9.3.2020 | Fréttir

Fyrirbyggjandi aðgerðir hjá Advania

advania colors line

Hjá Advania er heilsa og lífsgæði starfsfólks og fjölskyldna þeirra ofar öllu. Í stjórnkerfi Advania er ferli sem skilgreinir viðbrögð við sjúkdómsfaraldri og tekur mið af ráðleggingum Embættis landlæknis. Í því felst rík áhersla á upplýsingagjöf til starfsfólks, aðgerðir sem lágmarka smithættu, viðbrögð vegna veikinda starfsfólks og leiðir til að tryggja daglega þjónustu í lykilstarfsemi Advania.

Allt starfsfólk sem er ábyrgt fyrir rekstri og þjónustu við viðskiptavini hefur tök á að vinna að heiman. Skjölun og ferlar í rekstri og þjónustu gegna lykilhlutverki í að tryggja áframhaldandi og órofinn rekstur á upplýsingakerfum viðskiptavina.
Vegna útbreiðslu Covid-19 veirunnar er Advania með starfrækt viðbragðs- og krísuteymi sem í sitja Ægir Már Þórisson forstjóri, Hinrik Sigurður Jóhannesson mannauðsstjóri, Þóra Tómasdóttir fjölmiðlafulltrúi, Sigurður Sæberg Þorsteinsson framkvæmdastjóri rekstrarlausna og Jón Brynjar Ólafsson fjármálastjóri. Teymið heldur daglega samhæfingarfundi, leggur mat á upplýsingar sem tiltækar eru og gerir viðeigandi ráðstafanir.

Eins og á flestum vinnustöðum hefur verið gripið til margvíslegra fyrirbyggjandi ráðstafana hjá Advania. Aukin áhersla er á hreinlæti, handþvott, fræðslu og upplýsingagjöf. Nú þegar hefur verið tekin ákvörðun um breytt fyrirkomulag við ýmiskonar fjöldafundi og samkomum starfsfólks hefur verið frestað. Notast er við fjarfundi í auknum mæli og getur Advania aðstoðað sína viðskiptavini við að taka í notkun búnað og lausnir sem auðvelda samvinnu fólks óháð staðsetningu þess. 

Advania hvetur viðskiptavini til að meta hvort þörf sé fyrir sérstakar ráðstafanir s.s. fjölga VPN tengingum fyrir sína starfsmenn, tvöföldun nettenginga eða auka tölvubúnað fyrir starfsmenn.

Viðskiptavinum er bent á að hafa samband við sinn tæknistjóra eða tengilið hjá Advania eða senda póst á advania@advania.is ef óskað er eftir ráðgjöf. Advania leitast við að svara öllum fyrirspurnum og þjónustubeiðnum eins fljótt og auðið er en gera má ráð fyrir einhverjum töfum á afgreiðslu mála vegna mikils álags.

Advania hvetur viðskiptavini til að fylgja fyrirmælum landlæknis sem finna má á vefsíðu embættisins, landlaeknir.is.


TIL BAKA Í EFNISVEITU