2.2.2016 | Blogg

Hröð framþróun rafrænna undirritana heldur áfram

advania colors line
Í maí 2015 kynnti Advania nýja byltingarkennda lausn í rafrænum undirritunum sem kallast Signet.  Signet er vettvangur í skýinu þar sem einstaklingar og fyrirtæki geta rafrænt undirritað skjöl eins og til dæmis umsóknir, lán, samninga, fundargerðir og trúnaðaryfirlýsingar. Til að undirrita skjöl eru notuð rafræn skilríki á síma eða snjallkorti.Viðtökur markaðarins við Signet hafa verið mjög góðar og nú þegar hafa tugþúsundir nýtt sér hið mikla hagræði sem felst í að undirrita skjöl rafrænt.

Mikið hagræði af rafrænum undirritunum

Að lágmarki sparast um 30 mínútna vinna í tengslum við hvert skjal.  Ekki þarf að prenta skjalið út fyrir undirritun, koma því til undirritanda, skanna það og koma pappírnum í varanlega geymslu. Til viðbótar við þetta kemur hagræðið fyrir undirritendur sem geta skoðað og undirritað skjalið hvar og hvenær sem er. Hér eru ekki tekin inn í myndina atriði eins og sendingarkostnaður eða bætt þjónustu þar sem rafrænar undirritanir ýta undir hraðari afgreiðslu mála.

Fullgildar undirritanir

Signet hefur töluvert forskot á margar aðrar lausnir sem í boði eru í Evrópu. Kemur þar til að Signet undirritanir eru svokallaðar langtíma undirritanir sem eru gerðar til að standast tímans tönn. Þetta felur í sér að að Signet undirritanir eru með innbyggðri vottun að réttri undirskrift og tímasetningu. Signet undirritanir eru jafnframt „fullgildar rafrænar undirritanir” í lagalegum skilningi og því jafngildar gamaldags undirritun með pappír og penna.
  

Mikil áhersla á öryggi

Frá upphafi hefur verið lögð áhersla á að Signet uppfylli kröfur laga og staðla.  Miklar kröfur eru gerðar til öryggis en öll skjöl í Signet eru ávalt dulrituð nema rétt á meðan þau eru í vinnsluminni tölvu notandans við undirritun.Frá því að Signet var kynnt í maí hefur mikil þróun orðið á Signet sem miðar öll að því að gera fyrirtækjum, stofnunum og almenningi auðveldara að innleiða rafrænar undirritanir.  Nú samanstendur Signet af átta lausnum sem mynda „Signet Suite“.  Lausnirnar mæta mismunandi þörfum viðskiptavina eftir því í hvaða ferlum viðkomandi undirritun á sér stað.  Ekki þarf áskrift til að undirrita skjöl með Signet. Þeir sem senda skjöl í undirritun geta annaðhvort keypt áskrift að Signet eða greitt fyrir stakar undirritanir.

Signet web

Á Signet.is geta notendur  skráð sig inn með rafrænum skilríkjum og sent skjöl í undirritun. Móttakendur fá sendan tengil á skjalið sem þeir smella á og geta þá skoðað og undirritað viðkomandi skjal.  Signet web er þægileg leið sem þarfnast engrar uppsetningar hjá notendum.

 

Signet team 

Þessi veflausn gerir teymum innan fyrirtækja kleift að vinna með skjöl sem send eru til undirritunar. Forráðamaður nýtir umboðskerfi Ísland.is til að stilla  upp eigin teymum í Signet. Allir í teyminu geta sent skjöl til undirritunar, skoða skjöl teymisins og unnið með þau sameiginlega. Hægt er að tengja Signet team við vefþjónustu þannig að skjöl úr Signet team streymi sjálfkrafa inn í skjalavistunarkerfi viðkomandi fyrirtækis eða stofnunar.

 

Signet cloud 

Fyrirtæki og stofnanir geta nýtt vefþjónustuskil (API) til að samþætta eigin kerfi við Signet. Þannig geta notendur sent skjöl í undirritun beint úr eigin kerfum.  Að undirritun lokinni má láta skjölin streyma sjálfkrafa til baka þar sem þau eru vistuð í viðeigandi skjalavistunarkerfi.  Hægt er að nýta vefþjónustuskilin til að fylgjast með stöðu skjala í undirritunarferlinu, senda áminningar, eyða skjölum úr Signet ofl. Signet Cloud býður upp á undirritanir fyrir bæði XML og PDF skjöl.

Signet core

Kjarnavefþjónusta Signet býður upp á mikla möguleika en krefst meiri aðlögunar en Signet Cloud. Signet Cloud er eins konar hjúpun á Signet core til að einfalda þróun á móti Signet. Signet core hentar fyrirtækjum sem vilja tengja Signet við innri kerfi fyrirtækisins og búa yfir töluverðri þekkingu á rafrænum undirritunum.

 

Signet forms 

Lausn fyrir vefsvæði með eyðublöð eða skjöl sem þarfnast undirritunar. Lausnin býður upp á mikla samþættingarmöguleika milli Signet og viðkomandi vefsvæðis. Notandinn upplifir Signet undirritunina sem hluta af ferli viðkomandi vefs. Uppsetning er mjög fljótleg, þar sem Signet forms þjónustan býður upp á að taka á móti núverandi eyðublöðum og breyta þeim yfir á gagnvirkt form þannig að hægt sé fylla þau út og undirrita rafrænt í Signet. Að undirritun lokinni má nota vefþjónustu eða Signet team til að skila til baka undirritaða eyðublaðinu ásamt viðeigandi gögnum á XML formi. 

 

Signet desk 

Hentar t.d. fyrir afgreiðslufulltrúa, sölumenn, fundi eða önnur tilfelli þar sem gengið er frá undirritun á staðnum. Skjalið sem á að undirrita er á skjá þar sem aðilar geta skoðað það.  Þegar aðilar eru sáttir, undirrita þeir skjalið á staðnum. Einnig má senda boð á aðila sem ekki gátu verið á staðnum þannig að þeir geti einnig skoðað og undirritað skjalið.

 

Signet seal 

Þessi lausn er fyrir fyrir vélrænar undirritanir skjala. Fyrirtæki eða stofnun sendir PDF skjal ásamt upplýsingum um móttakanda og texta í vefþjónustulag Signet. Signet móttekur skjalið og innsiglar með rafrænni undirritun sendanda. Ef þess er óskað getur Signet sent skjalið í tölvupósti á móttakandann. Dæmi um þetta er innsiglun rafrænna reikninga en ekki má móttaka rafræna reikninga í bókhald nema upprunavottun skjalsins sé tryggð.

 

Signet transfer 

Nýjasta varan í Signet Suite er ætluð til að senda trúnaðarskjöl með öruggum hætti á milli aðila.  Til að senda skjal er farið á transfer.signet.is þar sem notandinn auðkennir sig með rafrænum skilríkjum. Hann velur móttakendur og hleður inn skjölum sem á að senda. Móttakendur fá þá boð með tengli sem vísar á trúnaðarskjölin í Signet transfer.  Til að geta sótt skjölin þarf móttakandinn að auðkenna sig með rafrænum skilríkjum. Um leið og móttakandi hefur fengið skjalið er því eytt úr Signet transfer.

Signet notary

Signet notary er vara sem bíður eftir að Alþingi samþykki breytingar á lögum sem munu heimila rafrænar þinglýsingar, en vonast er til að Alþingi muni heimila þær síðar á þessu ári.  Þannig mun Signet styðja undirritanir á rafrænum þinglýsingarbeiðnum þegar heimilt verður að senda slíkar beiðnir inn. 

Bætt þjónusta og lægri kostnaður

Signet er mjög sveiganlegt kerfi sem er sérsniðið að íslenskum aðstæðum. Viðskiptavinir geta annað hvort nýtt sér Signet eitt og sér á vefnum eða samþætt við þá ferla sem eru í gangi. Þannig verður innleiðing rafrænna undirritana mun ódýrari og ekki þarf að gera stórvægilegar breytingar á núverandi ferlum.  Með notkun á Signet geta fyrirtæki og stofnanir lækkað kostnað, aukið öryggi í rafrænum samskiptum og bætt verulega þjónustu við neytendur og almenning í íslensku samfélagi.

TIL BAKA Í EFNISVEITU