7.9.2018 | Fréttir

Anna Björk nýr framkvæmdastjóri hjá Advania

advania colors line

Anna Björk Bjarnadóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri ráðgjafar og sérlausna hjá Advania. Hún mun stýra sókn félagsins í ráðgjöf til viðskiptavina um stafræna umbreytingu.

Advania ætlar að stíga af fullum þunga inn í ráðgjafahlutverkið og hefur breytt skipulagi fyrirtækisins til að byggja upp nýtt svið undir stjórn Önnu Bjarkar. Á nýja sviðinu verða rúmlega hundrað starfsmenn þar sem áherslan verður lögð á ráðgjöf á sviði stafrænnar stefnu ásamt þróun og þjónustu hinna ýmsu sérlausna Advania. Breytingarnar eru gerðar til að mæta sívaxandi eftirspurn eftir ráðgjöf um hinar öru tæknibreytingar sem eru að eiga sér stað á öllum sviðum samfélagsins. Nýtt svið Advania mun hjálpa viðskiptavinum fyrirtækisins að grípa þau tækifæri sem felast í stafrænni umbyltingu. Þá eru allar sérlausnir fyrirtækisins færðar undir stjórn Önnu Bjarkar og verður enn meiri áhersla á uppbyggingu þeirra og þjónustu við notendur, þar má t.d. nefna mannauðslausnina H3, skólalausnirnar Innu og Völu og vefumsjónarkerfið LiSA.

Anna Björk hefur víðtæka reynslu úr viðskiptalífinu og áralanga stjórnunarreynslu úr tæknigeiranum. Hún starfaði hjá Símanum í átta ár, þar af fimm í framkvæmdastjórn. Undanfarin ár hefur hún leitt ráðgjafafyrirtækið Expectus. Anna Björk var áður ráðgjafi hjá Capacent, stýrði þjónustusviði TeleDanmark í Noregi og hefur setið í stjórnum svo sem Viðskiptaráðs, Sensa og Festu.

„Advania er þjónustufyrirtæki og við erum að marka okkur sérstöðu með því að taka stærri skref í ráðgjafahlutverkinu. Anna Björk er gríðarlega öflugur liðsauki fyrir okkur. Hún hefur dýrmæta reynslu og eftir tuttugu ára starf í tæknigeiranum töldum við hana hárréttu manneskjuna til að stýra sókn okkar í ráðgjöf. Við hlökkum til að fá hana til liðs við okkur og leiða nýtt svið,“ segir Ægir Már Þórisson forstjóri Advania á Íslandi.

„Ég er full tilhlökkunar að koma aftur í stórt og ekki síst alþjóðlegt fyrirtæki með metnaðarfull áform. Ég hef lengi haft ástríðu fyrir stafrænni stefnumótun og þeim tækifærum sem felast í þróuninni fyrir íslenskt viðskiptalíf. Ég er sannfærð um að Advania hefur alla burði til vera í fararbroddi á þeim vettvangi,“ segir Anna Björk.

Í framkvæmdastjórn Advania eru nú þau Eva Sóley Guðbjörnsdóttir, Sigrún Ámundadóttir, Sigurður Sæberg Þorsteinsson, Kristinn Eiríksson og Anna Björk Bjarnadóttir ásamt forstjóranum Ægi Má Þórissyni.


TIL BAKA Í EFNISVEITU