26.4.2018 | Fréttir

Advania verður bakhjarl KSÍ

advania colors line
Guðni Bergsson formaður Knattspyrnusambands Íslands og Ægir Már Þórisson forstjóri Advania, undirrituðu í dag rafrænan samning um að Advania verði einn sex af bakhjörlum KSÍ. Advania og KSÍ hafa átt náið samstarf í mörg ár og með bakhjarlasamningnum er stefnt að enn meiri samvinnu næstu þrjú árin.

Advania hefur smíðað nýja heimasíðu fyrir KSÍ sem opnuð var á dögunum en þar hefur aðgengi að tölfræðiupplýsingum úr gagnagrunni KSÍ verið stórbætt. Advania hefur einnig smíðað nýtt og öflugt mótakerfi með yfirliti yfir mótaupplýsingar allra fótboltaiðkenda í landinu sem aðgengilegt er á vefnum.
Spennandi og annasamir tímar eru framundan hjá Knattspyrnusambandinu, meðal annars vegna þátttöku A-landsliðs karla á heimsmeistaramótinu í Rússlandi. Advania vill auðvelda úrlausn á þeim fjölmörgu flóknu tæknimálum sem Knattspyrnusambandið stendur frammi fyrir og gera því kleift að einbeita sér að sínu sérsviði, fótbolta. Landsliðið í upplýsingatækni ætlar veita sambandinu framúrskarandi þjónustu og sjá til þess að tæknimálin gangi vel.

„Við erum stolt af því að stíga af fullum þunga inn í verkefnin með Knattspyrnusambandinu og efla það með bættri upplýsingatækni. Það er sönn ánægja að geta stutt við starfsemi okkar færustu knattspyrnuiðkenda í karla- og kvennalandsliðunum. Ekki síst fögnum við því að stuðningurinn nýtist til að efla grasrótarstarfið sem unnið er um allt land. Upplýsingatæknin verður sífellt mikilvægari í starfsemi aðildarfélaga KSÍ og við vonumst til að okkar stuðningur auðveldi þeim verkin,“ segir Ægir Már Þórisson forstjóri Advania.

„Við höfum átt farsælt samstarf við Advania í gegnum tíðina og erum ánægð með að geta styrkt samstarfið enn frekar. Fótboltinn kallar á sífellt meiri upplýsingatækni, í þjálfun, mótshaldi og umstangi við ferðalög iðkenda. Það er ómetanlegt að hafa aðgengi að öflugu fagfólki í þessum efnum,“ segir Guðni Bergsson formaður Knattspyrnusambands Íslands.

Mynd: Guðni Bergsson formaður KSÍ og Ægir Már Þórisson forstjóri Advania.

TIL BAKA Í EFNISVEITU