13.7.2017 | Fréttir

Sex starfsmenn Advania hurfu

advania colors line

Frábær árangur náðist í sex vikna lífstílskeppni meðal starfsfólks Advania, þar sem markmiðið var að stuðla að vellíðan starfsfólks og hvetja til hreyfingar. 134 starfsmenn skráðu sig til leiks og skipuðu sér í 24 lið sem kepptust við að ná sem mestum árangri. Árangurinn var mældur vikulega og eftir ákveðnu fyrirkomulagi féllu þátttakendur smám saman úr keppni, þar til liðin voru leyst upp á lokametrunum og þeir sem eftir stóðu kepptu um sigurlaunin.

Verulegur árangur náðist í keppninni, því samtals léttust þátttakendur um 428 kíló á sex vikum. Það jafngildir því að sex starfsmenn Advania hafi horfið á tímabilinu, miðað við meðalkjörþyngd Íslendinga. Sigurvegarinn í aðalkeppninni léttist um tæp 10 kíló og hlaut að launum Dell fartölvu af nýjustu gerð. Þeir sem féllu úr keppni eftir mælingarnar kepptu síðan innbyrðis í sérstakri heimakeppni, þar sem sigurvegarinn léttist um heil 14 kíló og hlaut að launum glæsilegt reiðhjól.

Ásgeir Freyr Kristinsson, tölvunarfræðingur og forsprakki keppninnar, segir þennan mikla áhuga og góða árangur ekki hafa komið á óvart. “Það er sannarlega í okkar anda að fara alla leið, setja metnaðarfull markmið og leggja okkur öll fram við að ná þeim. Það er einfaldlega í okkar menningu og smitast í öll okkar verk. Þeir sem hafa áhuga á heilbrigðum lífsstíl og hollri hreyfingu finna hér margt við sitt hæfi. Í kjallaranum er einhver besta líkamsræktaraðstaða í bænum og héðan er stutt í frábærar hlaupa- göngu- og hjólaleiðir sem við nýtum vel," segir Ásgeir. "Í okkar 600 manna hópi er öflugt hjólafólk, sem ýmist hjólar í vinnuna allt árið um kring eða kringum landið í WOW-hjólakeppninni. Mötuneytið er eitthvert það hollasta og besta í bænum og áfram mætti telja.” 

Þetta var í annað sinn sem efnt var til keppni af þessu tagi og stefnt er að því að endurtaka leikinn að ári. 

Á myndinni má sjá þá sem náðu mestum árangri í keppninni; Þorgeir Ómarsson,  Birgir Þór Júlíusson, Guðmar Gíslason og Ásgeir Freyr Kristinsson.

TIL BAKA Í EFNISVEITU