21.8.2018 | Blogg

Sæktu innblástur á Haustráðstefnu Advania

advania colors line

Við hjá Advania erum stolt af dagskrá Haustráðstefnunnar í ár og hlökkum til að taka á móti fólki í Hörpu 21.september. Við höfum lagt okkur fram við að setja saman spennandi prógram sem tekur á áhugaverðum áskorunum í stafrænum heimi. Fyrirlesararnir koma úr ólíkum áttum tæknigeirans. Sumir eltast við hættulegustu ógnir internetsins. Aðrir nýta gervigreind til að smíða útlimi fyrir fólk eða ofurtölvur í brautryðjandi læknisfræðirannsóknum. Við vonumst til að gestir okkar verði innblásnir og ögn klókari eftir daginn.

Lykilfyrirlesarar ráðstefnunnar horfa úr ólíkum áttum á tæknigeirann. Einn þeirra er vinsælasti tæknipenninn á netinu, Tim Urban frá Wait But Why. Tiffani Bova er helsti sérfræðingur Salesforce um viðskiptasambönd fyrirtækja og einstaklinga og Ingibjörg Þórðardóttir fer fyrir stafrænni miðlun CNN á heimsvísu.

Í Norðurljósasal Hörpunnar verða tækni- og öryggismál til umfjöllunar. Farið verður yfir veikleikaskannanir og hvernig flokka megi alla þá ótal veikleika sem uppgötvast, eftir því hve fljótt þurfi að bregðast við þeim. Þá verður rætt um hvernig almenningur hefur verið virkjaður við leit að öryggisgöllum í útbreiddum hugbúnaði. Rýnt verður í nýjar ógnir sem rannsóknarteymi Cisco í öryggismálum telur að þurfi að vara við. Spilliforritin sem talið er að hafi verið notuð við árás á vetrarólympíuleikana í Pyeongchang í Kóreu verða skoðuð og farið verður yfir helstu dreifingarleiðir og eyðingarmátt forritanna. Þá verður fjallað um áskoranir við auðkenningar, einstakar læknisfræðirannsóknir sem framkvæmdar eru með íslenskum ofurtölvum, og tæknina sem skapar hreyfigetu í gerviútlimum.

Stjórnun verður þema í öðrum hluta Silfurbergs þar sem rætt verður um margvíslegar áskoranir stjórnenda við stafræna umbreytingu. Rýnt verður í dæmi frá Marel, Icelandair, Securitas og Arion banka en einnig verður fjallað almennt um erfiða ákvörðunartöku, stafræna innviði, ferla og fyrirtækjasamruna.
Í hinum hluta Silfurbergs verður rætt um framtíðina. Stöðu manneskjunnar í rafrænum heimi, ábyrgð hennar og framúrstefnulegar hugmyndir. Skoðaður verður ávinningur af samstarfi í Auðlindagarðinum. Þar nýta fjölmörg fyrirtæki affall af jarðvarmavirkjuninni á Svartsengi og styðjast við hugmyndina um að affall eins sé hráefni fyrir annan.

Fjallað verður um áskoranir sjálfstæðra tölvuleikjaframleiðenda og nýja tækni í sjávarútvegi sem gæti leyst útbreydd vandamál í framboðskeðju fiskmetis. Þá verður skoðað hvernig Creditinfo nýtir gögn til að aðstoða fyrirtæki um allan heim við sjálfvirka ákvörðunartöku.

Í Kaldalóni verður þemaið þróun. Þar verður fjallað um að velja rétta tækni til að framleiða flókna farsímaleiki fyrir fjölbreytt stýrikerfi. Rætt verður um gagnagnótt og gagnavísindi í margskonar starfsemi, til dæmis um afleiðingar þess að taka ákvarðanir út frá röngum gögnum. Skoðað verður hvernig stuðla megi að jákvæðri notendaupplifun með notkun gervigreindar og spjallabotta, og horft til stöðu og framtíðar sýndarveruleikans.

Við hlökkum til að sjá þig í Hörpu,

Sesselía Birgisdóttir, markaðsstjóri Advania.


TIL BAKA Í EFNISVEITU