23.6.2015 | Blogg

Smáþjóðaleikarnir tókust einstaklega vel

advania colors line
16. Smáþjóðaleikarnir fóru fram á Íslandi dagana 1. – 6. júní. Umsjón með leikunum hafði Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) ásamt samstarfsaðilum. Tæplega 800 keppendur frá 9 löndum tóku þátt í leikunum, en keppt var í 11 íþróttagreinum. Alþjóðlegt íþróttamót af þessu tagi er umfangsmikið verkefni, en alls komu 22 starfsmenn ÍSÍ, sérsambönd ÍSÍ, Reykjavíkurborg, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Íþróttabandalag Reykjavíkur og 1.170 sjálfboðaliðar að framkvæmdinni. Átta íþróttagreinar fóru fram í Laugardalnum, en Ísland hefur þá sérstöðu að geta boðið upp á eins konar „Ólympíuþorp“ þegar kemur að staðsetningu íþróttamannvirkja. Yfir 30.000 áhorfendur mættu á leikana.

Upplýsingatæknin lék lykilhlutverk

Það er ekki hægt að halda leika af þessari stærð nema með öflugri upplýsingatækni. Advania var einn af Gullsamstarfsaðilum leikanna og þaðan fékk ÍSÍ megnið af tæknibúnaði, svo sem borðtölvur, fartölvur, skjái, prentara og tvær stórar fjölnota vélar (ljósritunarvél, skanni og prentari í einu tæki). Starfsmenn Advania komu að hluta til að uppsetningu á þessum búnaði. Það er skemmst frá því að segja að samstarf ÍSÍ og Advania gekk afar vel. ÍSÍ birti einnig öll úrslit og aðrar upplýsingar á heimasíðu á skjám í hverju íþróttamannvirki. Þessi nýbreytni mæltist afar vel fyrir hjá gestum, starfsfólki leikanna og þátttakendum.

Lærdómurinn af Smáþjóðaleikunum

Smáþjóðaleikarnir voru haldnir á Íslandi árið 1997 og því var ákveðin reynsla þegar til staðar við að halda slíka leika. Nokkrir af núverandi starfsmönnum ÍSÍ voru við störf á þeim leikum og þeir gátu því miðlað reynslu sinni til samstarfsfólks. Starfsfólk ÍSÍ hefur einnig sótt Smáþjóðaleika erlendis í gegnum tíðina og verið þar að aðstoða íslenska keppendur. Það var því ekkert sérstakt í framkvæmd leikanna sem kom sérstaklega á óvart. Óvissa um hvort verkföll myndu hindra að leikarnir gætu farið fram var þó óþægileg, en sem betur fer leystust þau mál. 

Helstu áskoranirnar og lærdómurinn af þeim

Það hefði vissulega verið betra að geta spilað úr fleiri starfsmönnum en í þessu verkefni voru mörg verk á fárra höndum. Hugsanleg verkföll voru einnig áskorun sem við tækluðum nokkuð vel að mínu mati. Við gerðum það einfaldlega þannig að halda okkar striki og halda undirbúningi áfram eins og ekkert hefði í skorist þó rætt væri um að verkfallsaðgerðir gætu hindrað að leikarnir færu fram. 

Nýtt viðmið fyrir Smáþjóðaleikana

Það var ánægjulegt hvað veðrið lék við þátttakendur og það skapaði aukna gleði hjá öllum. Allt samstarf gekk mjög vel, hvort sem um var að ræða samstarfsaðila sem liðsinntu við undirbúning og framkvæmd leikanna eða aðila úr sérsamböndunum og fulltrúa íþróttamannvirkjanna sem keppt var í. Allir hjálpuðust að við að gera þessa leika stórkostlega flotta og má segja að Ísland hafi sett nýtt viðmið fyrir framkvæmd Smáþjóðaleika. Þeir tókust einstaklega vel.
TIL BAKA Í EFNISVEITU