1.6.2018 | Fréttir

Ríkið semur við Advania og Microsoft

advania colors line

Ríkið sparar 200 milljónir með nýjum samningi við Microsoft og Advania sem felur í sér kaup á hugbúnaði fyrir ríkisstofnanir. Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra undirritaði samninginn fyrir hönd ríkisins í dag.

Hann felur í sér að ríkisstofnanir fá aðgang að nýjustu útgáfu Office 365 hugbúnaðarpakkanum, með Word, Excel, hópvinnukerfi og póstkerfi. Advania er stærsti sölu- og þjónustuaðili Microsoft á Íslandi og var með hagstæðasta tilboðið í útboði um framkvæmd samningsins. Advania þjónustar notendur hugbúnaðarins og veitir ráðgjöf um leyfi. Þetta er í fyrsta sinn sem ríkið gerir heildstæðan samning um hugbúnað og leyfi frá Microsoft. Áður gerðu stofnanir og ráðuneyti sína eigin samninga og voru alls 104 samningar í gildi við ríkið.

Með þessu næst fram veruleg hagræðing og tryggir samningurinn litlum og meðalstórum stofnunum sama verð og þeim stærri. Með miðlægri umsjón verður yfirsýn yfir leyfamál ríkisins betri og hægt verður að flytja leyfi milli stofnana og auka nýtingu þeirra.
„Við teljum að við höfum náð verulega hagstæðum samningum við Microsoft, en þeir tryggja ríkisaðilum hærri afslætti en bjóðast í mörgum nágrannaríkjum okkar. Samningurinn er liður í stærra átaki ríkisins sem felst í að auka og bæta opinbera þjónustu. Árlega sparast um 200 m.kr. í krafti samningsins, sem til framtíðar þýðir hagræðingu sem nemur milljörðum. Það fjármagn verður hægt að nýta til uppbyggingar stafrænnar þjónustu og með því eykst skilvirkni í starfsemi stofnana ríkisins, “ segir Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra.

„Það er sérstaklega ánægjulegt fyrir Advania að fá að veita ríkinu þjónustu og ráðgjöf og gleðiefni hversu mikil hagræðing næst með nýjum samningi við Microsoft. Við hjá Advania höfum áralanga reynslu af hugbúnaðarráðgjöf og höfum síðustu ár byggt upp öflugt teymi ráðgjafa á þessu sviði. Liður í því voru kaup okkar á sænska félaginu Caperio í fyrra sem veitir okkur gríðarlega sterkt bakland inn í þetta verkefni,“ segir Ægir Már Þórisson forstjóri Advania.


TIL BAKA Í EFNISVEITU