10.8.2017 | Fréttir

Ægifagur og umhverfisvænn

advania colors line

Fjölgað hefur í farartækjaflota Advania en nú býðst starfsfólki að nota rafknúin reiðhjól til að ferðast milli staða á vinnutíma. Ægir Már Þórisson, forstjóri Advania, er í hópi þeirra sem hafa hjólað til fundar með viðskiptavinum og þannig tekið þátt í að minnka kolefnisspor fyrirtækisins.  

Ægir segir það skemmtilega tilfinningu að ferðast um á rafknúnu hjóli og að með því séu slegnar margar flugur í einu höggi. „Við höfum um árabil lagt okkur fram um að draga úr bílaumferð og hvatt fólk til að hjóla í vinnuna, sameinast um bíla eða nota almenningssamgöngur. Með því að bæta rafmagnshjólum í farartækjaflotann okkar færum við starfsfólki skemmtilegan valkost sem hvetur til hreyfingar, dregur úr mengun og útrýmir tímafrekri leit að bílastæðum.” segir Ægir. 

Eins og sést á meðfylgjandi mynd eru reiðhjólin hin glæsilegustu. Gert er ráð fyrir að fólk hjóli með hefðbundnum hætti, en rafmagnsmótorinn hjálpi til í brekkum og á erfiðari eða lengri leiðum. Að sjálfsögðu er vatns- og vindheld tölvu- og skjalageymsla á hjólunum og þess vegna ekkert því til fyrirstöðu að starfsfólk ferðist milli funda á þessum ægifögru og umhverfisvænu fararskjótum fyrirtæksisins. 

TIL BAKA Í EFNISVEITU