23.2.2018 | Fréttir

Sex miljarða viðskipti Advania og Stokkhólmsborgar

advania colors line
Stokkhólmur kaupir snjalltæki af Advania fyrir alla leik- og grunnskóla borgarinnar.
Þjónusta við skólakerfið er orðin ein af grunnstoðum í rekstri Advania.

Yfirvöld í Stokkhólmi hafa gert risasamning við Advania um kaup á snjalltækjum til allra grunn- og leikskóla borgarinnar. Virði samningsins er um 500 milljónir sænskra króna, sem samsvarar 6 milljörðum íslenskra króna. Í samningnum felst að Advania sér um að útvega og þjónusta 55 þúsund snjalltæki á ári, næstu tvö árin. Það samsvarar tvöfalt fleiri spjald- og fartölvum en seldar voru á Íslandi í fyrra.

„Um árabil hefur Advania í Svíþjóð gegnt lykilhlutverki í stafrænni þróun á sænsku skólakerfi. Hér á Íslandi hefur Advania einnig sinnt þessu hlutverki með margvíslegum hætti. Við höfum staðið fyrir kennaranámskeiðum um upplýsingatækni og aðstoðað hina ýmsu skóla að tæknivæðast. Við sjáum fjölmörgum skólum fyrir tækjabúnaði og bjóðum öflug upplýsingakerfi fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Við erum stolt af því að taka markvissan þátt í að búa börn undir vinnumarkað framtíðarinnar sem verður í miklum mæli í stafrænum heimi.
Með nýjum samningi við borgaryfirvöld í Stokkhólmi er þjónusta við skólakerfið svo sannarlega orðin ein af grunnstoðum í rekstri Advania,“ segir Ægir Már Þórisson, forstjóri Advania á Íslandi.

„Við erum ánægð með að hafa samið við traustan upplýsingatækniaðila sem mun styðja skólana í þeirra stafræna umbreytingaferli. Við hlökkum til samstarfsins við Advania um nútímalegra námsumhverfi með meiri sveigjanleika og bættu aðgengi að stafrænum heimi,“ segir Johanna Engman starfandi forstöðumaður upplýsingatæknideildar Stokkhólmsborgar.

Nánar um samstarf Advania við sænska skólakerfið
TIL BAKA Í EFNISVEITU