7.4.2015 | Blogg

Þekkingarmiðlun um upplýsingatækni í þrjú ár

advania colors line
Núna í apríl eru þrjú ár síðan við hjá Advania byrjuðum að gefa út bloggfærslur á vefnum okkar Advania.is. Þegar við fórum af stað vorum við staðráðin í því að gefa út eina færslu í viku og okkur þótti tilhlýðilegt að gefa út í miðri viku þannig að miðvikudagar urðu fyrir valinu. Við höfðum efasemdir um að við myndum hafa nægilegt efni til að ná þessu markmiði. 

136 færslur á þremur árum

Þessar efasemdir reyndust ástæðulausar. Þessi færsla hér er númer 136 og það hefur aldrei verið neitt vandamál að fá efni. Raunar er það þannig að við eigum yfirleitt alltaf efni fram í tímann. Advania bloggið tekur sér þó frí rétt yfir hásumarið og yfir hátíðir.

Ávinningur af upplýsingatækni

Markmiðið með Advania blogginu er það sama og með fundunum okkar og hinni árlegu Haustráðstefnu, að segja frá ávinningnum af notkun upplýsingatækni og gefa hollráð við hagnýtingu hennar. 

Búum til gæðaefni

Það spillir ekki fyrir að með því að búa til gæðaefni eins og til dæmis upptökur af fyrirlestrum og bloggfærslum er auðveldara að ná til fólks á samfélagsmiðlum eins og til dæmis Facebook, Linkedin og Twitter. Við bjóðum þeim sem hafa brennandi áhuga á upplýsingatækni áskrift að blogginu okkar í tölvupósti. 

Góður og mikill lestur

Við erum mjög ánægð með lesturinn á blogginu enda erum við oft á tíðum að taka fyrir nokkuð sérhæfð málefni. Frá upphafi hafa bloggsíður á Advania vefnum fengið rúmlega 85 þúsund einstök innlit (e. Unique Pageviews). Að auki eru nokkur hundruð manns með bloggið í áskrift.

Miðlum þekkingu og reynslu starfsmanna, viðskiptavina og samstarfsaðila

Efnistökin á Advania blogginu eru fjölbreytt og miðast við þá staðreynd að við hjá Advania sinnum í raun öllum hliðum upplýsingatækni. Hjá fyrirtækinu starfa þegar allt er talið um eitt þúsund sérfræðingar og við höfum notið þess hvað þeir eru duglegir við að miðla af þekkingu sinni og reynslu. Við höfum einnig verið lánsöm með hvað viðskiptavinir okkar eru tilbúnir að segja frá hvernig þeir njóta ávinnings af upplýsingatækni og það verður að segjast að innlegg frá þeim eru í sérstöku uppáhaldi hjá okkur. Það er svo nýtilkomið að samstarfsaðilar og birgjar vilji koma inn með innlegg.

TIL BAKA Í EFNISVEITU