4.11.2014 | Blogg

Alverslun í stað netverslunar

advania colors line

„Alverslun“ mun taka við þegar netverslanir og hefðbundnar búðir renna saman í eitt á næstu misserum. Þetta er spá ýmissa greiningaraðila sem fylgjast hvað best með framþróun verslunar. Á erlendum tungum er þetta fyrirbæri kallað „Omnishopping“.

Sífellt ógreinilegri skil verða á milli hefðbundinna verslana og netverslana. Þegar neytendur bera saman verð og gæði á vörum styðjast þeir jöfnum höndum við það sem hægt er að skoða á netinu og í hefðbundinni verslun. Eini munurinn er hvort borgað er með korti í posa yfir afgreiðsluborðið eða með því að slá inn kortanúmerið í vefverslun. 

Kaupum meira frá útlenskum netverslunum

Íslendingar eru engir eftirbátar annarra þjóða hvað varðar nýjungagirni og hagnýtingu nýjustu tækni. Nánast hvert einasta heimili í landinu er nettengt og státum af Evrópumeti – og ef ekki heimsmeti í fjölda nettenginga. Hins vegar er mun lægra hlutfall Íslendinga sem kaupir á netinu miðað við Norðurlandabúa, samkvæmt samræmdum mælingum Eurostat. Íslendingar kaupa frekar vörur frá öðrum löndum en íbúar hinna Norðurlandanna sem kaupa í meira mæli frá netverslunum í sínum löndum.

Mikil gerjun á sér stað og mikil sprenging hefur orðið í  netsölu á vörum eins og fatnaði og raftækjum. Þá hafa nýir markaðir opnast og nú flæða inn vörur frá Asíulöndum. Á fyrstu 8 mánuðum þessa árs var 76% aukning í fjölda hraðsendinga til einstaklinga frá útlöndum, og mest aukning var frá Kína og Hong Kong. Þá minnast menn þess að í október í fyrra jukust sendingar sem afgreiddar voru gegnum Íslandspóst frá Kína um 700% frá sama mánuði árið áður. 

Tölvuskjárinn er nýi búðarglugginn

Það kanna að hljóma klisjukennt að íslenskar netverslanir séu í mikilli sókn. Það er nú samt staðreynd að vöxtur í íslenskri netverslun virðist vera í svipuðu hlutfalli og vöxtur í nágrannalöndum okkar. Hins vegar er hlutfall netverslunar hér á landi af heildarveltu smásöluverslunar aðeins brot af því sem er í nágrannalöndum okkar.

Margar íslenskar verslanir greina það að heimasíður þeirra eru orðnar mikilvægari sýningarsalur og búðargluggi heldur en verslunin sjálf. Netið býður verslunareigendum uppá nýja kosti við markaðssetningu og að skilja betur neysluþarfir viðskiptavina sinna með kortlagningu á hvað keypt er og hvernig. Áskorun framtíðarinnar er að kynnast betur þörfum þeirra neytenda sem enn eru ekki orðnir viðskiptavinir en væri hægt að þjóna. Til þess þarf að tefla saman öllum þeim nýju möguleikum sem nútíma verslunarmynstur býður uppá.

Ítarefni frá fundi um árangursríka vefverslun

Emil B. Karlsson

Glærur, viðtal og fyrirlestur frá Jónu Baldursdóttur, forstöðumaður vefþróunar SímansGlærur, viðtal og fyrirlestur frá Pétri Þór Halldórssyni, forstjóra S4SGlærur, viðtal og fyrirlestur frá Hannesi Kjartani Þorsteinssyni skrifstofustjóra hjá Kennarasambandi Íslands 

 Myndband um mikilvægi góðra vefja 

 TIL BAKA Í EFNISVEITU