21.12.2018 | Blogg

Hvernig flytur rótgróin verslun í stafræna heima?

advania colors line

Á sólríkum degi í mars pakkaði starfsmaður Advania inn fartölvu í síðasta skiptið fyrir viðskiptavin verslunar Advania í Guðrúnartúni. Ákveðið hafði verið að endurnýja verslunarrýmið og flytja verslunina alfarið í stafræna heima.

Sesselía Birgisdóttir forstöðumaður stafrænnar miðlunar og markaðsmála Advania skrifar:

Hvers vegna tekur fyrirtæki ákvörðun um að loka einni elstu tölvuverslun landsins og færa hana í netheima? Svarið er einfalt. Stafræn sölu- og þjónustuleið virtist mæta kröfum okkar viðskiptavina best til framtíðar. Kauphegðun viðskiptavina okkar hafði breyst á undanförnum árum og vildu þeir í auknum mæli panta tölvubúnað þegar þeim hentaði og fá hann sendan til sín í stað þess að sækja sjálfir. Fyrirtæki sem versla allan tölvubúnað fyrir starfsmenn sína hjá Advania vildu geta pantað sjálfir það sem mætti þeirra kröfum. 

Stafræn umbreyting alltaf áskorun
Það var bæði tæknileg og menningarleg áskorun að útfæra flutninginn. Við urðum að vanda okkur því tilgangurinn var að bæta þjónustuna við okkar viðskiptavini. Ný vefverslun var smíðuð frá grunni með þarfir okkar kjarnaviðskiptavina að leiðarljósi og lögðum við höfuðáherslu á virkni sem við vissum að myndi nýtast þeim hópi. Ítarlegar leitar- og vörusíur eru mikilvægar fyrir okkar markhóp þar sem viðskiptavinir okkar þurfa að geta leitað eftir eiginleikum varanna. Einnig var mikil vinna lögð í samanburðarvirkni sem gerir viðskiptavinum mögulegt að bera saman eiginleika fjölmargra vara, svo sem vinnsluminni, stærð, þyngd ofl.
Þarfir fyrirtækja eru að mörgu leyti ólíkar þörfum einstaklinga þegar kemur að kaupum og vali á tölvubúnaði. Í stafrænni verslun hafa viðskiptavinir þann möguleika á „mínum síðum“ að geta séð fyrri pantanir, afsláttarkjör, reikningsupplýsingar og geta auðveldlega borið saman búnað. Með örfáum smellum geta fyrirtæki klárað pantanir á tölvubúnaði fyrir nýja og núverandi starfsmenn. 

Upplýsingagjöf og stafrænn kúltúr 
Þegar nýja vefverslunin var tilbúin var ákveðið að loka verslunni í Guðrúnartúni og hefja breytingar á rýminu.
Við hjá Advania veitum íslenskum fyrirtækjum ráðgjöf á hverjum einasta degi um hvernig umbreyta megi viðskiptamódelum með notkun tækninnar. Við vissum því vel að ákvörðunin yrði umdeild og að okkar biðu tímafrekar áskoranir. Sérstaklega þegar breytingarnar krefjast nýrrar þekkingar. Við lögðum ríka áherslu á upplýsingagjöf til þeirra deilda sem málið varðaði.

Á nokkrum mánuðum var nýja rýmið í Guðrúnartúni orðið klárt fyrir söludeildir Advania og þar á meðal alla starfsmenn sem þjónusta viðskiptavini með tölvubúnað. Mikil áhersla var lögð á samvinnu á milli markaðs- og söluaðila í gegnum vefverslunina. Enda er lykill að árangri í rekstri vefverslunar að huga stanslaust að þörfum viðskiptavina og leggja allt kapp á að mæta því sem að þeir hafa áhuga á. Við smíði á vefverslunni var aðalkrafa markaðsaðila að auðvelt væri að búa til efnissíður með tilboðum sem viðskiptavinir hefðu áhuga á. Tengikerfi (tagging) síðunnar gerir okkur kleift að búa til herferðir á nokkrum mínútum. Í stafrænum heimi skiptir hraði út á markað öllu máli.

Þar sem verslunarrekstur okkar hafði að mestu verið hefbundinn fram að þessu, var mikilvægt að leggja áherslu á að skapa stafrænan hugsunarhátt og kúltur hjá öllum sem komu að sölu á búnaði í verslunni. Eitt af lykilatriðum í að skapa stafrænan kúltur er yfirsýn og greining á gögnum. Stafræn verslun sem þekkir ekki gögnin sín vel er ólíkleg til þess að veita góða þjónustu. Því var ákveðið að koma upp þremur stórum skjáum í sölurýminu þar sem að allir sem að vinna með viðskiptavini verslunarinnar, vöruinnkaup og markaðssetningu væru alltaf meðvitaðir um sölustöðu, nýjar vörur í verslun, herferðir, heitustu síðurnar og annað sem að gott væri að vita. Stafrænn kúltúr krefst þess að allir vinni að því að upplifun viðskiptavina í stafrænum heimi sé sem best og þar bera allir ábyrgð á að tryggja að svo sé. Ekki bara stakur vefverslunarstjóri, heldur allir.

Ánægðir viðskiptavinir og bætt þjónusta

Þetta hefur verið lærdómsríkt ár í stafrænum heimum. Við höfum tekist á við ýmsar áskoranir og lært heilmikið en á sama tíma teljum við okkur hafa stórbætt þjónustuna við viðskiptavini. Heildarniðurstaðan gefur enda ótvírætt til kynna að framtíð verslunar sé stafræn. Velta vefverslunar Advania á Íslandi hefur aukist um 82 prósent frá því að hefðbundinni verslun fyrirtækisins í Guðrúnartúni var lokað fyrir rúmi ári.

Markmið okkar var að smíða nútíma þjónustugátt sem að myndi mæta þörfum okkar viðskiptavina. Við höldum ótrauð áfram á þeirri vegferð árið 2019.

TIL BAKA Í EFNISVEITU