4.6.2015 | Blogg

Oracle þekking sótt til Las Vegas

advania colors line

Notendaráðstefna Oracle, OAUG Collaborate 2015, var haldin í Las Vegas í apríl síðastliðnum. Las Vegas er ekki aðeins Mekka fjárhættuspilara heldur er hún afar öflug ráðstefnuborg. Íbúar Las Vegas eru um 2 milljónir manna en á hverju ári sækja um 35 milljónir manna borgina heim.

Fjöldi Íslendinga sækir sér Oracle þekkingu

Oracle ráðstefnan stendur yfir í fimm daga og er árlegur viðburður. Í ár fór 18 manna hópur notenda og starfsmanna Advania á ráðstefnuna til að sækja sér þekkingu og fræðast um framþróun þessa mikilvæga kerfis. Íslendingar hafa tekið þátt í ráðstefnunni síðan 2004, en hópurinn frá Íslandi hefur verið misfjölmennur í gegnum árin.
 

Meira en 1.000 fyrirlestrar í boði

Ráðstefnan er sambland af notendafyrirlestrum og kynningum á hugbúnaði. Þar eru Oracle fyrirferðamiklir, bæði á fyrirlestralínum og á kynningarbásum. Einnig kynna fjölmargir aðilar hugbúnað sem vinnur með Oracle E-Business Suite. Á ráðstsefnunni er boðið er upp á hvorki meira né minna en yfir 1.000 fyrirlestra. Iðulega er það þannig að ráðstefnugestir standa frammi fyrir því að á dagskrá eru þrír til fjórir áhugaverðir fyrirlestrar á sama  tíma og þá þarf að velja þann fyrirlestur sem gagnast best.

Mikið úrval fyrirlestra

Úrval fyrirlestra og fyrirlesara er mjög fjölbreytt. Fyrirlesarar koma allstaðar að úr heiminum en allir fyrirlestrar eru fluttir á ensku enda er meirihluti þátttakenda Ameríkanar. Sumir fjalla um eitthvað sem þeim er hugleikið út frá sjónarhorni notenda kerfisins og aðrir lýsa virkni hugbúnaðar sem þeir hafa skrifað. Enn aðrir lýsa því hvernig einstök verkefni hafa verið leyst.

 

Íslendingar standa framarlega í notkun Oracle

Það er alltaf gagnlegt að sjá hvernig aðrir leysa sín verkefni og oft nýtist það þegar heim er komið. Margt af því sem þarna er sagt er gáfulegt og snjallt, en ekki allt. Þarna staðfestist líka það sem var vitað að notendur kerfisins hér heima eru öflugir og standa í mörgu tilliti framarlega.  Áherslur Oracle fyrir nánustu framtíð sem þarna voru kynntar eru m.a. eftirfarandi: 

  • Aukin áhersla á snjallsíma og spjaldtölvulausnir
  • Endeca notendaviðmót með mjög bættu aðgengi að upplýsingum 
  • Einföldun á notendaviðmóti kerfisins 

Snjalltækjalausnir fyrir fólk á ferðinni

Ein af spennandi nýjungum sem Oracle kynnti til sögunnar á ráðstefunni eru öpp fyrir snjalltæki. Öppin eru til fyrir flest alla kerfishluta og í þeim er hægt að nálgast upplýsingar og framkvæma ákveðnar aðgerðir. Öppin eru aðgengileg fyrir iPhone og Android síma. 
Mobile Approval appið leyfir þér til dæmis að samþykkja eða hafna innkaupabeiðnum, innkaupapöntunum og kostnaðarskýrslu beint úr símanum þínum. Í núverandi útgáfu er ekki hægt að samþykkja eða hafna reikningum en samkvæmt Oracle er sú virkni væntanleg. 

Skjámynd af Appovals appinu

Mikið fjallað um verkbókhald

Á OAUG er ávallt mikið af fyrirlestrum sem fjalla um verkbókhald í Oracle enda mikill áhugi á þeim kerfishluta almennt. Áherslur í verkbókhaldi eru allar á verkefnastjórnunarhluta kerfisins. Stöðugt er verið að einfalda skjámyndir og bæta við virkni sem auðveldar notendum dagleg störf. Tengingar verkbókhalds við aðra kerfishluta eins og t.d. vörustýringu eru áberandi og raunar var  nýr kerfishluti kynntur til sögunar sem kallast Project Procurement. Þar er innkaupaferli og verkefnastýring fyrirtækisins tengd betur saman en áður.  
Nokkuð var rætt um betri nýtingu á bókunarvélarinnar í kerfishlutanum Subledger Accounting (SLA) í verkbókhaldi. Bókunarvélin í verkbókhaldi Oracle er mjög öflugt tól en það geta komið upp tilvik þar sem hún dugar ekki ein og sér. Þá er hægt að nýta betur bókunarvélina í SLA því þar eru möguleikarnir og sveigjanleikinn enn meiri. Aðrar nýjungar sem vert er að nefna eru nýtt app fyrir verkefnastjóra þar sem helstu upplýsingar um stöðu verkefnisins eru gerðar aðgengilegar í símum eða spjaldtölvum.

Mikilvægt að fylgjast vel með þróuninni

Af ofangreindu er ljóst að það er mikið um að vera í Oracle heiminum og það er mikilvægt fyrir notendur kerfisins og okkur sem veitum þeim ráðgjöf að sækja ráðstefnur eins og OAUG til að geta hagnýtt allt það besta í þessum öfluga hugbúnaði.  Þannig tryggjum við okkur öllum sem mestan ávinning af notkun hans.
 

 

TIL BAKA Í EFNISVEITU