spennandi með Microsoft Dynamics AX

advania colors line

Í febrúar hélt Microsoft ráðstefnu í Seattle í Bandaríkjunum fyrir tæknifólk og kynnti þar nýjustu útgáfuna af Dynamics AX sem kallast Dynamics AX 2012 R3. Á ráðstefnunni voru 1.300 manns alls staðar að úr heiminum sem fylgdist með fjölmörgum fyrirlestrum, tók þátt í vinnustofum, skiptist á góðum ráðum og myndaði tengsl við tæknifólk í öðrum löndum. 

Hátíðarstemning ríkjandi

Það var mikil spenna í hópnum að fá að sjá og skoða nýju útgáfuna.  Það spillti ekki fyrir að Seattle Seahawks unnu Super Bowl bikarinn í fyrsta sinn þannig að  hátíðarstemning ríkti í borginni allri og smitaðist gleðin  á ráðstefnuna.

Vinna og metnaður

Microsoft hefur lagt mikla vinnu og metnað í Dynamics AX 2012 R3 útgáfuna.  Í henni eru nokkrar nýjar kerfiseiningar auk þess sem miklar viðbætur eru við eldri kerfiseiningar.  Á ráðstefnunni var lögð áhersla á að kynna nýjungar í Retail kerfiseiningunni. Einnig kynnti Microsoft nýtt vöruhúsakerfi og kerfi til að skipuleggja vöruflutninga.

Nýtt og öflugt vöruhúsakerfi 

Microsoft hefur hingað til boðið upp á innbyggt vöruhúsakerfi í Dynamics AX. Í því má skipuleggja móttökuferli, tiltektir og vinnuferli innan vöruhússins. Það studdi hinsvegar ekki notkun handtölva.  R3 útgáfan er með nýju og öflugu vöruhúsakerfi með mun sveigjanlegri uppsetningu og nýjum notkunarmöguleikum. Það styður handtölvur og er fullkomlega samstillt við aðrar kerfiseiningar Dynamics AX.  Með því að nýta þessa nýju kerfiseiningu í stað þess að vera með vöruhúsalausn utan Dynamics AX má sleppa flóknum tengingum og tímafrekum afstemmingum á milli kerfa.  Staðan á vörubirgðum innan Dynamics AX er alltaf rétt og gögn frá handtölvum eru uppfærð í rauntíma.

 

Nýja kerfið býður upp á margvíslegar stillingar til að stjórna frátektum í vöruhúsi og sveigjanleg uppsetning gerir það auðvelt að stjórna álagi í vöruhúsi.  Hægt er að setja upp margþætt vinnuflæði fyrir allar aðgerðir í vöruhúsi svo sem móttöku, tiltektir, pökkun, áfyllingar og talningu.
Microsoft ætlar sér greinilega stóra hluti með nýja kerfinu og stefnir á að vera framarlega á markaði fyrir vöruhúsakerfi. Nýja útgáfan felur í sér öfluga vöruhúsalausn sem hentar stórum og flóknum vöruhúsum án auka kostnaðar þar sem einingin er innifalin í Dynamics AX 2012 R3.  

Nýjungar í Retail kerfiseiningunni

Meðal nýjunga sem  kynntar voru í Retail kerfiseiningunni er möguleiki til  að nýta Windows spjaldtölvur og snjallsíma til að loka sölu.  Aukinn stuðningur er við notkun vildarkorta og gjafabréfa, uppsetningu á verðlistum og vali á vörum fyrir viðskiptavini.  Microsoft hefur lagt mikla vinnu í að bæta möguleika við birtingu á vörum og sölupöntunum í gegnum vefverslanir.  Þá er kominn stuðningur við að hafa herferðir eða tilboð á samfélagsmiðlum eins og Facebook og Twitter.

Stuðningur við símasölu

Með innbyggðri Retail lausn geta fyrirtæki í smásölu náð samkeppnisforskoti. Til að auðvelda starfsmönnum að taka við sölupöntunum í gegnum síma er kominn sérstakur stuðningur við símaver.  Kerfið getur birt þær  vörur sem viðskiptamaður pantar iðulega saman, setja má upp vörulista og reglur í kerfinu til að vara starfsmenn við hugsanlegum svikum.  Starfsmenn í símaveri geta sett sölupantanir á bið og hægt er að skrá upplýsingar í sölupöntunarlínur og fylgjast með framvindu sölupantana. Tengingar við verslanir eru einfaldar og hægt er að stjórna uppsetningu á vöruúrvali og verðuppbyggingu í Dynamics AX.

Greiðar tengingar við Excel 

Gerðar hafa verið ýmsar viðbætur við spávinnslu fyrir birgðir sem byggja á sögulegum gögnum.  Spávinnslan er unnin í gegnum SQL Analysis Service tening,  hægt er að vinna með spánna í Excel og leyfa notendum að vera með handvirk inngrip.  Þá eru einnig komnir auknir möguleikar að bera saman rauntölur við spár til að mæla árangur.

Nýtt flutningskerfi

Flutningskerfið er ný kerfiseining sem auðveldar fyrirtækjum að skipuleggja flutning á vörum. Þessi kerfiseining gerir notendum mögulegt að reikna út bestu flutningsleiðirnar með tilliti til tíma og kostnaðar og gefur notanda mikilvægar forsendur til að velja bestu leiðina.

Unnið hvar og hvenær sem er með Microsoft Dynamics AX

Eftir því sem tækninni fleygir fram aukast kröfur um að notendur geti sinnt vinnu sinni utan skrifstofu og hefðbundins vinnutíma.  Microsoft hefur auðveldað tengingar við Dynamics AX 2012 R3 með smáforritum án þess að fórna upplýsingaöryggi. Nokkur smáforrit hafa þegar verið gefin út. Þar má til dæmis nefna forrit til að skrá ferðakostnað,  tíma og samþykkja kostnað.  Microsoft hvetur samstarfsaðila til að þróa smáforrit til að leysa verkefni sem annars væru leyst innan Dynamics AX og að nota til þess nýju samskiptaleiðina sem þeir hafa þróað.  Það má því búast við mikilli grósku í þessum efnum.

Spennandi framtíð

Framtíðin er spennandi með Dynamics AX 2012 R3, nýjar kerfiseiningar og stuðningur við nýjustu tækni opnar enn frekar fyrir fjölbreytta notkunarmöguleika kerfisins.  Kerfið inniheldur fjölmargar spennandi kerfiseiningar sem vinna saman sem ein heild með það fyrir augum að auðvelda fyrirtækjum að takast á við flókinn daglegan rekstur.  Það er því full ástæða fyrir fyrirtæki að fylgjast vel með þróun Dynamics AX.

 


TIL BAKA Í EFNISVEITU