11.2.2020 | Fréttir

Eftirsótt spjallmenni með gervigreind

advania colors line

Gervigreindarteymi Advania vinnur nú að því að búa til spjallmenni með gervigreind fyrir fyrirtæki og stofnanir. Fyrsta spjallmenni þessarar tegundar á Íslandi hefur þegar gefið góða raun hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna.

Spjallmenninn búa yfir gervigreind sem gerir þeim kleift að skilja gríðarlegt magn af spurningum og fyrirspurnum. Þannig getur spjallmennið beint viðskiptavinum í þær áttir sem þeir kjósa og aðstoðað með margvísleg erindi. Spjallmenninn hafa einnig þann eiginleika fram yfir svokallaða spjallbotta til dæmis á Messenger, að þau geta framkvæmt ýmiskonar aðgerðir fyrir viðskiptavininn. Ef viðskiptavinir auðkenna sig með rafrænum skilríkjum getur spjallmennið til dæmis aðstoðað við að fylla út umsóknir, finna upplýsingar, vörur eða þjónustu, millifæra eða ganga frá pöntunum.

Spjallmennin eru hugsuð sem valkostur við þær samskiptaleiðir sem fyrirtækin bjóða uppá nú þegar og er hugað vel að gagnaöryggi. Þau eru gjarnan þróuð í samvinnu við þjónustufulltrúa og ráðgjafa fyrirtækjanna. Helsti ávinningurinn af spjallmennum er sá að þau eru til þjónustu reiðubúin allan sólarhringinn og geta sinnt öllum fyrirspurnum um leið og þær berast. Engar fjöldatakmarkanir eru á því hve marga viðskiptavini spjallmenni getur aðstoðað á sama tíma.

„Spjallmenni geta því verið öflug viðbót við til dæmis þjónustuver og geta svarað algengum spurningum. Ef fyrirspurnir eru of flóknar eða krefjast mannlegrar aðkomu, beinir spjallmennið viðskiptavininum til þjónustufulltrúa strax,“ segir Marín Jónsdóttir verkefnastjóri gervigreindateymis Advania.

Rannsóknir sýna að ungt fólk kýs að eiga samskipti við fyrirtæki og stofnanir með netspjalli frekar en að taka upp símann eða senda tölvupóst. Gríðarleg ásókn er í netspjöll hjá fyrirtækjum en ekkert íslenskt fyrirtæki (sem við þekkjum til 😉) getur boðið uppá jafn greint spjallmenni og gervigreindarteymi Advania setur upp í samvinnu við norska hugbúnaðarfyrirtækið Boost.ia.

Lánasjóður íslenskra námsmanna reið á vaðið fyrir skömmu og tók í notkun fyrsta spjallmennið af þessari tegund. Þróunarvinna Lánasjóðsins og Advania tók aðeins örfáar vikur og sannaði spjallmennið notagildi sitt strax á fyrstu vikum. Spjallmenninu var einkum ætlað að aðstoða á sérstökum álagstímum, svo sem í kringum áramót, þegar þjónustufulltrúar lánasjóðsins hafa ekki undan að svara fyrirspurnum um útgreiðslu námslána. Þá myndast gjarnan svo langar raðir í síma að fjölmargir námsmenn fá ekki þá þjónustu sem þeir þurfa á að halda.

Spjallmenni af þessu tagi eru þaulreynd og mikið notuð af fjármálastofunum, tryggingafélögum og fyrirtækjum í ýmiskonar þjónustu í Evrópu. Norski bankinn DNB hefur boðið uppá sambærileg spjallmenni um nokkra hríð og hefur sjálfvirknivætt meira en helming af netspjöllum við viðskiptavini með tækninni.

Advania heldur opinn morgunverðarfund um spjallmenni á föstudag og er öllum áhugasömum velkomið að skrá sig.

Hér má heyra viðtal við þau Marín Jónsdóttur verkefnastjóra gervigreyndarteymis og Sigurð Óla Árnason gervigreindarsérfræðing, um spjallmenni á Rás 2.

TIL BAKA Í EFNISVEITU