5.7.2017 | Fréttir

Advania fær gullmerki eftir jafnlaunaúttekt

advania colors line

Advania hlaut í dag gullmerki jafnlaunaúttektar PwC. Jafnlaunaúttekt PwC staðfestir að munur á launum karla og kvenna hjá Advania er minni en 3,5% og í tilfelli Advania var hann langt undir því viðmiði.
 
Advania leggur ríka áherslu á jafnréttismál og að hver starfsmaður sé metinn að verðleikum. Þannig sinni fyrirtækið samfélagslegri skyldu sinni, nýti mannauð sinn sem best og stuðli að góðum starfsanda. Fyrirtækið hefur einsett sér að gæta að jafnrétti við ráðningar og tilfærslur í starfi og að jafna hlut kvenna og karla í hinum ýmsu störfum.
 
"Það er ánægjulegt að fá staðfestingu á því góða starfi sem hér hefur verið unnið á undanförnum árum, sérstaklega í ljósi þess að um allan heim er mikill kynjahalli í okkar atvinnugrein. Ég trúi því að fyrirtæki nái betri árangri þegar fólk með ólíkan bakgrunn, ólíkar skoðanir og ólíka sýn koma saman í stað þess að allir hagi sér og hugsi eins. Það hefur skilað Advania miklum ávinningi og hér hefur fólk í sameiningu búið til frábæran vinnustað" segir Ægir Már Þórisson, forstjóri Advania á Íslandi. "Framgangur og árangur í jafnréttismálum er vissulega á ábyrgð stjórnenda, en hér hefur tekist að skapa andrúmsloft þar sem starfsfólk telur jafnréttismál sjálfsagðan hluta af starfseminni. Við ætlum að sjálfsögðu að ná enn betri árangri á ákveðnum sviðum, t.d. með því að jafna kynjahlutföll enn frekar og stefnum að því að kynbundinn launamunur mælist ekki hjá fyrirtækinu." 
 
Jafnlaunaúttekt krefst nokkurs undirbúnings í fyrsta sinn sem hún er framkvæmd, en undirbúningsvinnan er afar gagnleg og mun nýtast Advania vel í framhaldinu. Vinnulag og verkferlar taka mið af ákvæðum í jafnlaunastaðlinum ÍST 85:2012 þar sem starfaflokkun, launagreiningar, skjölun o.fl. er tilgreind svo tryggt sé að fyrirtæki uppfylli settar kröfur.
 
Samkvæmt nýjustu mælingu VR hefur kynbundinn launamunur á Íslandi haldist nær óbreyttur frá árinu 2009. Að jafnaði eru konur með 15% lægri heildarlaun en karlar á íslenskum vinnumarkaði og að teknu tilliti til áhrifaþátta á laun (aldurs, starfsaldurs, starfsstéttar, atvinnugreinar, menntunar, mannaforráða, vaktavinna og vinnutíma sem er stærsti áhrifaþátturinn) stendur eftir kynbundinn launamunur upp á rúm 11%.
 
Starfsmenn Advania á Íslandi eru 600 talsins, þar af eru 72% karlar og 28% konur.

Á myndinni eru Ægir Már Þórisson, forstjóri Advania (t.h.) sem tekur við viðurkenningarskjali frá Þorkeli Guðmundssyni frá PwC.

 

 


 

 

TIL BAKA Í EFNISVEITU