27.3.2020 | Fréttir

Hægvarp úr Húsdýragarðinum

advania colors line

Hægvarp Advania sýnir nú beint frá fjósinu í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum þar sem kálfarnir Mosi og Burkni dafna vel þessa dagana. Garðinum hefur verið lokað eftir tilskipun frá sóttvarnalækni vegna Covid19 en fólki gefst nú kostur á að fylgjast með lífi dýranna í beinni útsendingu úr vefmyndavél.

Vorið er líflegasti tíminn í Húsdýragarðinum og von er á fjölgun hjá flestum húsdýranna. Náttúran hefur sinn vana gang þó gestum sé ekki heimilt að heimsækja garðinn.

Í hægvarpinu má fylgjast með hálfbræðrunum Mosa og Burkna sem komu í heiminn á bænum Bakka á Kjalarnesi í byrjun febrúar og eru því um þriggja mánaða gamlir. Bændur á Bakka hafa verið svo rausnarlegir að gefa húsdýragarðinum kálf á hverju ári.
Kálfana má þekkja í sundur á því að Mosi er með svartar granir en Burkni með rauðar.
Bræðurnir njóta útiveru á hverjum morgni á meðan fjósið er þrifið. Nokkrum sinnum á sólarhring fá þeir mjólk úr sérstakri fötu sem er með túttum á hliðunum svo þeir geti sogið mjólkina. Dýrahirðar sjá um mjólkurgjafir á daginn en næturvörður gefur þeim á nóttunni.
Logi Sigurfinnsson forstöðumaður Fjölskyldu- og húsdýragarðsins segir leitt að geta ekki tekið á móti gestum. „En úr því enginn kemst til okkar er mjög gaman að hægt sé fylgjast með dýrunum í beinni útsendingu.”

 

 

Hér má sjá meira um Hægvarp Advania

TIL BAKA Í EFNISVEITU