3.12.2014 | Blogg

Hugleiðingar grunnskólakennara um Chromebook

advania colors line
Ég fékk Dell Chromebook 11  tölvu með WiFi tengingu í hendur í október til að prófa og var með fyrirfram hugmyndir um hvernig hún myndi gagnast og hvað ég þyrfti að skoða betur. Mér finnst hugmyndin um að nemendur séu alltaf að vinna í skýjum mjög spennandi og einnig hversu auðvelt það er fyrir nemendur að vinna saman í skjölunum. Auðvitað er þetta alveg hægt í hvaða tölvu sem er, en í Chromebook er þetta einstaklega auðvelt. Það voru þessir tveir kostir sem ég var mest spennt fyrir að prófa. Skýjalausnir og margar lausnir Google eru orðnar stór þáttur í skólastarfinu nú þegar og með notkun á Chromebook verður þessi vinna bara enn auðveldari. 

Allt til staðar í tölvuskýjunum

Í grunnskólum er það þekkt vandamál að bækur, skjöl og jafnvel snjalltæki gleymast heima eða samvinnuverkefni eru stopp af því að sá sem er með upplýsingarnar er heima veikur. Með því að vinna allt í skýjum eru engin skjöl sem gleymast heima, ekki einu sinni ef að nemandinn gleymir snjalltækinu sínu. Reyndar nýtum við Moodle netnámskerfið mikið í unglingadeildinni og því er flest af því sem nemendur eru að gera í skólanum aðgengilegt í hvaða tölvu sem er.  En þegar þeir eru að vinna í samvinnuverkefnum, lendum við of oft í slíkum vandræðum.  Reyndar leystu nokkrir drengir þetta vandamál í tíma hjá mér um daginn með því að nota Google Hangouts. Þeir hringdu í veika félaga sinn, sem vann allan tímann með þeim í gegnum forritið.  

Námsefnið aðgengilegt hvar og hvenær sem er 

Þar sem við notum Moodle mikið, þá erum við líka með helling af tilbúnu námsefni fyrir tölvur og höfum mikla þörf fyrir þær. Við vinnum út frá þeirri hugmynd að sem mest af námsefninu eigi að vera aðgengilegt hvar sem er og hvenær sem er. Að þeir sem þurfi umfram hjálp með námsefni, geti nýtt sér netið í þeim tilgangi (m.a. Moodle) og að þeir sem vilja fara hraðar í gegnum námsefnið eiga að hafa val um það. En til þess að þetta gangi vel upp, þurfum við aðgang að nettengdum tölvum.

Hver nemandi með sitt tæki

Í Hólabrekkuskóla eru nemendur í 10. bekk með aðgang að spjalltölvum skólans og erum við með 1:1 stefnu. Hver nemandi í 10. bekk hefur þannig aðgang að einu af tækjum skólans. En þetta þýðir að þegar nemendur mæta ekki skólann, t.d. vegna langvarandi veikinda eða ferðalaga erlendis eru tækin gagnslaus í kennslu. Við getum ekki tekið tæki sem einn nemandi er skráður inn í og afhent það öðrum, nema að strauja tækin í hvert sinn. Nemendur skrá sig inn á eigið Facebook, eigið pósthólf og svo framvegis og það má ekki vera aðgengilegt öðrum nemendum. Það eru fáar lausnir í boði sem leyfa samnýtingu spjaldtölva, enda eru þær hannaðar sem einstaklingstæki. Þær spjaldtölvur sem eru hjá okkur og eru samnýttar, eru stöðugt til vandræða þar sem nemendur sem fá þær lánaðar gleyma oft að skrá sig út (t.d. af Facebook). Þannig að það er stór plús að innskráning nemenda er algjörlega aðskilin eins og það verður sjálfkrafa með notkun Chromebook vélarnar.

 

 

Kostir við Chromebook

En með notkun á Chromebook er þetta ekkert vandamál. Hver nemandi er með eigið gmail netfang sem þeir nota til að skrá sig inn og þar sem Hólabrekkuskóli er með Google apps for education, þá hef ég alla stjórn á uppsetningu aðgangsins fyrir nemendur. Það er þó alls ekki nauðsynlegt til að geta nýtt Chromebook vélarnar í skólastarfi, en vissulega mjög þægilegt. Ég sé fyrir mér að þegar við erum komin með fleiri svona tölvur, þá verði nokkur tæki aðgengileg fyrir nemendur á þeirra starfstöðvum, á meðan þeir eru í skólanum og ekki spurning um að það sé þörf á 1:1 stefnu í sambandi við tækin. Það geta margir skráð sig inn á sömu tölvuna og hafa þá aðeins aðgang að eigin skjölum. Það þarf ekki að leita að tölvunni sem nemandinn var með síðast, því að skjölin hans eru aðgengileg í hvaða tölvu sem er. 

Greiður aðgangur að öppum

Chromebook fylgir smáforritabanki (öpp) og það gladdi mig að sjá að ég gat hlaðið niður forritinu Evernote og þannig notað það í þessari vél eins öllum öðrum tækjum sem ég er með. Það eru líka fleiri ritunarlausnir í boði og því ekki verið að tala um að maður geti eingöngu notað Google docs eða einöngu lausnir sem Google býður upp á. Ég hef stuðst við nokkrar góðar síður á netinu til að læra á vélina og síða TechRepublic er til dæmis ágæt. 

Auðvelt að nota Chromebook

Á þessum tíma sem ég hef verið að nota vélina hef ég aldrei lent í því að stoppa út af einhverjum vandamálum eða vegna þess að ég hafði ekki aðgang að einhverju sem mig vantaði. Ég hef notað hana fyrir alla daglega vinnslu en það tók mig smá tíma að finna út að allt það sem ég geri þegar ég nota venjulegt lyklaborð er á hinu óvenjulega lyklaborði Chromebook vélarinnar. Maður hægri smellir t.d. með því að tvísmella á músarplötuna (ég er ekki með aðra tengda mús).  Ég fann líka notendaleiðbeiningar á netinu sem hafa gagnast vel á meðan ég hef verið að læra á vélina.  Mér finnst batteríið lofa góðu og ég get unnið á vélinni í lengri tíma án þess að stoppa. Það er talað um 10 tíma endingartíma á rafhlöðunni og án þess að ég hafi mælt það sérstaklega, þá er ég nokkuð viss um að standist fullkomlega. 

Ég hef einu sinni lent í vandræðum með tölvuna á ráðstefnu úti í bæ. Þá var net staðarins gríðarlega lélegt og tölvan var sífellt að reyna að endurtengja sig til að uppfæra skjalið sem ég var að vinna með. Í það skipti gafst ég upp á að nota hana, enda ný búin að fá hana og kunni ekki almennilega á hana. Þegar heim kom, prófaði ég að nota hana ótengda við internetið og það gekk mjög vel. Á næsta fundi hjá mér út í bæ, ákvað ég að nota tölvuna án nettengingar og það gekk líka hnökralaust fyrir sig. Skjalið sem ég skrifaði á þeim fundi, hlóðst niður um leið og tölvan náði nettenginu. Þannig að ég geng út frá því að það sé betra að vera með slökkt á netinu ef að það er bara lélegt net í boði. En ég hef líka oft notað hana á fundum þar sem eru opnir þráðlausir punktar og það hefur gengið skínandi vel. Það gekk bara brösulega í þetta eina skipti, sem kannski má skrifa á vankunnáttu mína á þeim tíma eða fáránlega lélegt netsamband. 

Ég hef ekki reynt að nota tölvuna fyrir myndvinnslu, en myndvélin sem fylgir Chromebook vélinni sem ég er með, snýr eingöngu að notandanum. Þannig að hún er ekki eins góð til að nota í myndbandaverkefni eins og spjaldtölvurnar. 

Raunhæfur kostur fyrir skólana

Niðustaða mín er sú að það er frábært að hafa Chromebook í skólunum fyrir flest alla vinnu, t.d. samvinnuverkefni, verkefni sem krefjast þess að nemendur leiti að upplýsingum á netinu og fyrir vinnslu á gagnvirkur síðum eins og Námsvef grunnskólanna. En ég er líka mjög ánægð með hve snjalltækin leysa margan vanda eins og að nú komast nemendur á netið inni í tímum til að vinna verkefnin sín og þau tæki leysa af hólmi tæki eins og myndavélar og hljóðupptökutæki. Góðar spjaldtölvur og Chromebook eru á svipuðu verði og því eru báðar gerðir tækja raunhæfur valkostur fyrir skólana. Það er jafn auðvelt að vinna á Chromebook og það er á venjulegar fartölvur, en þær eru að sjálfsögðu með sínar takmarkanir, enda talsvert ódýrari kostur en góðar fartölvur eru. Ég kýs enn að vinna stærri vinnu á borðtölvunni minni, en litla létta Chromebook vélin er í fanginu á mér heima á kvöldin og mætir með mér á alla fundi og ráðstefnur. Mér dettur hreinlega ekkert í hug sem nemendur geta ekki gert á henni miðað við þau verkefni sem ég hef í minni kennslu, nema upptökur á myndböndum. En þrátt fyrir að þeir hafi oft aðgang að spjaldtölvum skólans, kjósa þeir hvort sem er frekar að nota eigin snjalltæki eins og símana sína í slík verkefni. 

Bíðum spennt eftir bættum netkerfum

Við bíðum spennt eftir opnu þráðlausu netkerfi í skólanum til að geta tekið upp MET (Með Eigið Tæki (BYOD)) stefnuna hjá okkur. Þegar að því kemur verður tölvunotkunin orðin ansi fjölbreytt hjá okkur og því sjáum við ekki tilgang með því að skólinn sé eingöngu með eina gerða tækja og við viljum hafa hafa okkar eigin tölvueign fjölbreytta. Það eina sem við skólafólkið þurfum að hafa í huga áður en við tölvuvæðum skólana, er að það verður að vera þráðlaust netsamband (helst) í öllum skólanum og enn í dag er það því miður ekki veruleikinn í lang flestum skólum. En það stendur vonandi til bóta hjá okkur öllum.TIL BAKA Í EFNISVEITU