10.5.2019 | Fréttir

Ráðgjafi Advania synti frá Alcatraz

advania colors line

 Magnea Hilmarsdóttir, ráðgjafi viðskiptalausna Advania, og vinkona hennar, Heiðrún Hauksdóttir, syntu frá fangelsiseyjunni Alcatraz að landi við San Fransiskó í vikunni. Sundið tók um 50 mínútur og var barningur við sterka sjóstrauma.

Magnea Hilmarsdóttir var himinlifandi með afrekið og fagnaði innilega þegar hún komst aftur á þurrt land eftir að hafa synt frá fangelsiseyjunni frægu, Alcatraz. Ákvörðunin um að synda frá eyjunni að strönd San Fransiskó var tekin með skömmum fyrirvara.

„Vinkona mín er flugfreyja stakk uppá þessu þegar hún fékk ferð til San Fransiskó. Ég er ekki mikil sundmanneskja þannig að ég var ekki viss um að ég gæti þetta en ákvað samt að slá til,“ segir Magnea. Sundið var um tveir kílómetrar á lengd en reiknað með sjóstraumum var vegalengdin rúmir fjórir kílómetrar.

Þessa stöðufærslu birti Magnea á Facebook skömmu eftir sundið: Hér erum við að sigla út í Alcatraz og erum að gera okkur klárar að hoppa út í. Skömmu seinna fengum við svo fyrirmæli um að byrja strax að synda og synda bara skriðsund, ekkert bringusund né baksund! Svo þetta er líka okkar lengsta skriðsund um ævina! Ástæðan fyrir þessum fyrirmælum er m.a. skipaumferðin og straumarnir. Ef við myndum ekki "just keep on swimming" þá gætum við endað í Honolulu!"

Magnea segist oft synda yfir Fossvoginn á sumrin en hún fari líka í Þingvallavötn og aðra skemmtilega baðstaði í nágrenni við höfuðborgina. „Ég geri þetta mest til að njóta og gleyma mér. Þetta er eins og heilun. Ég er kuldaskræfa af upplagi og þykir enn ótrúlegt að ég hafi ánetjast þessu sjósundi. Það kom þannig til að einu sinni að morgni þegar var ég að hjóla í vinnuna og þá ákvað ég að prófa að fara útí. Mér tókst að vera ofan í sjónum í heila mínútu sem er nokkuð langt. Mér þótti það mjög gaman og prófaði því aftur á leiðinni heim. Ég hef stundað þetta reglulega síðan eða í um þrjú ár og fer að minnsta kosti þrisvar í viku í sjóinn. Ég hef mest farið í mínus tveggja gráðu kaldan sjó og alltaf syndi ég um 250 metra.“

TIL BAKA Í EFNISVEITU