4.7.2019 | Blogg

Verður þú Luktar-Gvendur okkar kynslóðar?

advania colors line

Brynjólfur Ægir Sævarsson forstöðumaður Advania Advice skrifar: 

Vinnumarkaðurinn tekur sífelldum breytingum, en breytingarnar framundan eru líklega meiri og hraðari en við höfum kynnst hingað til. Við þekkjum starf sótara úr Mary Poppins, munum eftir styttunni af vatnsberanum sem lengi stóð við Bústaðarveg en er nú mun minna áberandi við Lækjargötu og höfum heyrt Björk syngja um Luktar-Gvend sem hafði þann starfa að kveikja og slökkva á gasljósum á götum Reykjavíkur. Það er mögulega ákveðinn rómans yfir gömlum starfsheitum en í dag þykir betra að vera leitarvélabestari, framendaforritari eða áhrifavaldur á instasnappinu.

Í febrúar kom út skýrsla nefndar sem forsætisráðuneytið skipaði til að meta áhrif fjórðu iðnbyltingarinnar á Ísland. Þar kemur fram að yfir 50 þúsund manns séu í störfum sem miklar líkur eru á að verði sjálfvirknivædd á næstu 10-15 árum. Þessi störf - 28% af íslenskum vinnumarkaði - muni hverfa með öllu eða breytast í grundvallaratriðum. Aðeins 14% starfa eru metin þannig að þar séu litlar líkur á sjálfvirknivæðingu. Þó ber að gæta að því að með litlum líkum er átt við minna en 30%.

Ef við setjum þetta í samhengi má auðvitað finna hliðstæður í rokgjörnu raunhagkerfi landsins. Á síðustu 20 árum hefur störfum í fiskvinnslu og sjómennsku fækkað um helming. Fjöldi starfa í ferðaþjónustu hefur tvöfaldast á tíu árum. Síldin kom og fór. Allt gengur einhvernvegin áfram þrátt fyrir þetta. Hér hefur verið rekið einhvers konar vertíðarhagkerfi þar sem þetta reddast allt á endanum. En það er að breytast. Með nýsamþykktum lífskjarasamningum virðist vera að skapast sátt um aukinn stöðugleika í hagkerfinu. Stöðugleika sem byggir á lítilli verðbólgu, sem kallar á að niðursveiflum í hagkerfinu er mætt með auknu atvinnuleysi. Það er því liðin tíð að við skreppum á vertíð til að rétta fjárhaginn af.

Að því sögðu, er samband fólks við vinnuveitendur að breytast. Launþegum fer fækkandi og verktaka eykst. Gig-economy (íslenskun óskast í athugasemdum), sem felur í sér að fólk tekur að sér tímabundin verktakaverkefni á sínu sérsviði. Allra flottast þykir að taka að sér slík störf í fjarvinnu frá Balí eða verða það sem kallast digital nomad, sem flakkar um heiminn en vinnur verkefni í fjarvinnu. Þetta getur veitt sveigjanleika til að taka að sér störf sem eiga uppruna utan Íslands, en þarfnast á móti mikillar sérhæfingar. Verkalýðsfélög hafa einnig bent á að verktaka veitir minna öryggi og minni réttindi en launþegar hafa. En í öllu falli eru gríðarlegar breytingar að ríða yfir vinnumarkaðinn. Hvað þýðir það?

Stjórnendur standa frammi fyrir því að þurfa að innleiða breytingar sem kalla á viðsnúning í störfum fólks. Þetta reyndi undirritaður m.a. sem útibússtjóri í fyrsta bankaútibúinu á Íslandi sem útleiddi hefðbundna gjaldkeraþjónustu. Slíkar breytingar geta kallað fram sterk viðbrögð starfsfólks og jafnvel andstöðu. Það eru ekki allir eins opnir fyrir breytingum og gjaldkerarnir sem ég var svo heppinn að eiga sem vinnufélaga, sem urðu fánaberar breytinganna. Þegar fólk skilur breytingarnar og hefur tækifæri til að þróast með þeim eru meiri líkur til þess að þær gangi vel. Áhersla og færni í breytingastjórnun er því að verða mikilvægari en nokkru sinni fyrr.

Breyttar kröfur neytenda kalla ekki síður á nýja þekkingu starfsfólks en tæknibreytingar. Það er þörf fyrir mikla þjálfun og fræðslu nú þegar vegna þessa og þessi þörf mun aukast verulega á næstunni. Eflaust munu framtíðarátök á vinnumarkaði meðal annars snúast um hvernig skuli tekið á fræðslu og þjálfun til að takast á við þessar breytingar, borgaralaun og fleira í þeim dúr.

En í fræðslu eru líka að verða framfarir. Menntun er orðin mun aðgengilegri, t.d. með fræðsluveitum á borð við edX og Skillshare. Ef þú vilt verða tölvunarfræðingur, þá er hér að finna upplýsingar um hvernig hægt er að læra allt sem til þarf - ókeypis. Það er því ekki lengur nauðsynlegt að fara í hefðbundið háskóla- eða verknám til að öðlast þekkingu. Vottun þekkingar mun því þurfa að taka breytingum líka.

Öllum tæknilegum framförum fylgja ógnir og tækifæri. Við getum hvert og eitt brugðist við og undirbúið okkur undir það sem koma skal. Stjórnendur geta byrjað að fræða starfsfólk um breytingarnar framundan og benda á tækifærin til að öðlast nýja færni.

Sumir munu klára starfsævina án þess að finna fyrir miklum breytingum. Aðrir verða leitarvélabestarar frá Balí og þeir sem ekki vilja aðlagast eða taka þátt í breytingunum geta byrjað að hlakka til þess að setjast í sófann heima og horfa á Netflix á borgaralaunum.

Höfundur er forstöðumaður Advice, stjórnendaráðgjafar Advania. Advice er þverfaglegt teymi sem hjálpar stjórnendum að nýta tækifæri í tækniþróun. Advice notar m.a. aðferðir design thinking, tækniþekkingu Advania, rannsóknir Gartner, sem er leiðandi á sviði stjórnunar í upplýsingatækni, ásamt öðrum reyndum aðferðum til að ná framúrskarandi árangri.

(Myndir eru úr skýrslu nefndar forsætisráðuneytisins um fjórðu iðnbyltinguna: https://www.stjornarradid.is/verkefni/visindi-nyskopun-og-rannsoknir/island-og-fjorda-idnbyltingin/)

TIL BAKA Í EFNISVEITU