28.2.2019 | Mannauðslausnir

Mannauðsmál: Vonbrigði eftir ráðningu

advania colors line

Það er áskorun að finna rétt fólk til starfa. Til að mæta þeirri áskorun þurfa íslensk fyrirtæki að tileinka sér nýjar aðferðir til þess að ná til rétta markhópsins, finna rétta starfsmanninn og stuðla að starfsánægju hans. Að veðja á ranga manneskju er dýrt og dapurlegt ferli fyrir alla sem að því koma.

Margrét Gunnlaugsdóttir forstöðumaður mannauðslausna Advania skrifar:

Ráðningaferlið hefur breyst hratt á undanförnum árum og í harðnandi samkeppnisumhverfi þurfa fyrirtæki að fara í hnitmiðaða leit að réttu starfskröftunum. Það er ekki nóg að skjóta atvinnuauglýsingu út í loftið, það þarf að tryggja að hún birtist og veki athygli í þeim hópi sem kemur til greina. Þá er líka mikilvægt að stjórnendur geti með skipulögðum og einföldum hætti unnið úr umsóknum. Leit að manneskju með réttu hæfnina er stöðug áskorun fyrirtækja sem vilja standa vel að mannauðsmálum og skarta hæfu og góðu starfsfólki.

Flest öll höfum við upplifað fyrsta vinnudaginn á nýjum vinnustað. Við mætum með miklar væntingar, viljum sanna okkur og ná árangri í því sem við erum að gera. Að sama skapi er stjórnandinn sem réði okkur með væntingar um að nýi starfsmaðurinn uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til hans og færi fyrirtækinu virði með sínu framlagi. Allt starfsfólk er hluti af virðiskeðjunni í hverju fyrirtæki með einum eða öðrum hætti og mikilvægt að allir hafi tækifæri til að sinna sínu hlutverki vel. 

Þegar tekin hefur verið ákvörðun um ráða manneskju til starfa, hefur fyrirtækið þegar fjárfest í ferlinu. Búið er að auglýsa starfið, stjórnendur hafa varið tíma í að vega og meta möguleikana og tekið viðtöl við þá sem komu til greina. Við ráðningu hefst síðan ferlið við að virkja starfsmanninn (e. onboarding) á nýjum vinnustað sem oft kallar á aðgerðir fjölmargra starfsmanna fyrirtækisins. Nýjan starfsmann þarf að þjálfa upp, veita aðgang að hinum ýmsu kerfum og koma honum inn í starfsemi og menningu á nýjum stað. Virkjun starfsmanns gefur tóninn um það sem koma skal og er hans fyrsta upplifun af því að vera hluti af nýju fyrirtæki. Það er mikilvægt að huga að ferlinu í aðdraganda fyrsta starfsdags og móttöku starfsmannsins. Það auðveldar honum að helga sig því verkefni sem hann hefur verið ráðinn í.

Í HR rannsókn sem Gartner gerir árlega kemur fram að eftirsjá starfsmanna í sérfræðistörfum eftir ráðningu, hefur aukist um 46% frá árinu 2008. Það er því vert að huga að því að jákvæð upplifun starfsmanns við ráðningu gefi fyrirheit um framhaldið. Þetta á jafnt við um ferlið sem hefst eftir ráðningu áður en starfsmaður hefur störf sem og upphafið á starfsferlinum. Um leið og starfsmaðurinn veit hvaða væntingar eru gerðar til hans, þarf að gera honum kleift að mæta þeim. Í Onboarding Benchmark Report frá Gartner kemur fram að einungis 26% fyrirtækja telja sig vera með nægilega skilvirkt ferli til að virkja nýja starfsmenn. Ekki nema 48% þeirra telja að virkjunarferli þeirra stuðli að árangri nýrra starfsmanna.

Með því að sjálfvirknivæða ferla og nýta tækni til að bæta virkjunarferli nýrra starfsmanna verður starfsmaðurinn sjálfstæðari í því að koma sér af stað. Stjórnandi getur þá varið tímanum í bein samskipti við starfsmanninn og stutt hann faglega í stað þess að sóa dýrmætum tíma í praktíska hluti sem snjöll tækni getur auðveldlega leyst.

Heilmiklar tækniframfarir hafa átt sér stað undanfarin ár og hafa þær haft áhrif á mannauðsferla eins og flesta aðra ferla. Fjöldinn allur af hugbúnaði hefur verið þróaður til þess að auðvelda ferlið allt frá ráðningu til starfsloka. Samt sem áður er það svo að hjá fjölmörgum fyrirtækjum eru starfsmenn mannauðsdeilda eru enn of uppteknir við handvirkar, tímafrekar og síendurteknar aðgerðir. Ráðningar og virkjun nýrra starfsmanna eru tímafrek og dýr ferli og það felast mikil tækifæri í því að beita tækni til að hámarka nýtingu tímans og draga úr kostnaði.

Advania og 50skills hafa hafið samstarf til að koma betur til móts við þær áskoranir sem fyrirtæki standa frammi fyrir í upphafi starfsferils starfsmanns. Samstarfið snýst um nýja nálgun á ráðningar og mannauðsmál með ráðningalausn 50skills. En lausnir einar og sér eru ekki nóg. Fyrst þarf viljann til að breyta og bæta.

Greinin birtist í Frjálsri verslun.


TIL BAKA Í EFNISVEITU