7.9.2017 | Fréttir

Uppselt á stærstu tækniráðstefnu Advania frá upphafi

advania colors line

Uppselt er á Haustráðstefnu Advania sem haldin verður föstudaginn 8. september í Hörpu og verða gestir ráðstefnunnar rúmlega 1.000 talsins. Um er að ræða stærstu Haustráðstefnu Advania frá upphafi en þetta er í 23. sinn sem ráðstefnan fer fram. Samanlagt hafa um 18 þúsund gestir sótt ráðstefnuna frá upphafi. Á ráðstefnunni verða 34 erindi. Fimm lykilfyrirlesarar munu flytja erindi í Eldborgarsal Hörpu og boðið verður upp á fjölbreytta fyrirlesta á fjórum línum, Tækni og öryggi, Nýsköpun, Stjórnun og Þróun. 

„Viðbrögðin við ráðstefnunni hafa farið fram úr okkar björtustu vonum og komust færri að en vildu“ segir Ægir Már Þórisson, forstjóri Advania á Íslandi. „Það er ekki á hverjum degi sem aðilar á borð við Alexander Nix frá Cambridge Analytica eða Neha Narula frá MIT mæta til landsins til að flytja erindi svo það er skiljanlegt að áhugi fólks sé mikill.“ 

Haustráðstefna Advania er einn stærsti viðburður ársins í upplýsingatækni hér á landi og jafnframt ein elsta árlega tækniráðstefna í Evrópu. Ráðstefnan er ætluð stjórnendum, upplýsingatæknisérfræðingum, aðilum úr atvinnulífinu og öllu áhugafólki um upplýsingatækni. Sýningarsvæði ráðstefnunnar hefur aldrei verið jafn umfangsmikið og í ár en þar munu níu stór tæknifyrirtæki sýna allt það nýjasta í tækniheiminum.

„Það er alveg ljóst að upplýsingatækni mun fela í sér enn frekari breytingar á daglegu lífi okkar og störfum á næstu árum og við hlökkum til að takast á við þær áskoranir með viðskiptavinum okkar“ segir Ægir Már. „Við hjá Advania tökum þekkingarmiðlunarhlutverk okkar alvarlega enda teljum við það vera mikilvægan lið í því að undirbúa viðskiptavini okkar undir óþekktar áskoranir framtíðarinnar.“ 

TIL BAKA Í EFNISVEITU