30.1.2019 | Fréttir

Nýtt kerfi eflir þjónustu VIRK

advania colors line

VIRK veitir margvíslega þjónustu til að efla starfsgetu fólks eftir veikindi eða slys. Advania hefur smíðað nýtt kerfi fyrir VIRK sem hverfist um einstaklinginn og þjónustuna sem hann fær. Nú getur hann sjálfur fylgst með ferlinu frá upphafi til enda. 

„Starfsemi VIRK er mjög flókin og margþætt. Við veitum um 2400 einstaklingum þjónustu á ári og hver og einn þarf sina eigin endurhæfingaáætlun. Fjöldi sérfræðinga koma að máli hvers og eins og þjónustan er sérsniðin í hvert sinn. Þess vegna var mikilvægt að hafa kerfi sem sniðið er í kringum einstaklinginn sem þarf á þjónustu VIRK að halda og að hann hafi aðgang að kerfinu,“ segir Vigdís Jónsdóttir framkvæmdastjóri VIRK.
Hún segir fyrra kerfi VIRK hafa verið komið til ára sinna og því hafi þurft að smíða nýtt sem næði utanum alla þá flóknu ferla sem felast í starfseminni. „Við erum með ráðgjafa vítt og breitt um landið og þurfum að tryggja samhæfingu svo allir fái þjónustu af sömu gæðum. Gríðarlega fjölbreytt úrræði eru í boði fyrir þá sem eru í uppbyggingu og með nýju kerfi getum við samræmt vinnulag fjölda ólíkra sérfræðinga og þjónustuaðila,“ segir Vigdís.

Mikið var lagt upp úr öryggi í kerfinu og að ýtrustu kröfum um persónuvernd og aðgangsstýringar sé mætt.
„Með þessu kerfi er hægt að veita þeim betri þjónustu sem þurfa á VIRK að halda. Þeir geta farið inn á sitt svæði og fylgst með sínu ferli. Það sparar tíma og peninga að geta nú átt rafræn samskipti við heilbrigðiskerfið frekar en að senda pappíra á milli stofnana. Auk þess er öryggi gagna meira,“ segir Vigdís.

 „Nýja kerfið byggir á Outsystems hraðþróunarumhverfinu sem var algjör forsenda fyrir því að ná að afhenda jafn viðamikla lausn á gefnum tíma. Það er flott nálgun hvernig einstaklingnum er nú gert auðveldara að nálgast sín mál og eiga skilvirk samskipti við alla sérfræðinga í kerfinu. Samstarfið við Virk var einstaklega lærdómsríkt og gefandi fyrir verkefnahópinn okkar og útkoman var lausn sem Virk getur byggt á í þeirri viðamiklu starfsemi sem þau sinna,“ segir Sigrún Ámundadóttir framkvæmdastjóri hugbúnaðalausna Advania.

Mynd: Vigdís Jónsdóttir framkvæmdastjóri VIRK.


TIL BAKA Í EFNISVEITU