3.1.2017 | Fréttir

WOW air semur við Advania um hýsingu

advania colors line

WOW air og Advania hafa gert samning um hýsingu og rekstur á hluta tölvukerfis WOW air í gagnaveri Advania á Íslandi. Stjórnendur WOW air völdu VMware vCloud, lausn sem er hönnuð til að auka öryggi og sveigjanleika, lækka kostnað og tryggja fyrirtækjum skalanleika þegar kemur að rekstri tölvukerfa. Meðal helstu kosta umhverfisins eru að viðskiptavinir geta afgreitt sig sjálfir, sett upp sýndarnetþjóna og aukið við eða dregið úr vinnslugetu þeirra án þess að þurfa að leita til sérfræðinga Advania.

„Við sjáum mikil tækifæri í því að reka tölvukerfi fyrirtækisins með þeim hætti að útvista hluta ábyrgðarinnar og eftirláta sérfræðingum Advania daglega umsýslu og eftirlit með grunninnviðum. Það gerir kerfisstjórum okkar kleift að leggja ríkari áherslu á stýringu og eftirlit og áframhaldandi uppbyggingu innviða í upplýsingatækni fyrir ört vaxandi félag.“ segir Kristján Þorvaldsson, forstöðumaður upplýsingatækni hjá WOW air. „Öryggismál skipta okkur miklu máli og við erum ánægð með að geta hýst gögn fyrirtækisins í öryggisvottuðum gagnaverum Advania hér á landi.“

Advania rekur fjögur gagnaver á Íslandi og leggur áherslu á að tryggja viðskiptavinum örugga hýsingu. Hjá fyrirtækinu starfar hópur sérfræðinga sem hefur umfangsmikla reynslu af rekstri grunninnviða tölvukerfa. 

„Við höfum á undanförnum árum lagt ríka áherslu á rekstrar- og hýsingarþjónustu hjá Advania. Við erum stolt af þeirri miklu reynslu sem sérfræðingar okkar hafa byggt upp. Lausnirnar okkar eru hannaðar til að auka öryggi og hagkvæmni í net- og kerfisrekstri og gerir viðskiptavinum okkar kleift að einbeita sér betur að uppbyggingu og þróunarvinnu“ segir Ægir Már Þórisson, forstjóri Advania á Íslandi. 

TIL BAKA Í EFNISVEITU