24.2.2016 | Blogg

Veldur Blockchain straumhvörfum í fyrirtækjarekstri?

advania colors line

Bitcoin er fyrsta rafmynt heims án hefðbundins útgefanda og milliliða.  Undirliggjandi greiðslukerfi Bitcoin byggir á byltingarkenndri Blockchain-tækni þar sem þúsundir óháðra þáttakenda sjá um færsluhirðingu. Myntin er eingöngu til á stafrænu formi og því hefur Bitcoin verið kallað peningar Internetsins og á sama hátt væri hægt að kalla Blockchain-tæknina seðlabanka Internetsins því allir eiginleikar og reglur sem lúta að myntinni, eins og peningamagn í umferð, peningaprentum, hvernig fjármagnsflutningar eiga sér stað og svo framvegis má finna í Blockchain-kóðanum.

Tæknin umbyltir hefðbundnum fyrirtækjum

Það er auðvelt að sannfærast um að Internetið hafi valdið straumhvörfum í miðlun upplýsinga og nú stöndum við á álíka tímamótum í miðlun verðmæta. Bitcoin sem mynt hefur ein og sér möguleika á að gjörbylta því fjármálaumhverfi sem við þekkjum en mig langar til að færa rök fyrir því að undirliggjandi tækni hennar hafi einnig möguleika á að bylta hefðbundnum fyrirtækjum. 

Tveir fasar tölvuvæðingu heimsins

Tölvuvæðingu heimsins má gróflega skipta í tvo fasa; gagnagrunnsvæðinguna og netvæðinguna. Gagnagrunnsvæðinginin hófst á seinni hluta síðustu aldar þar sem ferlar og gögn fyrirtækja og stofnana voru rafvædd. Hagræðingin var mikil og nú var hægt að geyma bæði meira af gögnum en áður þekktist og svara spurningum hraðar og af meiri nákvæmni. Það er nánast óhugsandi að reka fyrirtæki eða stofnanir í dag án gagnagrunna og eru þeir nokkurs konar DNA fyrirtækjanna. 

 

Samskiptamunstur verður stafrænt

Smám saman rann það upp fyrir fólki að með því að samtengja tölvur var hægt að auka aðgengi að gögnunum og á nokkrum áratugum var búið að samtengja nánast hverja einustu tölvu í heiminum og Internetið varð að veruleika. Internetið breytti aðgenginu með því að dreifa gagnagrunnunum á ólíkar tölvur í ólíkum löndum en tengja þau saman í veraldarvef með tenglum. Þetta var bylting sem síðar leiddi af sér leitarvélar og samfélagsmiðla. Internetið breytti ennfremur samskiptamunstri fyrirtækja sem fluttist yfir í stafræna heima með tölvupósti og skilaboðum ásamt stafrænum hljóð- og myndskeiðum.

 

Brýr á milli gagnagrunna hafa verið brothættar

Hingað til hefur okkur hins vegar ekki auðnast að samþætta mismunandi gagnagrunna þannig að eitt kerfi eigi auðvelt með að tala við annað með góðu móti. Slíkar brýr milli gagnagrunna og kerfa eru til en þær eru brothættar, kostnaðarsamar og erfitt er að bæta við nýjum þátttakendum. Í flestum tilfellum reiðum við okkur á mannfólkið með einum eða öðrum hætti til að flytja gögn úr einu kerfi í annað, frá einni stofnun til annarrar.

 

Ferlar verða stafrænir og sjálfvirkir

Ef Blockchain-tækni Bitcoin er krufin til mergjar sjáum við að hún er í sinni einföldustu mynd dreifður gagnagrunnur þar sem þátttakanda er heimilt að hafa áhrif á innihald hans innan ákveðinna marka og breytingarnar skila sér til annarra þátttakenda með þeim hætti að á örfáum mínútum geta allir verið sammála um stöðu kerfisins. Með öðrum orðum hefur nú tekist að klára að brúa gagnagrunnsvæðinguna og netvæðinguna þannig ferlar og “minni” fyrirtækja sem þegar hafa verið færðir á stafrænt form geta nú farið að eiga í samskiptum sín á milli, flutt gögn á milli og innt greiðslur af hendi fyrir hönd fyrirtækisins. 

 

Ótrúlega spennandi framtíð

Þessi breyting hefur bæði fyrirséðar og ófyrirséðar afleiðingar. Til skemmri tíma litið ættum við að geta aukið hagræðingu fyrirtækja með aukinni sjálfvirknivæðingu þeirra og samskiptum þeirra við önnur fyrirtæki eins og birgja og viðskiptamenn. 

Líkt og reglur og eiginleika Bitcoin er hægt að forrita á Blockchain er hægt að sjá fyrir sér að til lengri tíma litið verði fyrirtæki sem eingöngu eru til á stafrænu formi þar sem búið er að forrita DNA þeirra með snjallsamningum á Blockchain. Á sama hátt og þátttakendur í Bitcoin koma sér saman um eignarstöðu þá sjá þátttakendur um að framfylgja samþykktum fyrirtækjanna. Þessi stafrænu fyrirtæki gætu svo rekið leigubíla í raunheimum, flutt raforku, sinnt upplýsingamiðlun og verið í almennri samkeppni við hefðbundnari fyrirtæki. 

Framtíðin er því ótrúlega spennandi því ég er sannfærður um að við stöndum á barmi næstu tæknibyltingar. 

TIL BAKA Í EFNISVEITU