7.1.2019 | Fréttir

Advania færir út kvíarnar til Finnlands

advania colors line

Advania hefur keypt finnska félagið Vintor sem býður sérhæfðar stafrænar samskiptalausnir. Með kaupunum hefur Advania starfsemi í Finnlandi og styrkir stöðu sína á Norðurlöndum.

Hjá Vintor starfa 20 sérfræðingar. Meðal viðskiptavina Vintor eru rótgróin alþjóðleg fyrirtæki á borð við Adidas, Securitas, KONE, Konecranes, Kemira og Fazer.

Með kaupunum á Vintor hefst starfsemi Advania í Finnlandi. Advania hyggst bjóða fjölbreytt lausnaúrval sitt þar í landi og stefnir á frekari vöxt.
Vintor hefur þróað samskiptalausnir sem gera fyrirtækjum kleift að eiga skilvirk samskipti við viðskiptavini, birgja eða starfsfólk. Lausnirnar halda utanum samskiptasögu á öllum mögulegum miðlum svo sem á samfélagsmiðlum, vefspjalli og tölvupósti. Lausnaframboð Advania á sviði samskipta og þjónustu verður enn breiðara með kaupunum á Vintor.

„Advania stígur sín fyrstu skref inn á finnskan markað með kaupunum á Vintor og leggur grunn að frekari starfsemi í Finnlandi. Félagið verður því starfandi á öllum Norðurlöndum. Bæði Advania og Vintor hafa á að skipa sérfræðingum á sviði samskiptalausna sem meðal annars eru notaðar í þjónustuverum íslenskra fyrirtækja. Það er því mikill fengur fyrir Advania að fá inn 20 nýja sérfræðinga á sviði samskiptalausna og þjónustuupplifunar,“ segir Ægir Már Þórisson forstjóri Advania á Íslandi.

Ægir Már Þórisson, forstjóri Advania á Íslandi.

„Við sjáum gríðarleg tækifæri í samrunanum við Advania. Fyrirtækið okkar, Vintor, er afar sérhæft og í harðnandi samkeppnisumhverfi njótum við góðs af stærð og styrk Advania. Við hlökkum til að að verða hluti af öflugri heild með breitt þjónustuframboð,“ segir Sami Grönberg forstjóri Vintor.

TIL BAKA Í EFNISVEITU