2.3.2018 | Fréttir

Efast um kostnað við Jafnlaunavottun

advania colors line

Þorsteinn Víglundsson þingmaður Viðreisnar segir að kostnaður fyrirtækja við Jafnlaunavottun verði miklu minni en sá kostnaður sem konur bera nú þegar vegna kynbundins launamunar.

Rætt var um skrefin sem þarf að stíga til að öðlast Jafnlaunavottun, á morgunverðarfundi Advania föstudaginn 2. mars.
Um 300 manns hafa sótt fundi Advania um Jafnlaunavottun að undanförnu enda mörg fyrirtæki farin að búa sig undir breytt lagaumhverfi. Lögin hafa vakið heimsathygli og skilyrða öll fyrirtæki og stofnanir í landinu með fleiri en 25 starfsmenn, til að öðlast Jafnlaunavottun.
Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, sagði frá því á fundinum hvers vegna hann gerði það að sínu helsta baráttumáli í stjórnmálum að koma lögum um Jafnlaunavottun í gegn á Alþingi. Þorsteinn sagðist áður hafa verið efasemdamaður um lög sem íþyngdu atvinnulífinu og að hann hafi sjálfur verið mótfallinn ríkisafskiptum í anda Jafnlaunavottunarinnar. „Ég var sjálfur í þeim hópi sem lagðist gegn lögum um aukið hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja. Einu sinni var það mín sannfæring að atvinnulífið myndi laga þetta sjálft og að það væri ekki hins opinbera að hlutast til um það. Staðreyndin er hinsvegar sú að breytingarnar komu aldrei að sjálfu sér. Hlutfall kvenna í stjórnum jókst ekkert fyrr en það fór að hylla undir að lög um kynjahlutföll í stjórnum tækju gildi. Þá sáum við mikla breytingu, framvarðarsveit kvenna í atvinnulífinu varð meira áberandi og fyrirmyndirnar sýnilegri. Svo úr því að við höfum tæki sem virka, afhverju ekki að nota þau?“ spurði Þorsteinn á fundinum.

Hann sagðist auðvitað hafa fundið fyrir mótstöðu úr atvinnulífinu vegna Jafnlaunavottunarinnar. Stjórnendur fyrirtækja hefðu áhyggjur af miklum kostnaði sem vinnan við að öðlast slíka vottun myndi hafa í för með sér.
„Ég hef heyrt að áætlaður kostnaður við að búa fyrirtæki undir Jafnlaunavottun geti verið á bilinu 0,3-0,8% af launakostnaði fyrirtækis á ári. Kostnaðurinn við óbreytt ástand er hinsvegar gríðarlegur, og er allur hjá konum. Óútskýrður kynbundinn launamunur er enn á bilinu 7-18%. Er þá ekki bara sanngjarnt að fyrirtækin taki á sig kostnaðinn við að útrýma launamuninum? Við erum með líka með íþyngjandi lög og reglur í landinu sem varða heilsu fólks á vinnustað. Það kvarta fáir undan því. Og satt best að segja þá efast ég um að kostnaðurinn við Jafnlaunavottun verði mikill því vinnan sem hún kallar á mun leiða til meiri aga í launaákvörðunum,“ sagði Þorsteinn.

Á fundinum var einnig rætt um tæknilausnir Advania sem auðvelda undirbúningsvinnuna fyrir Jafnlaunavottun. Ægir Már Þórisson forstjóri Advania var spurður um lausnina í Morgunblaðinu í dag.
Eftir sem áður eru laun alltaf spurning um samtal og ákvörðun en þarna hefurðu greiðari aðgang að upplýsingum til að undirbúa ákvarðanir þínar... Þetta verður kannski ekki eins íþyngjandi og menn óttuðust í byrjun. Þetta dregur örlítið úr byrðunum við að greina og komast að því hvar pottur er brotinn, sagði Ægir.


TIL BAKA Í EFNISVEITU