15.1.2016 | Blogg

Advania eignast sinn eigin bjór

advania colors line

 

 

 

Advania hefur eignast sinn eigin bjór sem nefnist Ölgjörvi. Um er að ræða vel humlað fölöl sem er bruggað hjá Gæðingi í Skagafirði. Að bjórnum stendur Bjórklúbbur Advania og voru starfsmenn Advania með í ferlinu alveg frá hugmynd, að þróun uppskriftar og í framleiðslunni sjálfri.

Bjórklúbburinn tilheyrir starfsmannafélagi Advania. Klúbburinn hefur verið starfræktur frá árinu 2012 og eru meðlimir um 150 talsins. Markmið klúbbsins er gefa meðlimum kost á að smakka nýja, spennandi, og/eða framandi bjóra og ýta undir jákvæða bjórmenningu. Einnig hefur klúbburinn það að markmiði að fræða meðlimi um bruggun bjórs.

Hugmyndin kviknar 

Hugmyndin að því að brugga bjór fyrir Advania kviknaði í október þegar fréttir birtust um að Mikkeller væri að brugga sérstakan bjór fyrir hamborgarabúllu Tómasar í Kaupmannahöfn. Við í Bjórklúbbi Advania hófum strax umræður um hvernig hægt væri að stuðla að gerð sérstaks bjórs fyrir Advania. Forstjóri Advania, Ægir Már Þórisson, er virkur meðlimur bjórklúbbbsins og hann óskaði eftir því að klúbburinn myndi kanna hvort það væri raunhæft verkefni að brugga bjór fyrir Advania. Við tókum málið áfram og höfðum samband við nokkur brugghús á Íslandi með það fyrir augum að brugga bjór fyrir Advania.

Árni Hafstað, eigandi brugghússins Gæðings í Skagafirði, tók vel í þessa hugmynd. Gæðingur er með mátulega stórar græjur fyrir svona verkefni enda hefur brugghúsið verið duglegt við að prófa nýjungar og ráðist í bruggun ýmissa bjórgerða sem ekki hafa verið í boði á Íslandi. Með vilyrði Árna ákváðum við félagarnir að setja saman uppskrift að bjór. Við höfum báðir þó nokkra reynslu af bruggun bjórs heima við og er þetta nú orðið að eitt af okkar helstu áhugamálum.

Við vissum að bjórinn þyrfti að vera aðgengilegur fyrir sem flesta, mætti ekki vera of krefjandi og þyrfti að vera í kringum 5% styrkleika. Okkur datt strax í hug að gera Amerískt Pale Ale, en það er bjórstíll sem er mjög vinsæll hjá heimabruggurum. Þessi bjórtegund hentar bæði fyrir þá sem drekka ekkert annað en lager en hittir einnig í mark hjá þeim sem eru lengra komnir. Árna leyst vel á uppskriftina sem við settum saman og því var ekkert því til fyrirstöðu að finna dagsetningu fyrir brugg.

Bjórinn bruggaður

Í lok nóvember, einum mánuði eftir að hugmyndin kom upp, lögðum við af stað norður í Skagafjörð, eldsnemma á köldum laugardagsmorgni, á vel útbúnum skutbíl frá Advania. Við vorum mættir um kl 11 og þar tók Árni vel á móti okkur og við hófumst handa.

Um 250 kg af korni fóru í bjórinn

Við fullnýttum græjurnar þeirra og gerðum 1.000 lítra uppskrift. Advania þurfti ekki nema helminginn af því, en Árni vildi fá hinn helminginn til að selja á barnum hjá sér, en hann rekur bæði Micro bar í Reykjavík og á Sauðárkróki.

Að brugga bjór hjá Gæðingi er ekkert ósvipað því að brugga bjór heima fyrir, nema auðvitað í allt öðru magni. Hráefnin eru þó ávallt þau sömu: Maltað bygg, humlar, vatn og ger. Það var því fátt sem kom okkur á óvart í framleiðsluferlinu en þó lærðum við helling á þessu og höfðum mjög gaman að.

Árni og fjölskylda voru höfðinglegir gestgjafar og við kunnum þeim bestu þakkir fyrir. Eftir langan dag heimsóttum við Micro bar á Sauðárkróki, smökkuðum nokkra vel valda bjóra og lögðumst svo til hvílu á gistiheimilinu sem þau reka. Við mælum klárlega með Microbar And Bed fyrir þá sem eiga leið norður.

Í Ölgjörva notuðum við Citra og Cascade humla, en Citra er einn eftirsóttasti humallinn í dag og gefur mikinn ávaxta og sítrus karakter. Hann er gjarnan notaður í India Pale Ale. Cascade er hinsvegar klassískur Pale Ale humall og átti stóran þátt í Amerísku „Craft Beer“ byltingunni.

Humlarnir eru settir út í á mismunandi stigum suðunnar og gefa bragð, lykt og beiskju. Þegar gerjun var að mestu lokið var bjórinn þurrhumlaður, þ.e. humlar voru settir út í bjórinn til að gefa meiri lykt og ferskleika.

Útkoman

Það sem eftir stóð var að finna nafn á bjórinn og hanna miða á flöskurnar. Stefán Einar Stefánsson kom með nafnið Ölgjörvi, sem þótti passlega nördalegt og gott. Aðalheiður Ormarsdóttir hannaði svo miðann.
Við erum virkilega ánægðir með útkomuna. Bjórinn er auðdrekkanlegur, ferskur og bara eiginlega alveg eins og við vildum hafa hann. Við vonum að gestir okkar á Nýársgleðinni hafi verið ánægð með þetta framtak.

Að lokum viljum við benda lesendum á að Ölgjörvi fer á krana hjá Micro bar í Reykjavík í dag, föstudaginn 15. janúar. Það er því um að gera að skella sér á Micro og gæða sér á ísköldum Ölgjörva á meðan birgðir endast.

Skál!
Ásgeir og Gummi Kalli
Bjórklúbbur SFA

TIL BAKA Í EFNISVEITU