4.7.2019 | Blogg

Bættu vefverslunina þína

advania colors line

Viltu hlúa betur að vefverslun þinni og auka sölu? Hér eru einföld ráð til að standa betur að vefverslun og bæta upplifun viðskiptavinarins af viðskiptunum.

Bragi Gunnlaugsson vefverslunarstjóri Advania skrifar:

Vertu með skýr markmið
Settu versluninni mælanleg markmið. Í staðinn fyrir að hugsa „ég ætla að auka sölu“ er betra að tala um prósentuaukningu í sérstökum flokkum innan tiltekins tíma. Hvernig á að standa að aukningunni? Hver ber ábyrgð á henni? Hvernig á að mæla aukninguna? Þessi atriði þarf að hugsa svo raunhæft sé að salan aukist.

Vertu gagnadrifin/n
Besta leiðin til árangurs er að mæla hvað virkar og hvað virkar ekki. Notaðu tól eins og Google Analytics til að fylgjast með hlutum eins og hvaða síður fá mikla umferð, hvaða hópar hafa áhuga á því sem þú ert að selja og hversu margir setja vörur í körfu án þess að klára kaupin? Kemur traffík inn í vefverslunina af þessum Facebook færslum sem birtar hafa verið? Þú getur notað tól  til að mæla hversu hátt „bounce rate“ hver síða hefur. Ef bounce rate-ið er hátt, þarf að endurskoða síðuna eða það sem á henni er því gestir stoppa ekki við. Er eitthvað að virka á einni síðu sem væri jafnvel hægt að heimfæra á þessa?
Með lausnum eins og Hotjar er svo hægt að sjá á hvað gestir gera á einstaka síðum. Á hvað þeir smella og hvort þeir skruni niður. Ef „fold-ið“ (nefnt eftir broti í dagblaði) er ofarlega á síðunni, þá hafði gesturinn ekki áhuga á að sjá það sem neðri hluti síðunnar bauð uppá. Passaðu að hafa mikilvægustu upplýsingarnar efst á síðunni og alls ekki treysta á að viðskiptavinur þinn hafi þolinmæði til að fara alla leið niður.  

Vertu viðskiptavinamiðuð/aður
Vefverslun er eins og hver önnur verslun; sumum vörum er raðað út í glugga á meðan aðrar eru best geymdar uppi í hillu. Raðaðu vörunum upp eins og viðskiptavinurinn kallar eftir, ekki setja óvinsælar vörur fremst þó það sé freistandi til að losa þær af lager. Þá sér viðskiptavinurinn kannski ekki það sem hann virkilega vill kaupa. Ef þú sérð eitthvað spennandi í glugga á Laugarveginum, er líklegra að þú kíkir inn ekki satt? Gættu að því að það séu góðar myndir af öllum vörum og mundu að lífsstílsmyndir sem sýna vöruna í notkun gera heilmikið.

Sýndu virðið
Ekki gleyma að hafa virðið þitt sýnilegt. Er frí heimsending? Ertu með lægsta verðið? Býður þú upp á einstaka vörur? Passaðu að það fari ekki framhjá gestum þínum af hverju þeir ættu að versla hjá þér. Ef þú hefur möguleika á að auka virðið (t.d að veita afslátt við fyrstu kaup eða við skráningu á póstlista) skaltu ekki vera feimin/n við að flagga því sérstaklega. Pop up gluggar eru kannski þreytandi en ef skilaboðin eru góð og virðið raunverulegt, eru flestir tilbúnir í smá pop up.

Passaðu notendaviðmótið
Passaðu að allur kaupferillinn sé skýr frá upphafi. Huggulegar auglýsingar á Facebook skila engu ef viðskiptavininum er ekki beint strax inn á það sem þú ert að vekja athygli á. Því er nauðsynlegt að vera með svokallað „call to action“ í öllum kynningum, leið fyrir viðskiptavininn til að kynna sér málin nánar eða hafa samband. Ef það þarf að kynna vöru sérstaklega er kannski góð hugmynd að hafa lendingarsíðu en þá verður að vera á hreinu hvernig klára á kaupin. Gott er að ímynda sér að viðskiptavinurinn sé á ferðalagi sem eigi að enda með því að hann kaupi vöruna frekar en að hann lendi á vegg. Ekki búa til útúrdúra, hafðu verslunarferilinn einfaldan. 

Ekki gleyma að líklega er tæpur helmingur þeirra sem heimsækja síðuna þína eru að gera það í farsíma. Skoðaðu verslunina í farsímanum þínum og notaðu tól eins og Google Search Console sem fer yfir síðuna og kemur með tillögur að útbótum.

Þessi listi er að sjálfsögðu ekki tæmandi og í mörg horn að líta. Ef þig vantar aðstoð við uppsetningu á þinni vefverslun, hvetjum við þig til að hafa samband við okkur. Teymið okkar hefur áratuga reynslu af uppsetningu vefja og ávallt reiðubúið til að miðla reynslu sinni.


TIL BAKA Í EFNISVEITU