21.7.2016 | Fréttir

Stjórn Advania endurkjörin

advania colors line

Á aðalfundi Advania var stjórn félagsins endurkjörin. Í stjórn sitja eftirtaldir:

Thomas Ivarson
Thomas hefur víðtæka alþjóðlega reynslu úr upplýsingatæknigeiranum, bæði innan Norðurlandanna sem utan, og hefur til að mynda gegnt stöðu framkvæmdastjóra sölu- og markaðsmála samstæðu hjá Logica PLC í London, stöðu forstjóra CMG Wireless Data Solutions BV í Hollandi og stöðu forstjóra EHPT AB (samstarf milli Ericsson og HP) í Svíþjóð. Áður starfaði hann í fimmtán ár hjá Ericsson.

Bengt Engström
Bengt býr yfir yfirgripsmikilli reynslu sem stjórnandi og hefur m.a. víðtæka reynslu af samrunum og yfirtökum bæði á Norðurlöndunum og af Evrópumarkaði. Þá hefur hann gegnt stöðu forstjóra hjá Fujitsu Nordic, Whirlpool Europe og Duni. 

Birgitta Stymne Göransson
Birgitta er ráðgjafi og stjórnarmaður í fjölmörgum fyrirtækjum. Hún hefur víðtæka reynslu af stjórnunarstörfum í verslun og iðnaði, og var meðal annars, fjármálastjóri Åhléns, forstjóri Memira Group og Semantix, og framkvæmdastjóri Telefos Group.

Rekstarhagnaður (EBITDA) 2.067 m.kr.

Heildartekjur Advania á árinu 2015 námu 20.510 m.kr. og jukust um 1,9% frá fyrra ári. Rekstrarhagnaður samstæðunnar fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 2.067 m.kr. og jókst um 5,1% frá fyrra ári. Framlegðarhlutfall hækkaði úr 27,6% í 28,2% milli ára. Hagnaður samstæðunnar af reglulegri starfsemi nam 159 m.kr. Að teknu tilliti til afkomu af aflagðri starfsemi og þýðingarmunar vegna eignarhluta í erlendum dótturfélögum (gengisþróunar), nam hagnaður af rekstri samstæðunnar 147 m.kr. Eiginfjárhlutfall var 13% í árslok 2015.

„Við erum sátt við uppgjörið sem sýnir að við erum á réttri leið. Heildartekjur vaxa á milli ára og framlegð frá rekstri eykst umfram tekjuvöxt.  Vaxtakostnaður félagsins er hins vegar enn of hár sem sést best á því að þrátt fyrir aukinn rekstrarhagnað (EBITDA) er félagið enn að skila of lítilli arðsemi/hagnaði.  Verkefnin framundan eru því áframhaldandi styrking á rekstrinum, lækkun á vaxtaberandi skuldum félagsins og hækkun eigin fjár, segir Thomas Ivarsson, stjórnarformaður Advania.

Stefnt er á skráningu félagsins í sænsku Kauphöllinni 2018

Um 59% af rekstrarhagnaði (EBITDA) Advania varð til á sænska markaðnum árið 2015.  Hjá samstæðunni eru samtals um 1.000 starfsmenn á 20 starfsstöðvum, á Íslandi, í Svíþjóð, í Danmörku og í Noregi. Í ljósi sterkar stöðu félagsins á Norðurlöndum og vaxtamöguleikum þar er stefnt að skráningu félagsins í Kauphöllina í Stokkhólmi á árinu 2018.  Markmið skráningarinnar er tvíþætt, annars vegar stuðningur við áframhaldandi þróun og uppbyggingu á Norðurlöndum og hins vegar frekari styrking á eigin fé félagsins.

“Advania er íslenskt félag með höfuðstöðvar sínar á Íslandi, en skráning í Kauphöllina í Stokkhólmi er eðlilegt næsta skref fyrir Advania eftir vel heppnaða stækkun félagsins á Norðurlöndum.  Með skráningu styrkjum við félagið og fáum til liðs við okkur fleiri fjárfesta.  Að því gefnu að gjaldeyrishöft verði ekki lengur til staðar á árinu 2018 vonum við að innlendir aðilar muni verða sterkur hluti nýrra fjárfesta í félaginu.  Verði hins vegar áfram verulegar takmarkir á fjárfestingarmöguleikum íslenskra fjárfesta á þessum tíma verður skoðað hvaða möguleikar eru í stöðunni í samvinnu við Nasdaq á Íslandi” segir Thomas.

Í kjölfar kaupa hóps fjárfesta á Norðurlöndum á ráðandi hlut í félaginu var ákveðið að gefa norrænum lykilstjórnendum kost á að koma inn í hluthafahópinn. Þá verður stefnt að því samfara skráningu í Stokkhólmi á árinu 2018 að allir starfsmenn fái tækifæri til gerast hluthafar í félaginu.

„Við erum þekkingarfyrirtæki sem byggir á öflugum hópi starfsmanna og það er mikilvægt þeir hafi kost á að taka þátt í því að gera félagið enn öflugra og sterkara, og taka þannig þátt í þróun þess og vexti“ segir Thomas.TIL BAKA Í EFNISVEITU