17.9.2014 | Blogg

Ofurtölva á Íslandi er miðstöð vísindarannsókna á Norðurlöndum

advania colors line
Svokallaðar ofurtölvur verða sífellt mikilvægari í vísindarannsóknum nútímans. Þær sjá m.a. um útreikninga og gerð ýmis konar líkana. Norræna ofurtölvan – The Nordic High Performance Computing Project (NHPC) - er samstarfsverkefni milli nokkurra norrænna stofnana sem hafa umsjón með ofurtölvum til rannsókna: 

  • Danish e-Infrastructure Cooperation (DeiC), Danmörk
  • Swedish National Infrastructure for Computing (SNIC), Svíþjóð 
  • UNINETT Sigma, Noregur
  • Háskóli Íslands 

Upplýsingatækni lykill að framþróun í vísindum

Árið 2008 ákvað Norræna ráðherranefndin að móta stefnu á sviði vísindarannsókna með aðstoð tölvutækni (e-Science). Nordforsk, sem er stofnun ráðherranefndarinnar, sá um stefnumótunina. Hlutverk Nordforsk er að veita fjármunum í norrænt rannsóknarsamstarf og vera ráðgefandi varðandi stefnumótun á sviði vísindarannsókna. Það skiptir miklu máli í þessu samhengi að upplýsingatækni er nú lykill að framþróun í vísindum. Þetta á jafnt við um útreikninga, gagnavinnslu og myndræna framsetningu á gögnum.  

Vísindarannsóknir með grænni orku

Eitt af lykilatriðunum í stefnunni var hýsing ofurtölvu með grænni orku og sem gæti þjónað vísindamönnum á öllum Norðurlöndum. Eins og segir á vef NHPC verkefnisins er uppsetning og rekstur ofurtölvunnar hluti af tilraunaverkefni sem á að svara þeirri spurningu hvort notkun tölvu sem er sett upp nálægt orkunni en fjarri notendum geti falið í sér mikinn sparnað. Einnig á verkefnið að byggja upp skilning á pólitískum, skipulagslegum og tæknilegum hliðum á sameiginlegri eign, stjórnun og rekstri á jafn dýrum og mikilvægum búnaði og hér er um að ræða. Vegna hækkandi orkuverðs og aukinni orkunotkun er sífellt dýrara fyrir rannsakendur og háskóla að nota ofurtölvur. Ísland hefur bæði gnægð af orku og kalt veðurfar en rokið og kuldinn dregur stórlega úr kostnaði við kælingu á tölvubúnaði. Landið okkar er því álitlegur kostur fyrir búnað af þessu tagi.

Háskóli Íslands valinn

Árið 2010 fór fram lokað útboð sem háskólar í Danmörku, Svíþjóð, Danmörku og Noregi tóku þátt í. Við í Háskóla Íslands sendum inn sameiginlega umsókn með Advania. Okkur fannst einfaldlega að umsóknin okkar væri sterkari ef við hefðum sérhæfðan hýsingaraðila í liði með okkur. Það er skemmst frá því að segja að við fengum verkefnið í apríl 2012. Ári síðar gátu norrænir vísindamenn nýtt sér ofurtölvuna.  

Ofurtölvan kallast Garðar og er nefnd eftir landkönnuðinum Garðari Sigurðssyni. Hún er af HP gerð og kemur frá Opnum Kerfum. Tölvan er, eins og áður segir, hýst í gagnaveri Advania. Reiknistofnun Háskóla Íslands sér um  kerfissstjórn í samráði við þá háskóla sem eru með í verkefninu. Uppsetning og rekstur á einstökum hugbúnaði og notendaaðstoð fer fram í hverju landi fyrir sig. 
 

Öruggur aðgangur að grænni orku

Í umsókn okkar kom eftirfarandi fram: „Staðsetning Norrænu ofurtölvunnar á Ísland felur í sér öruggan aðgang að grænni orku og góðar tengingar við umheiminn. Háskóli Íslands og Advania veita aðgang að sérþekkingu á sviði tæknireksturs og er lausnin sem við bjóðum hagkvæm, áreiðanleg og skalanleg.“ Þetta hefur staðið heima, ofurtölvan hefur verið í stöðugum rekstri alla daga ársins, allan sólarhringinn frá því hún opnaði. Hún er notuð jöfnum höndum af vísindamönnum í ýmsum greinum eins og til dæmis eðlisfræði, efnafræði, verkfræði, hagfræði og líffræði. Vísindamenn geta sótt um tíma í ofurtölvunni á sex mánaða fresti og það er gaman að segja frá því að síðast þegar við auglýstum tölvutíma lausan til umsóknar hér á landi var þreföld umframeftirspurn. Þetta verkefni hefur sýnt fram á að hýsing ofurtölvu til vísindarannsókna hér á landi getur margborgað sig og  hefur skilað mikilli þekkingu og reynslu á þessu sviði. 

TIL BAKA Í EFNISVEITU