12.6.2018 | Blogg

Mannauðsstjórnun í stafrænum veruleika

advania colors line

Veröldin færist stöðugt meira yfir í hinn rafræna heim. Fólk er orðið vant því að geta leyst sífellt fleiri og flóknari verkefni sjálft í gegnum tölvuna, hvar sem er og hvenær sem er. Þetta á við í einkalífinu og fólk ætlast til þess að það eigi við í vinnunni líka. Krafa fólks er að geta á fljótlegan og þægilegan hátt, bókað borð á veitingastað, tíma með bílinn í viðgerð eða börnin til tannlæknis, millifært peninga, fyllt á inneignir, sótt upplýsingar og veitt þær, allt á netinu og helst bara gegnum símann. Þannig viljum við geta nýtt tímann betur í samskipti og upplifanir í raunheiminum. Af hverju þá ekki að geta sótt þér þjálfun í vinnunni, skráð þig á námskeið, gefið teyminu þínu endurgjöf á sama hátt? Hugsum okkur hagræðið af því að veita ábendingar og fá þær frá yfirmanninum þínum, að geta skoðað og uppfært upplýsingar um þig sem starfsmann í gegnum símann. Með því að tölvuvæða mannauðsferla og aðgengi starfsfólks að upplýsingum, þjálfun og endurgjöf gefst mannauðsteymum meiri tími til að sinna starfsfólki og veita stjórnendum ráðgjöf í mannauðsmálum og stefnumótun þeim tengdum.

Skilvirkari endurgjöf - í rauntíma
Mat á og stuðningur við frammistöðu starfsfólks getur haft gríðarleg áhrif á hag fyrirtækisins. Starfsfólk sem fær hvatningu til að gera sitt besta, ásamt ábendingum um hvar og hvernig þeir gætu bætt frammistöðu sína, eru líklegri til að nýta hæfileika sína betur og stuðla að betra samstarfi og afkastagetu teyma. Þannig hafa slík atriði bein áhrif á afkomu fyrirtækisins. Endurgjöf í rauntíma – ekki bara árlega eða öðru hvoru, eins og algengt er – styður gríðarlega við virkni starfsfólks og bætir tengsl þeirra og þar með tryggð við stjórnanda og fyrirtækið sjálft. Þar að auki getur slík endurgjöf hjálpað starfsfólki við að verða betri og öflugari starfskraftur.

Skemmtilegri og betri starfsþjálfun
Starfsfólk vill fá tækifæri til að læra nýja hluti og það vill fá áskoranir til að bæta sig. Stundum þarf líka smá hvatningu til. Leikjavæðing, sem er það að gera einhverskonar verkefni að leik, er skemmtileg leið til að hvetja til þátttöku. Kerfi sem veita rafræn verðlaun eða stilla þátttöku eða árangri upp sem keppni geta aukið áhuga á verkefninu og ýtt undir upptöku efnisins. Í einhverjum tilvikum getur slík nálgun líka gert það að verkum að meira af námsefninu kemst til skila. Í hröðum nútímaheimi, þar sem mikið liggur undir því að veita notandanum afþreyingu og upplýsingar í stuttum og kjarnyrtum einingum, er einnig mikilvægt að efni og framsetning fræðslu og endurgjafar veki áhuga og það sé aðgengilegt, þægilegt og auðlært. Best er að haga birtingu og aðgengi að efninu þannig að hægt sé að taka það í litlum bútum, svipað og algengast er með efni á samfélagsmiðlum, svokallað microlearning eða örnám.

Réttu upplýsingarnar á réttum tíma
Skilvirk, einstaklingsbundin þjálfun er þó aðeins einn ávinningur af því að færa mannauðsmál í stafrænan farveg. Bætt flæði upplýsinga getur einnig eflt mannauðsteymi umtalsvert. Stjórnendur og mannauðsteymi þurfa að vita af nýjum upplýsingum og niðurstöðum úr frammistöðusamtölum um leið og þær koma fram. Þessir aðilar þurfa líka að vera meðvitaðir um breytta þörf fyrir upplýsingar um leið og þeirra gerist þörf. Helst þarf að vera hægt að sjá þessar breytingar fyrir í stað þess að bregðast við eftir á eða stundum of seint. Of sein viðbrögð, eftir að skaði er skeður, geta leitt til þess að einstaklingurinn sem um ræðir er búinn að glata tryggðinni, virkninni eða er jafnvel farinn úr starfi.

Upplýsingar um mat á fræðslu, niðurstaða á frammistöðumati og endurgjöf þurfa því einnig að vera miðlæg, aðgengileg og myndræn. Þannig er auðvelt og fljótlegt að fá gott yfirlit yfir það sem skiptir máli og auðveldara að bregðast við.

Nýjir tímar, nýjar lausnir

En eru til lausnir sem ná utan um allt ofangreint? Advania hefur nýlega hafið samstarf við mannauðslausnafyritækið eloomi sem hefur sérhæft sig í stafrænum mannauðslausnum sem taka á flestum þáttum sem hér hefur verið tæpt á. Kerfin frá eloomi bjóða upp á hraða og skilvirka endurgjöf, heldur vel og örugglega utan um feril starfsfólks og hvetur fólk áfram í starfsþjálfun með skemmtilegri framsetningu í formi leiks.

Áhugasamir um lausnirnar frá eloomi geta kynnt sér þær nánar á vefnum eða haft samband við mannauðslausnir Advania.

 

Höfundur:
Hólmfríður Steinþórsdóttir vörustjóri - viðskiptalausnir

TIL BAKA Í EFNISVEITU