16.10.2017 | Fréttir

Fimmföldun á níu mánuðum

advania colors line
Notkun rafrænna undirskrifta við undirritun skjala hefur fimmfaldast á þessu ári. Sífellt fleiri fyrirtæki og stofnanir bjóða nú upp á rafræna auðkenningu undirskrifta en þessi aðferð leysir algerlega af hólmi hefðbundna undirritun með penna. Flestar undirritunarlausnirnar eru byggðar á hugbúnaðarlausninni Signet frá Advania sem síðan er hefur verið löguð að þörfum viðskiptavina. 
 
Almenningur hefur ótvírætt hagræði af notkun rafrænna undirskrifta. Ekki þarf lengur að mæta á tiltekinn stað til að undirrita skjöl - oft á miðjum vinnudegi eða langt frá heimili sínu. Í dag er t.d. hægt að stofna bankareikning, senda umsóknir og undirrita fylgiskjöl lánasamninga án þess að fara í bankann, auk þess sem hægt er að sækja um leyfi til atvinnurekstrar hjá opinberri stofnun. Allar þessar aðgerðir er í dag hægt að framkvæma í gegnum tölvu eða símtæki án þess að mæta á staðinn með tilheyrandi kostnaði og fyrirhöfn. 

Ægir Már Þórisson, forstjóri Advania á Íslandi:
"Það er ánægjulegt að viðskiptavinir okkar skuli nýta Signet til að auka öryggi viðskiptavina sinna og bæta þjónustustig sitt. Það er hins vegar mikilvægt að lagaumhverfið taki mið af þessari þróun. Með einföldum laga- og reglugerðarbreytingum mætti t.d. auðvelda fasteignaviðskipti til muna. Í dag geta fasteignasalar ekki gengið frá viðskiptum með rafrænum hætti þar sem þinglýsingalög heimila ekki slíkt. Hér er um að ræða gömul lög sem tímabært er að uppfæra og skapa þannig skilvirkara umhverfi fyrir fólk sem vill þinglýsa skjölum með nútímalegum og öruggum hætti."

Rafrænar undirritanir eru aðeins eitt dæmi um það hagræði sem stafræn tækniþróun færir okkur. Þessi stafræna umbreyting (e. digital transformation) sem nú færist sífellt í aukana snertir allar hliðar samfélagsins og krefst þess að ferlar séu endurhannaðir með tilliti til tækninnar og aukinnar þekkingar almennings á stafrænum möguleikum. Advania er stolt af því að leggja þessari umbreytingu lið, til hagsbóta fyrir samfélagið allt. 
 
TIL BAKA Í EFNISVEITU