29.10.2018 | Blogg

Ekki einu sinni leiðinlegt að hjóla í vondu veðri

advania colors line

Fyrir fjórum árum ákvað Ragnar Páll Árnason að prófa að hjóla í vinnuna til að styrkja sig eftir hnémeiðsli. Hann nýtti samgöngustyrk frá Advania til að kaupa sér hjól og síðan var ekki aftur snúið.

„Upphaflega hugsaði ég þetta sem heilsueflingu, svona til að gera eitthvað. Ég hreyfði mig ekkert á þessum tíma og það hentaði mér ekki að fara í ræktina því ég hélt það aldrei út. En um leið ég kom hreyfingunni inn í rútínuna við að komast til og frá vinnu, þá fór ég að velja hana sífellt oftar. Ég fann strax hvað þetta gerði mér gott. Ekki bara líkamlega heldur líka andlega. Að setjast á hjólið er hálfgerð frelsistilfinning og ég minnist þess aldrei að það hafi verið kvöð. Mér fannst ekki einu sinni leiðinlegt að hjóla í vondu veðri.
Ég fór að hlakka til að hjóla í vinnuna og varð svekktur ef eitthvað kom í veg fyrir að ég gæti farið hjólandi. Þannig varð þetta að vana. Ég fer í vinnuna á hverjum degi og það kemur mér alltaf aftur á hjólið. Auðvitað þarf ég stundum að vera á bíl því ég á þrjú börn og barnastússið gengur ekki alltaf upp á hjóli.“

Ragnar Páll fer hjólandi úr Árbænum í vinnuna þrisvar til fjórum sinnum í viku og er um það bil hálftíma hvora leið. Hann segir það forréttindi að þurfa ekki að keyra bíl niður Ártúnsbrekkuna á morganna.

„Líkamlegu áhrifin eru þau að ég er í álíka góðu formi og ég var um tvítugt. Að hjóla heim eftir vinnudaginn er stresslosandi og hefur mjög jákvæð áhrif á mig. Mér finnst gott að komast út í hreint loft, reyna á mig í smá stund og mæta hress í vinnuna. Á kvöldin líður mér eins og eftir dag á skíðum og finnst rosalega gott að leggjast þreyttur uppí rúm.“

Eins og fjallað var um í Morgunblaðinu um helgina blómstrar hjólamenningin hjá Advania sem aldrei fyrr. Helmingur starfsmanna nýtir aðra ferðamáta en einkabíl til og frá vinnu, samkvæmt nýlegri starfsmannakönnun. 

Mynd: Ragnar Páll ásamt börnum sínum við marklínuna í Wow tour of Reykjavík.


TIL BAKA Í EFNISVEITU