19.6.2018 | Fréttir

Hjartað í húsi Advania

advania colors line

Það verða vatnaskil hjá Advania þegar kaffibarþjónninn Árni Valur Axfjörð kveður fyrirtækið í haust og heldur á vit nýrra ævintýra. Árni er hjartað í höfuðstöðvum fyrirtækisins. Hann tekur brosandi á móti öllum sem koma inn í húsið og vinnur þá á sitt band með því að reiða fram heimsins bestu kaffibolla. Hann veit nákvæmlega hvernig hver einasti starfsmaður vill kaffið sitt.

„Það er auðveldara en það hljómar að leggja kaffivenjur fólks á minnið. Við finnum öryggi í rútínunni og bregðum lítið útaf vananum,“ segir hann. Kannski engin furða að kaffihúsið hans sé aðalstaðurinn í byggingunni. Þar hefur Árni staðið vaktina í fimm ár. Þegar mest mæðir á honum gerir hann um 90 kaffibolla í einu hádegi.

Árni segir þó ekki skilið við kaffið þegar vinnudeginum lýkur, því þegar hann fer heim blandast það listsköpun hans og tekur á sig allt aðra mynd. Það hefur nefninlega alltaf blundað listamaður í Árna og frá barnsaldri hefur hann elskað að teikna og skapa. Í nýlegum vatnslita- og pennaverkum hans af íslensku landslagi spilar kaffið stórt hlutverk. Það notar hann til að lita pappírinn og kalla fram litbrigði í myndunum sem einkenna mörg verka hans. Nú stendur yfir sýningin Náttúran vakir í húsakynnum Advania í Guðrúnartúni 10, þar sem sjá má tíu verk eftir Árna.
„Ég er mikið fyrir að hriða rusl og búa til eitthvað úr því. Þá er allt svo gamalt og slitið og hefur karkter. Ég hef fengið að fara í ruslagáma hjá fornbókabúðum og fundið þar pappír úr eldgömlum bókum sem er alsettur kaffiblettum og fingraförum. Einmitt eins og ég vil hafa hann, því ég þoli ekki hvít blöð. Þannig kviknaði hugmyndin um að lita pappírinn áður en ég fór að teikna á hann. Ég nýtti kaffi sem féll til á kaffihúsinu til að gera pappírinn eins og ég vildi hafa hann og svo fæddust þessar myndir sem hér eru til sýnis,“ segir Árni.

Í gegnum tíðina hefur Árni fengist við grafísk verk, skúlptúra og ýmskonar teikningar. Honum hefur nú boðist innganga í keramíkdeild Myndlistarskólans í Reykjavík og kveður því Te og kaffi í húsakynnum Advania á haustmánuðum.


TIL BAKA Í EFNISVEITU