13.3.2018 | Fréttir

Sjálfsafgreiðsla valkostur í Krónunni

advania colors line
Krónan mun á næstu dögum taka í notkun fjóra sjálfsafgreiðslukassa í versluninni við Nóatún 17 í Reykjavík. Viðskiptavinir hafa þá val um tvo afgreiðslumáta í versluninni. Áfram verður hægt að greiða fyrir vörur á hefðbundinn hátt við mannaða afgreiðslukassa. Nýju sjálfsafgreiðslukassarnir bætast við sem valkostur fyrir þá sem vilja afgreiða sig sjálfir. Starfsfólk verslunarinnar verður við kassana og aðstoðar viðskiptavini við sjálfsafgreiðsluna.
Krónan leggur mikið kapp á jákvæða upplifun viðskiptavina sinna í verslunum.

Sjálfsafgreiðslulausnin er hugsuð til að stytta biðraðir á háannatíma. Fjöldi afgreiðslukassa verður tvöfaldaður í versluninni í Nóatúni sem ætti að auka skilvirkni og draga verulega úr röðum. Nýja sjálfsafgreiðslukerfið er afar einfalt og öruggt. Allir sem vilja greiða með greiðslukorti geta notað það.

Reynslan frá Norðurlöndum sýnir að viðskiptavinir velja í auknum mæli sjálfsafgreiðslu fram yfir þjónustaða afgreiðslukassa í matvöruverslunum. Í Bretlandi er sjálfsafgreiðsla fyrsta val viðskiptavina í verslunum. Forsvarsmenn Krónunnar telja því að sjálfsafgreiðslulausnir mæti kröfum neytenda og auki val þeirra við innkaupin.
Advania þjónustar kerfið en afgreiðslukassarnir eru framleiddir af NCR sem er leiðandi á heimsmarkaði í afgreiðslulausnum. Kerfið er því þaulprófað um allan heim og er einstaklega notendavænt.

„Margir af okkar viðskiptavinum vilja vera snöggir að versla og kunna að meta tímasparnaðinn við að afgreiða sig sjálfir við innkaupin. Með sjálfsafgreiðslu minnka álagstoppar og okkar viðskiptavinir hafa aukið val,“ segir Jón Björnsson, forstjóri Festi.

„Við fögnum því að Krónan nýti tæknina til að bæta þjónustu við viðskiptavini sína. Við höfum séð sambærilega þróun á öllum sviðum samfélagsins, og vitum að meirihluti fólks kýs nú að innrita sig sjálft í flug eða millifæra sjálft í heimabankanum frekar en að bíða í röð eftir aðstoð. Það er framsækið skref að bjóða uppá sjálfsafgreiðslu sem valkost í verslunum á Íslandi,“ segir Ægir Már Þórisson, forstjóri Advania.
TIL BAKA Í EFNISVEITU