22.3.2017 | Fréttir

Besta rekstrarár í sögu Advania á Íslandi

advania colors line

Árið 2016 var besta rekstrarár Advania á Íslandi frá upphafi. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) árið 2016 jókst um 63% á milli ára og nam 1.002 milljónum króna (m.kr.) samanborið við 616 m.kr. á árinu áður. Heildartekjur jukust um 7% á milli ára, voru 11.455 m.kr. samanborið við 10.746 m.kr. árið á undan. Sjóðstreymi félagsins var mjög gott á árinu.
Aukin eftirspurn og hærra hlutfall tekna af þjónustu

Ægir Már Þórisson forstjóri Advania á Íslandi segir að árangurinn megi rekja til nokkurra þátta. „Í fyrsta lagi hefur eftirspurn eftir vörum og þjónustu fyrirtækisins aukist mikið. Það er eiginlega sama hvert er litið, til hýsingar, rekstrar, uppfærslu fjárhags- og mannauðskerfa eða hugbúnaðarþróunar, alls staðar er aukin eftirspurn. Í öðru lagi höfum við einfaldað vöruframboð okkar þannig að mun hærra hlutfall af tekjum okkar kemur nú af þjónustu fremur en vörusölu. Í þriðja lagi þá höfum við á að skipa ótrúlega flottum hópi starfsmanna sem hefur lagt mikið á sig við að auka skilvirkni og bæta þjónustu við viðskiptavini.“ 

Árið 2016 var fyrsta heila árið sem Advania á Íslandi var rekið sem sjálfstætt dótturfélag Advania Norden. „Með því að reka Advania á Íslandi sem sjálfstætt dótturfélag skerptum við á áherslum fyrir íslenskan markað til að tryggja viðskiptavinum okkar hér þjónustu sem væri sérsniðin að þeirra þörfum,“ segir Ægir Már. „Við höfum gengið í gegnum miklar breytingar á undanförnum árum sem starfsfólk okkar hefur tekist á við með afbragðsgóðum árangri,“ segir Ægir Már.

Um Advania á Íslandi
Advania er leiðandi þjónustufyrirtæki á sviði upplýsingatækni og veitir viðskiptavinum áreiðanlega ráðgjöf og þjónustu á öllum sviðum upplýsingatækni. Hjá Advania á Íslandi starfa 600 manns á höfuðborgarsvæðinu, Akureyri og á Sauðárkróki. Advania á Íslandi er dótturfélag Advania Norden sem er einnig með starfsemi í Noregi og Svíþjóð.

 

TIL BAKA Í EFNISVEITU