2.10.2019 | Veflausnir

Ávinningur sprettavinnu

advania colors line
Ásta Þöll Gylfadóttir ráðgjafi hjá veflausnum Advania skrifar:

Ávinningur hönnunarspretta er margvíslegur fyrir stór og smá fyrirtæki. Aðferðin er frábær leið til að ráðast á áskoranir í hvirfilbyl hversdagsleikans.

Hönnunarsprettir hafa verið vinsæl aðferðarfræði í nýsköpun og vöruþróun undanfarin ár. Þó ferlið sé sérstaklega heppilegt til að leiða hóp hratt í gegnum hugmyndavinnu og prófun, má segja að einn mikilvægasti ávinningurinn af sprettum sé í raun hálfgerð aukaverkun. Lykillinn að árangri í nýsköpun er nefnilega öflug þverfagleg samvinna. Sprettirnir ramma inn ferli þar sem teymi einstaklinga með ólíka sérfræðiþekkingu skoðar tækifæri, þörf og markmið frá ýmsum sjónarhornum, áður en valin er leið til að móta og bera undir notendur.

Hönnunarsprettir eða Design Sprints (til aðgreiningar frá agile-sprettum í hugbúnaðarþróun) er aðferð í þróun og nýsköpun sem Google Ventures gerði fræga. Hún náði miklum vinsældum í kjölfar metsölubókar Jake Knapp, Sprint, þar aðferðin var kynnt til sögunnar. Í fyrstu útfærslu hennar var gert ráð fyrir ferli sem tók 5 daga. Hugmyndin hefur síðar verið endurhugsuð þar sem fræg hönnunarhús á borð við AJ Smart og New Haircut/ Design sprint Academy hafa sett fram sína nálgun – oft nefnt Design Sprint 2.0 og 3.0. Samhliða því hefur Google gefið út leiðbeiningar og verkfærakistu á https://www.gv.com/sprint/ sem öllum er frjálst að nýta. Þar er farið í grunn aðferðarinnar og sýnt fram á fjölmargar leiðir til að laga ferlið að þörfum og markmiðum hverju sinni.

Hugmyndafræðin er kannski ekki ný af nálinni í heimi notendamiðaðrar hönnunar en líta má á sprett sem vel skilgreinda uppskrift innan ramma hönnunarhugsunar. Sprettir eru frábær leið til að taka fyrir ákveðnar áskoranir en ekki lausn við öllum vandamálum.
Svo auðveldara sé að aðlaga ferlið, er mikilvægt að sýnin á hvert vandamálið raunverulega er sé skýr og hvað markmiðið er að komi út úr sprettinum. Þannig verður vinnan markvissari og hægt er að nýta sprettina sem hluta af stærra ferli. Þeir geta verið öflugt tól í verkfærakistunni þegar kemur að því að vinna með þverfaglega hópa. Hönnunarsprettir geta í raun haft breiðari skírskotun en margir tengja þá við, svo sem að útfæra og prófa „einfaldari“ nýjar stafrænar vörur, eins og app, eða lítinn hluta af þjónustuferli. Einn af helstu styrkleikum hönnunarspretta er einmitt að skoða stóra samhengið í þverfaglegum hópi. Það veitir frelsi til að opna á nýja möguleika og fá viðbrögð notenda samstundis. Þannig er hægt að meta hvort þeir sjái virði í hugmyndinni og framtíðarsýninni áður en haldið er af stað í lengra ferli og meiri vinnu. Það gerir spretti sérstaklega hentuga til að byrja að takast á við stórar og flóknar áskoranir.

Sprettir í breytingarferli
Í apríl 2019 bauðst mér að taka þátt í örráðstefnu hjá Google London: Design sprint for collaboration and organizational change. Þar var fjölbreyttur hópur kominn saman til að fjalla um spretti frá ólíkum hliðum. Markmiðið var að skoða hvernig nýta mætti spretti til að styrkja samvinnu og sameiginlega sýn, og sem lið í umbreytingaferli fyrirtækja og stofnanna. Fyrirlesarar komu úr ýmsum áttum og tóku dæmi um hvernig sprettir nýttust þeim í stærri fyrirtækjum og stofnunum. Þar voru forsendur og takmarkanir allt aðrar en í hugmyndavinnu smærri frumkvöðlafyrirtækja með hönnunarsprettum. Rótgrónari fyrirtæki og stofnanir vinna með spretti til að móta deildir, menningu, endurnýja ferla, þróa eldri kerfi og finna upp ný, skoða þjónustur frá nýju sjónarhorni. Oft þurfa þau að byggja ofan á kerfi sem fyrir eru.
Hjá Advania höfum við prófað okkur áfram með spretti í samstarfi við ýmsa viðskiptavini okkar, en ekki síður sem lið í innri teymisvinnu í vöruþróun okkar. Þar höfum við valið áskoranir þar sem vara stendur á krossgötum, með áherslu á að skoða áskoranir viðskiptavina og skapa virði fyrir þá. Þó markmið þróunar sé ávallt að skapa virði með þarfir notandans að leiðarljósi, getur oft verið krefjandi að staldra við og gefa sér tíma til að móta réttu hugmyndina. Ekki rjúka beint í að útfæra það sem beinast liggur við.

Sprettir og samvinna
Í vor lagði teymi mannauðslausna hjá Advania í metnaðarfulla stefnumótunarvinnu. Í framhaldi af þeirri vinnu fór Advania Advice í hönnunarspretti með tveimur þróunarteymum. Þátttakendur komu með ólíka þekkingu að borðinu, þar sem hönnuður, sölumenn, ráðgjafar, sérfræðingar í kerfinu, forritarar og markaðsfólk leiddu saman hesta sína. Ég kom að vinnunni sem óháður ráðgjafi og sinnti hlutverki „auðveldara“ sem leiddi hópinn í gegnum ferlið.

Þessi teymi eru að glíma við ákaflega ólíkar áskoranir við þróun sinnar vöru. Fyrir aðra vöruna vildum við koma með ferska sýn og endurhugsa hver næstu skref væru. Markmiðið með hinum sprettinum var að skoða alveg nýjar leiðir. Fyrir þann sprett héldum við einnig vinnustofur með ólíkum hópum viðskiptavina til að öðlast betri skilning á raunverulegum vandamálum og væntingum þeirra. Vinnan rammaði inn áskoranir og lagði grunn að sprettinum. Mótaðar voru hugmyndir að sýn og viðbrögð markhópsins könnuð. Fyrsti sprettur gaf vísbendingu um hvort sýnin væri í takt við þarfir markhópsins og lagði grunn að næstu skrefum og ákvörðunum í þróunarferlinu.
Það er ákaflega mikilvægt er að ramma slík verkefni rétt inn með hópnum og stýra væntingum um hvað sé raunhæft að komi út úr sprettinum. Teymi sem hefur starfað við þróun vöru hefur auðvitað óteljandi hugmyndir að umbótum. Þekkir vel öll smáatriði sem þarf að leysa á síðari stigum. Því er mikilvægt að ná að horfa sameiginlega fram á við og nýta sprettinn til að takast á við stóru áskoranirnar en skoða nákvæmari útfærslur í þróunarferlinu sem fylgir í framhaldinu. Fyrir slíka endurhugsun á margra ára þróunarferli er margt sem þarf að nálgast á annan hátt en þegar sprettir eru nýttir til að draga fram hugmynd að glænýrri vöru.

Hreyfanleiki

Það geta ekki öll fyrirtæki hreyft sig eins og nýsköpunarfyrirtæki. Til að sprettir nýtist sem best í ósveigjanlegri aðstæðum þarf að ramma þá inn sem hlekk í lengra þróunarferli, þar sem vara eða þjónustu eru til endurskoðunar. Skipuleggja þarf úrvinnslu og eftirfylgd skýrt svo lærdómurinn dagi ekki uppi. Við höfum því unnið að því að stilla upp lengra ferli sem auðveldar vörustjóra að hugsa heildrænt um þróunarferlið. Teymið getur þá unnið markvisst með lærdóm og þróun þó hvirfilbylur hversdagsleikans taki við.

Það sem upp úr stendur eftir vinnuna við slíka spretti er að fylgjast með orku teymisins endurnýjast og upplifa hversu mikils virði það er að styrkja samvinnuna. Að sjá hversu stolt teymið er með árangurinn og þá innsýn sem fáir dagar geta skilað. Mikill kraftur er fólginn í virkri þátttöku allra og einstaklingar í hópnum upplifa að þeir eigi hlutdeild í framtíðarsýninni, hvort sem þeirra hugmynd varð fyrir valinu eða ekki. Þessi sameiginlega sýn styrkir teymið og ýtir undir öflugri samvinnu. Hún auðveldar öllum að taka ákvarðanir um framtíðarsýn með virði viðskiptavinarins í huga og einfaldar forgangsröðun í daglegri þróun. Ávinningurinn er því svo margfalt meiri en mæla má í frumgerð og notendaprófun. Ég hvet því alla til að skoða og prófa sig áfram með hönnunarspretti í sínum verkefnum.

Við hjá Advania Advice erum auðvitað alltaf til í spjall og ráðgjöf um tækifærin. Ekki hika við að hafa samband við okkur á advice@advania.is


TIL BAKA Í EFNISVEITU