14.3.2017 | Fréttir

RVX framleiðir ótrúlegar tæknibrellur í gagnaverum á Íslandi

advania colors line

Sýndarveruleikastúdíóið RVX hefur gert samning við Advania um hýsingu í gagnaverum Advania á Íslandi, á ofurtölvubúnaði (HPC) félagsins. Lausnirnar notar RVX við framleiðslu á tækni- og myndbrellum fyrir kvikmyndir, sjónvarpsþætti, leiki og sýndarveruleika. RVX hefur unnið slík verkefni fyrir fjölda þekktra stórmynda á borð við Everest, Gravity, Tinker Tailor Soldier Spy, 2 Guns, Contraband og Australia en fyrirtækið vann einnig að sýndarveruleikaupplifuninni Everest VR.

Með samningnum fær RVX aðgang að upplýsingatæknisérfræðingum sem hafa mikla reynslu af rekstri og nýtingu ofurtölva (HPC) ásamt því að hafa aðgang að auknu tölvuafli ef þörf krefur í gegnum nýja ofurtölvuþjónustu Advania (HPCaaS).

Örugg og sveigjanleg hýsing
Gagnaver Advania eru vottuð ISO stöðlum, uppfylla ítrustu öryggiskröfur sem gerðar eru til gagnavera sem hýsa dýrmæt gögn, og eru hönnuð og byggð með hámarks rekstratröryggi að leiðarljósi. Orkunýtingarstaðall gagnavera Advania er allt að 1,03 PUE (Power Usage Effectiveness) sem er með því besta sem þekkist á heimsvísu. Gagnaver Advania eru rekin á umhverfisvænni orku sem gerir gagnaverin mjög álitleg í alþjóðlegum samanburði.

“Við erum líklega að framleiða umhverfisvænustu tæknibrellur í heimi” Segir Benjamin Bohn, framkvæmdastjóri RVX. “Rekstraröryggi hýsingar skiptir höfuðmáli í rekstri okkar og var því ein af lykilforsendunum þegar kom að því að velja þjónustuaðila. Við völdum Advania vegna áreiðanleikans sem fyrirtækið tryggir og sérfræðiþekkingarinnar sem býr í starfsfólki fyrirtækisins.“

Flóknari brellur kalla á meira tölvuafl
Stöðug tækniþróun þegar kemur að framleiðslu myndefnis gerir það að verkum að framleiðendur tækni- og myndbrellna þurfa sífellt öflugri tölvubúnað til að mæta auknum kröfum. Ofurtölvur sem þessar kalla á stórar upphafsfjárfestingar fyrirtækja og því skiptir fullnýting tölvubúnaðarins miklu máli þar sem hann úreldist hratt.

Ofurtölvuþjónusta (HPCaaS) Advania færir RVX aðgang að gríðarlega öflugum tölvubúnaði sem fyrirtækið getur notað til í lengri eða skemmri tíma ef verkefni kalla á meira tölvuafl, og gerir það að verkum að RVX þarf ekki að fjárfesta í viðbótarvélbúnaði sem ekki er fullnýttur.

“Advania hefur á síðustu árum byggt upp öfluga starfsemi í kringum rekstur gagnvera með þá sýn að standast kröfur sem alþjóðamarkaðir og -fyrirtæki gera til hýsingarumhverfa, sem við gerum svo sannarlega í dag“ segir Ægir Már Þórisson, forstjóri Advania á Íslandi. “Við erum stolt af reynslumiklum sérfræðingum okkar og getu þeirra til að styðja við rekstur aðila sem gera miklar kröfur á borð við RVX“.

TIL BAKA Í EFNISVEITU